Hér fer smá samantekt á fallegum gjöfum sem hafa með einum eða öðrum hætti komið við sögu í frettabréfinu okkar á undanförnu ári. Hér gefst þannig tækifæri til að grúska í eldri skrifum okkar en öll fréttabréfin eru aðgengileg áskrifendum á síðunni eddaoggreipur.substack.com.
Mynd: Eggert Jóhannesson fyrir Mbl.is
Blóðbergssjampó
Í sumar mæltum við með ferðalagi í Mosfellsbæ og -dal og stungum upp á innliti á Ilmsýningu Nordic Angan. Blóðbergshársápan frá ilmolíudúóinu er sniðug og góð gjöf sem fæst hjá þeim í Álafosskvosinni og víða annarsstaðar.
Íslenskir matþörungar
Gnægtarborðið sem umlykur Ísland er efniviður í okkar eigin rómversku veislu. Íslenskir matþörungar er stórgóð handbók um þörungatýnslu og notkun. Fallega myndskreytt og í fínu broti. Það er svo auðvitað upplagt að snara jólabaðinu yfir í þarabað þetta árið.
Guðjón Samúelsson, húsameistari
Út er komin bók Péturs H. Ármannssonar um Guðjón Samúelsson. Pétur var einmitt sýningarstjóri áhugaverðrar sýningar um húsameistarann í Hafnarborg í fyrra. Bókin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi. Auðvelt að týnast í vefverslun þess og gaman að heimsækja búðina við Hagatorg.
Bókasafnsskírteini í Norræna húsinu
Á bókasafni Norræna hússins er artótekið þar sem hægt er að fá lánuð listaverk og skírteini þar því tilvalið í jólapakkann. Eins mætti hugsa sér að gefandi tæki bók Jonasar Eika, Efter solen, að láni og stingi undir tréð. Eins er gjafavöruverslun í húsinu þar sem vörur eftir Alvar Aalto og fleiri norræna hönnuði fást.
Fræ úr garðbúð Camillu Plum
Átrúnaðargoðið okkar er með stórkostlega fræbúð á netinu og líka á búgarðinum sínum á norður-Sjálandi. Hún hefur í sínum langa og lífræna búskap, ræktað upp ýmsar fornar tegundir af ertum og baunum sem vel geta vaxið í íslenskri veðráttu en þær eru bæði gómsætar og góðir félagar margra annarra matjurta. Í fræbúðinni eru líka býflugnavæn og litrík ætiblóm og satt best að segja allt það sem hugur garðyrkjumannsins girnist. Falleg gjöf fyrir garðyrkjufólk, stórt og smátt.
Samvera á Matbar
Gjafakort á veitingastað getur verið góð gjöf, ekki síst ef gjöfinni fylgja fyrirheit um samveru. Við mælum með samverustund vina á Matbar við Hverfisgötu, hvort sem fólk ætlar að fá ser polentu eða ekki.
Námskeið í Salt eldhúsi
Mat hefur reglulega borið á góma í fréttabréfunum enda erum við bæði miklir matgæðingar og sælkerar ekki síst. Nýlega mæltum við með að fylgja árstíðunum og baka sígilda plómuköku. Í Salt eldhúsi er hægt að kaupa gjafabréf á matreiðslunámskeið og mælum við með námskeiði í að baka franskar tartes. Geggjuð samvera í jólapakkann!
Prentverk eftir David Horvitz
Þegar David Horvitz sýndi á myndlistarhátíðinni Sequences árið 2017 gerði hann silkiþrykk í upplagi. Við vitum að enn eru til eintök sem hægt er að kaupa í Kling&Bang. Verkin fjalla um tíma og eiga aldeilis vel við núna.
Blóðberg
Í síðasta fréttabréfi skrifuðum við um aðra bók Þóru Karítasar Árnadóttur. Hún er skáldsaga byggð á sögulegum staðreyndum, sérlega fallega skrifuð, af ríkiri þekkingu á sögunni og guðfræðinni og ekki síst af miklu næmi fyrir náttúrunni og persónusköpun.
Vetrarkápa: Made in Reykjavík
Jólagjöfina fyrir frúna færðu í Kiosk á Granda þar sem ný kápulína Magneu Einarsdóttur er til sölu. Hún hefur komið tvisvar við sögu í fréttabréfinu: Stuttlega hér og aftur þegar við sögðum frá 100% ull á Hönnunarsafninu.
Fargufugjafabréf
Í sumar hvöttum við lesendur til að fylgjast með ferðum Rjúkandi fargufu og skella sér í gusu. Nú hafa gufustjórar til sölu gjafabréf sem hægt er að kaupa í gegnum Facebook-spjall. Endurnærandi gjöf.
Endurheimt votlendis að gjöf
Votlendi er okkur hugleikið og mikilvægi þess að endurheimta það, sér í lagi þar sem framræstar mýrar eru ekki í notkun. Með kaupum á vottonnum hjá Votlendissjóðnum má leggja þessu viðamikla verkefni lið.
Áskrift að fréttabréfi Eddu og Greips
Við föttuðum allt í einu að við gætum auðvitað mælt með áskrift að fréttabréfi Eddu og Greips í jólapakkann og gerum það bara svellköld.