Sunnudagurinn 19. apríl
Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag – þessum vetri að ljúka og bjartara framundan. Á komandi fyrstu dögum sumars er tilvalið að gera sér dagamun, baka pönnukökur, fara í eigin skrúðgöngu, pæla í sköpunarkraftinum eða hlusta á tónlist. Hér koma síðustu meðmæli vetrarins sem innihalda lyngrósir, Mozart, klukknahljóm og ómögulegt ferðalag til Parísar.
I. Grasagarðurinn í sumarbyrjun
Á vorin kviknar lífið og náttúran vaknar úr vetrardvala. Fátt er meira nærandi fyrir sál og huga en að fylgjast með þessum kunnuglegu litlu augnablikum sem gefa fögur fyrirheit um betri tíð, birtu og hlýju. Fyrsta græna brumið á trjánum, krókusarnir sem varpa skærum gulum og fjólubláum litum inn í síðvetrargrámann og fjörugur þrastasöngurinn sem fer á annað og hærra hljómstig með hækkandi sól. Fáir staðir eru eins góðir til að fylgjast með þessari fegurð en Grasagarður Reykjavíkur í Laugardalnum. Þessi stundum gleymda perla í hjarta borgarinnar er dásamleg heim að sækja og fyrstu vorblómin fá að njóta sín til fulls og er alúðlega að þeim hlúð af starfsfólki garðsins. Það vita ekki allir að Grasagarðurinn er formlegt safn og þar er safnkosturinn plönturnar sem allar eru vel skráðar og merktar og hver hefur sína sögu, sín sérkenni og sínar sérþarfir. Í garðinum eru átta safndeildir og má lesa um þær á heimasíðu garðsins.
Núna í upphafi vorsins eftir kaldan og langan vetur eru það einkum þrjár safndeildir sem áhugavert er að fylgjast með til að upplifa töfra vorsins áður en garðurinn allur færist í grænan hjúp. Steinhæðirnar tvær eru samansafn fjölbreyttra perla, gjarnan smávaxinna háfjallaplantna og smárunna sem margar blómgast snemma á vorin. T.d. skærgulir og bleikir maríulyklar (prímúlur) sem breiða út blöð sín og blóm mót íslenska vorkaldanum. Skógarbotnsplöntunar nýta sér sólargeisla vorsins áður en trén laufgast til að blómgast og eru fallegar breiðurnar einkenni vorsins. Þar má nefna haustlauka eins og krókusa sem heita ýmsum nöfnum og er tilvalið að kynna sér þau heiti með göngu um garðinn; páskaliljur, dalaliljur, vetrargosar og hinn réttnefndi vorboði sem með skærgulum blómum er eins og vítamínsprauta fyrir sólþyrstar sálir. Að lokum er það crème de la crème vorblómanna sem eru hinar stórkostlegu lyngrósir (Rhododendron).
Margir unnendur Grasagarðsins fylgjast spenntir með þegar stóra skógarlyngrósin blómgast seint í apríl eða snemma í maí (eftir því hvernig tíðin er). Hin næstum óhóflega stóru og ilmríku bleiku blóm hennar eru sannkölluð gleðisprengja. Í fyrra voru garðinum gefnar tvær nýjar lyngrósir af stórmerkilegu yrki sem nefnt var Vigdís í höfuðið á afmælisbarni vikunnar Vigdísi Finnbogadóttur. Þessum fíngerðu og fallegu lyngrósum var komið fyrir nálægt inngangi Grasagarðsins og um leið og frost fer úr jörðu verður verndarhulinum sem nú umlykur þær lokið af. Ekki er þó víst að blóm komi á þessu ári því lyngrósir blómstra einungis þegar þær hafa náð að fullvissa sig um að vaxtarstaðurinn sé þeim að skapi og það getur tekið nokkur ár. Kannski sjá þær þó ástæðu til að fagna 90 ára afmæli nöfnunnar með því að blómstra. Það er vel þess virði að gera sér ferð í garðinn á næstu vikum til að tékka á því.
Lyngrósin Vigdís í blóma í Grasagarðinum í Bremen.
Að lokum er ekki hægt að tala um Grasagarðinn og vorið án þess að minnast á fuglana sem leika á alls oddi þessar vikurnar. Á góðum degi má sjá margar fuglategundir í garðinum en mest áberandi núna eru spörfuglarnir sem syngja af krafti og fagna vorinu. Auðnutitllingar, skógarþrestir og starrar eru áberandi en mestu lætin eru sennilega í svartþrestinum, þessum nýja meðlimi íslensku fuglafánunnar sem komið hefur eins og stormsveipur inn í íslensku garðastemninguna. Nú eru karlfuglarnir biksvörtu með gula nefið að verja sitt óðal með kappi, sperra stélið með stæl og láta vel í sér heyra meðan kaffibrúnar dömurnar undirbúa sig fyrir að verpa fyrstu eggjum vorsins. Þeir sem vilja kynna sér betur þessa skemmtilegu fugla sem og íslenska fuglalífið almennt er bent á hinn frábæra Fuglavef Menntamálastofnunar.
Heimsókn í Grasagarðinn er sannarlega tilvalin dægradvöl og endurnæring nú á tímum sem endranær og við mælum með endurteknum vorleiðöngrum; þeim fyrsta á fimmtudag, sumardaginn fyrsta þegar vatnsskúlptur Rúríar Fyssa er gangsettur á ný eftir veturinn.
Grasagarður Reykjavíkur
Opinn daglega 10-15 og 10-22 frá 1. maí
Við erum að hlusta 🎶
„Ekkert nema heiðblár himinn, lækjarniður, sólskin og græn forsæla,“ var sagt um Brahms-sinfóníu sem hljóma átti á tónleikum sem við nú getum aðeins látið okkur dreyma um. Við hugsum til hlýrri og enn bjartari daga og njótum ferskra ávaxta íslensks tónlistarlífs.
II. Verk David Horvitz
Á föstudaginn síðastliðinn opnaði sýning myndlistarmannsins David Horvitz í sýningarrými Yvon Lambert Libraire í París. Horvitz ákvað að láta verða af þessari fyrirhuguðu sýningu þrátt fyrir að flest plön heimsins hafi tekið stakkaskiptum á nýliðnum vikum. Á sýningunni er ljósmynd af listamanninum sjálfum sem horfir beint í myndavélalinsuna og skýrir hann verkið I Imagine I am Looking Into the Eyes of Someone Looking at My Eyes After My Death. Titlar verka Davids kjarna oft hugsunina í verkum hans og hér virðist engin undantekning vera á því.
Það liggur þó ljóst fyrir að sýningin er ekki beinlínis opin, þar sem alls enginn mun sjá hana, því hún opnar á tímum almenns samkomubanns í heiminum og lokar degi áður en fyrirhugað er að Yvon Lambert, sem bæði er bókverkabúð, útgáfa og gallery, opnar að nýju. Sýningin er því jafn (ó)aðgengileg öllum og við leyfum okkur því að mæla með þessari sýningu í Parísarborg og ekki síður því að þið kynnið ykkur hugarsmíði þessa kröftuga og næma listamanns.
Ákvörðun Horvitz um að setja upp sýninguna í breyttum heimi kemur ekki á óvart. Hún er í fullkomnu samræmi við listsköpun hans sem finnur sér takmarkalaust nýja farvegi. Það er eins og kraninn sé á fullu blússi og sköpunarKRAFTURinn hreinlega ryðjist í sífellu út um mannhylkið David. Hann er „já-maður“ og að því er virðist í blússandi góðu samtali við stóru og fíngerðu kraftana, hreyfiöflin. Ég er ekki viss hvenær Horvitz er fæddur. Sé þvi slegið upp á veraldarvefnum koma ýmsar niðurstöður. Hann er ekki maður fastmótaðra skilgreininga. Ég held að orðið flæði eigi vel við hér. Ég hef hitt hann og komist að því að hann er hispurslaus, tekur fáu sem sjálfsögðu en öllu mögulegu, er með síkvikt ímyndunarAFL og skeytir litlu um fyrirframgefin samfélagsnorm. Á vefsíðunni hans er yfirlit yfir verk hans, engar myndir, en upplesnar frásagnir um hvert verk. Kannski hann hafi valið akkúrat þessa leið til að skerpa einbeitingu og hreyfa við ímyndunarafli þess sem skoðar.
Horvitz sýndi bæði á 10 ára afmæli Sequences myndlistarhátíðar 2016 hér í Reykjavík og á áttundu hátíðinni sem haldin var 2017. Á afmælishátíðinni var gestum boðið að koma í Listasafn Íslands þar sem verkið Let Us Keep Our Own Noon var sett upp. Í verkinu, sem er sería af 47 brons bjöllum steyptum úr gamalli kirkjuklukku, birtast hugleiðingar hans um tímann og iðnvæðinguna, samspil þessara fyrirbæra og áhrif þess síðarnefnda á hið fyrrnefnda. Gestum var boðið að virkja verkið og taka hver sér í hönd eina af bjöllunum. Hópurinn hringdi saman bjöllunum í anddyri safnsins og hver og einn hélt svo sína leið um borgina, hringjandi sinni bjöllu þannig að um leið og þykkur samhljómurinn fjarlægðist varð ómur þess sem gekk tærari með hverju skrefi.
Let Us Keep Our Own Noon. Svipmynd af göngu ykkar einlægrar í Lækjargötunni í Reykjavík á 10 ára afmæli Sequences myndlistarhátíðar, 2016.
Í fyrirlestri í myndlistardeild Listaháskóla Íslands sagði David frá verkum sínum og þessu tiltekna verki. Það má sjá (lo-fi) upptöku frá fyrirlestrinum á Vimeo-síðu myndlistardeildar sem hefur að geyma fyrirlestra sem þar eru haldnir.
Klukka sem slær í takt við hjarta þitt, klukka sem er með hvali fyrir vísa, klukka sem sjórinn trekkir, a clock that is wound by the wind, a clock that falls asleep,
eru meðal áletrana á silkiprentverkum, sérútgáfu með íslenskum letrunum af verkinu Proposals for Clocks sem framleidd voru og sýnd í Kling&Bang og víðsvegar um borgina á Sequences VIII. Prentin voru hengd upp víðsvegar; í sundlaugum, á torgum, rafmagnskössum, meðfram götum og byggingasvæðum og lifðu þau þar sínu afstæða lífi þar til plaköt líðandi stundar máðu þau smám saman út. (Vert er að minnast á að enn er hægt að festa kaup á prentverkum úr seríunni í Kling&Bang.)
Proposals for Clocks. Á myndinni má einnig sjá glerskúlptúra sem Horvitz vann úr gleri sem hann safnar á ströndum og í fjörum. Sjór var settur í skúlptúrana og þeir notaðir í gjörningi sem David vann í samstarfi við tónlistarmanninn Jófríði Ákadóttur. Hún samdi tónverk fyrir skúlptúrana, sem þau fluttu saman í Mengi. Mynd: Margarita Ogolceva.
Hugmyndirnar raungerast þannig í hvort heldur er prentverkum, vatnslitateikningum, glerskúlptúrum, bókatrjárækt, ýmsum matartilraunum, gjörningum, fríum myndum á vefnum, póst-verkum (mail-art) eða jafnvel einskonar opinni dagbók á Instagram sem býður öðrum innsýn inn í flæðið. Þannig birtast verk David Horvitz í svo víðu samhengi að erfitt er að kortleggja þau og inntak þeirra svo vel sé. Tilfinning mín er að auðveldara sé að setja huglægan fingur á skapandi hugsun hans og hvernig verkin rúma fyrirbæri sem maðurinn hefur skilgreint út frá mismunandi forsendum (eins og tíma og fjarlægð) og samspil þeirra við tilvist efnis á jörðinni í sinni margbreytilegu mynd.
Nýverið og í ljósi breyttra aðstæðna í skólastarfi hefur David Horvitz skráð í dagbókina æfingar sem hann gerir heima með dóttur sinni.
Hvert verk, hver hugmynd, fær því að finna sinn farveg á sínum forsendum og hlutverk hans sem listamanns er að vera farartæki fyrir hugmyndirnar. Spurningum og vangaveltum er varpað fram, mismikið er um skýr svör enda er hvorki krafa um þau né heldur liggja þau alltaf ljós fyrir. Kristaltært er þó að verkin snerta, vekja, kitla, kæta og hreyfa við hverjum þeim sem vill gefa sér stund með þeim (eða væba með þeim eins og unga fólk nútímans myndi segja). Því allt er jú á sífelldri hreyfingu. Hún er eini fastinn.
I Imagine I am Looking Into the Eyes of Someone Looking at My Eyes After My Death.
David Horvitz, Yvonne Lambert, 14 rue des Filles du Calvaire, 75003 Paris.
17. apríl – 10. maí 2020
III. Mikið af Mozart
Wolfgang Amadeus Mozart er meðal mestu goðsagna í tónlistinni fyrr og síðar og verk hans hljóma á degi hverjum um allan heim. Um hann hafa verið skrifaðar óteljandi bækur, leikrit og kvikmyndir og híbýli hans eru mörg hver orðin söfn til minningar um manninn sem eitt sinn átti þar heima. Frægð hans er slík að nafnið er jafnvel notað til að selja hluti sem eru alls ótengdir tónlist til dæmis Mozart-súkkulaði og Mozart-líkjör. Hann var undrabarn og snillingur, samdi ódauðleg meistaraverk en lést langt fyrir aldur fram í sárri fátækt og var grafinn ómerktri fjöldagröf – segir sagan. [...] goðsögnin Mozart á það stundum til að skyggja á staðreyndirnar meira en góðu hófi gegnir.
Svona hefst fyrsti þáttur 10 þátta raðar sem tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson gerði fyrir Rás 1 fyrir nokkrum árum. Nýlega birtust þættirnir svo á ný sem hlaðvarp undir hlaðvarpsregnhlíf Rásar 1, Fríhöfninni, og hægt er að finna á flestum hlaðvarpsveitum. Við mælum með Spotify. (Hér á apple). (Það er fagnaðarefni að RÚV gefi þessa þætti út á hlaðvarpsformi en um leið er það umhugsunarefni hve illa RÚV virðist takast að halda utanum þessar útgáfur sínar.)
Til að auðvelda lesendum leitina söfnuðum við þáttunum saman í spilunarlista á Spotify.
Þó svo að um töluvert magn efnis sé að ræða, þættirnir eru 10 og hver um 50 mínútur (passleg lengd göngutúrs eða hangs á sófanum), mælum við heilshugar með þeim. Öll þekkjum við Mozart, margir séð bíómyndina Amadeus og heyrt verk hans oft og mörgum sinnum. Við vitum að hann dó snemma, var fátækur, kannski sprelligosi og jafnvel óþolandi í alla staði. En í þáttunum kynnumst við bakgrunni hans, fjölskyldu, lífshlaupi og áður flestum óþekktum staðreyndum. Til dæmis „ævintýralegu afreki Mozarts í Vatíkaninu, þegar hann skrifaði upp kórverk sem var einkaeign Páfagarðs, eftir að hafa heyrt það aðeins einu sinni“, eins og segir í kynningu annars þáttar.
Í þáttaröðinni hljómar eðlilega tónlist tónskáldsins en oftast einungis stutt dæmi enda af nægu að taka. Þessu mætir Árni með því að búa til systurröð þáttanna sem nú má einnig finna í Fríhöfninni, Meistaraverk Mozarts, og passar vel með vinnu eða öðru sem krefst ekki eins mikillar hlustunar.
Fyrsta verkið sem hljómar í þáttaröðinni er uppáhald margra; Adagio úr klarínettukonserti tónskáldsins. Konsertinn var eitt síðasta verkið sem hann kláraði áður en hann lést undir lok 18. aldar aðeins 35 ára gamall.
Arngunnur Árnadóttir leikur hér Adagio úr klarínettukonserti Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2015. Myndbandið hefur vakið mikla athygli og verið skoðað nærri 9 milljón sinnum, oftast allra sem innihalda flutning verksins á Youtube.
Til gamans má geta þess að á fimmtudagskvöld er á dagskrá RÚV2 upptaka frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september 2015 þar sem Arngunnur Árnadóttir leikur klarínettukonsertinn en á tónleikunum hljómuðu líka Eldur Jórunnar Viðar og sinfónía eftir Robert Schumann.
Mozart: Misskilinn snillingur,
Rás 1 – hlaðvarp (Fríhöfnin)
Okkar bestu óskir um góðar stundir og gleðilegt sumar,
Edda og Greipur
👉 Eitt til viðbótar: Listamenn um víða veröld stytta sér og öðrum stundir með því að senda allskonar póstkort í netheimum nú á tímum samkomuhafta. Meðlimir bandaríska tónlistarhópsins Decoda hafa undanfarið útbúið lítil myndbönd og sent út við sólarlag vestanhafs. Hér er eitt frá San Francisco en lesendur ættu að kannast við íslensku vögguvísuna sem hljómar: