Sunnudagurinn 23. ágúst
Við bjóðum upp á þrennu úr Norræna húsinu sem okkur er svo ósköp kært. Það er bara svo þægilegt að vera í því, enda hugað að hverju smáatriði við hönnun þess. Sér í lagi á góðviðrisdögum indverska sumarsins sem nú ríkir í höfuðborginni er ljúft að eiga góðar stundir innanhúss og utan, fá nýtt sjónarhorn á borgina, njóta leiðsagnar og tónlistar og enda jafnvel daginn á að setja upp sýningu heima í sinni eigin stofu.
I. Húsið sjálft
Hljóðleiðsögn
Norræna húsinu.
Alla daga nema mánudaga frá 10 til 17.
Þegar Norræna húsið reis og því valinn staður í Vatnsmýrinni þurfti að útbúa manngerða þúfu undir því svo það sykki ekki í mýrina. Aritektinn, Alvar Aalto, staðsetti húsið nákvæmlega, vildi að það kallaði til Esjunnar eftir ás yfir tjarnirnar og eftir Lækjargötu. Þó svo landslagið hafi mikið breyst síðan Alvar pældi í þessu og mörg hús háskólans og tengdrar starfsemi risið í kring er enn nokkuð greið leið fyrir augun eftir þessum ás. Það er kannski táknrænt að fyrir enda Lækjargötunnar er þó risið annað menningarhús eftir aðra norræna arkitekta og svo hafa trén auðvitað vaxið.
Þessar staðreyndir um þúfuna og ásinn má heyra í stuttri en vandaðri hljóðleiðsögn um Norræna húsið. Leiðsögumaður er listsagnfræðingurinn og útvarpsmaðurinn Guðni Tómasson.
Þó svo að það séu viðburðirnir eins og höfundakvöldin (við skrifðum um þau í mars), veitingastaður eða bókasafnið sem venjulega draga að sér gestina er húsið sjálft nægt aðdráttarafl, áfangastaður í sjálfu sér. Við mælum því með þessari leiðsögn sem færir mann um helstu rými og út úr því líka. Við kynnumst finnskum skógum og stórum norðurgluggunum sem skapa veitingastaðnum eitt magnaðasta útsýni borgarinnar, þó ekki sé mjög hátt setið. Þegar vorsólin speglast að kvöldi í gluggum húsanna undir Hallgrímskirkju er enginn staður betri. Þegar þetta er skrifað í sólinni á nýrri bryggju fyrir norðan húsið byrgja reyndar laufum prýddar trjákrónurnar húsanna. Þessi tré voru ekki svona há þegar Aalto vappaði um í Vatnsmýrinni á 7. áratugnum.
Norræna húsið og gróðurhúshorn í ágústsólinni.
Umhverfi hússins er glæsilegt og þangað liggja leiðir úr mörgum áttum sem gera húsið og veitingastaðinn að kjörnum áfangastað sunnudagsgöngunnar, hvort sem komið er um fallega göngubrúna yfir Hringbraut eða vestan úr bæ. Alvar Aalto lagði grunn að skipulagi nánasta umhverfis hússins og síðan hafa veggur og téð bryggja bæst við svo eitthvað sé nefnt. Bryggjan og tröppur hennar skapa frábært aðgengi að manngerðri tjörninni sem arkitektinn sjálfur lét útbúa við húsið. Vel til fundið.
Við erum að hlusta
Það er norræn tónlist undir nálinni um þessar mundir, bæði gömul og ný.
II. Sönglaga- og grænmetissúpa
Sönglagasúpa, tónleikar,
Norræna húsinu.
Þriðjudaginn 1. september kl. 20 (súpa borin fram frá 18).
Í vetur hreiðruðu nýir veitingamenn um sig í Norræna húsinu undir heitinu Matr. Þar er Árni Ólafur Jónsson marteiðslumaður í brúnni og hans hægri hönd er kona hans, óperusöngkonan Guja Sandholt. Eins og við nefndum hér að ofan eru gluggarnir á veitingasal hússins mikið aðdráttarafl en við getum fyllilega mælt með matnum sem í boði er á staðnum. Í morgun lagði kardimommubolluilm yfir húsið en að norrænum sið eru þær fáanlegar ásamt mörgu öðru, sem gjarnan er fagurlega borið fram með skreytingum úr nágrenninu.
Í vikunni sem leið var kynntur til leiks nýr réttur á matseðlinum. Sönglagasúpa. Nokkra þriðjudaga í síðsumrinu er sum sé efnt til lítilla söngtónleika með takmörkuðum fjölda gesta svo rúmt sé um alla. Til að koma sem flestum fyrir er opnað á milli stóra salarins og bókasafnsins. Bókasafnið er eitt fallegasta rými landsins og því ómótstæðilegt að fá að setjast þar og njóta tónlistarinnar.
Okkur langar að mæla með tónleikunum annan þriðjudag, sem er 1. september. Þá koma fram Bjarni Thor Kristinsson, bassi, Lilja Guðmundsdóttir, sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari. Innifalið í miðaverðinu er súpa sem hægt er að gæða sér á þar sem er pláss á undan tónleikunum. Þetta getur eiginlega ekki klikkað: góð súpa, færir tónlistarmenn, falleg rými og sjaldgæft tækifæri til að komast á tónleika. Negla.
III. Artótekið
Artótek
Norræna húsinu,
Opið alla daga nema mánudaga frá 10 til 17.
Sófamálverk er séríslenskt fyrirbæri, það að almennt séð eigi fólk frumgerð verks í sinni eigin stofu og að fyrirbærið eigi meira að segja hugtak í tungumálinu. Víðast á meginlandi Evrópu prýðir stofuna plakat og þó sú sem þetta skrifar sé mikill aðdáandi plakata, er allt önnur stemning í því að hafa frumgerð verk nálægt sér. Grafíkverk eru sannarlega frumgerðir, en eru öllu jafna gerð í fáum eða mörgum eintökum og eru þá númeruð. Oft hefur hvert eintak sín sérkenni, þó líkindin fari eftir þeirri aðferð sem valin er hverju sinni. Í ljósi fjölföldunarinnar eru þau almennt séð ódýrari en stakar frumgerðir verka eins og málverk og þar af leiðandi oft aðgengileg til kaupa. Nú eða láns.
Artótek Norræna hússins á rætur sínar til ársins 1972 þegar safninu voru gefin um 200 grafíkverk með þeim formerkjum að þau skyldi lána til safngesta á sama hátt og bækurnar. Þetta var fyrsta safn sinnar tegundar á Norðurlöndunum og mæltist strax vel fyrir. Nú eru verkin á sjötta hundrað og bættust síðustu verkin við fyrir tæpum tveimur árum þegar verk nokkurra grænlenskra listamanna voru keypt í tengslum við sýningu í húsinu. Félagið Íslensk grafík kom að stofnun Artóteksins en það fagnaði einmitt 50 ára afmæli í húsinu nýverið og boðið var upp á sýningu á verkum félagsmanna, en baka til í Hafnarhúsinu er félagið með sýningarsal og verkstæði og býður reglulega upp á sýningar og aðra viðburði þar.
Með litlu laufléttu bókasafnsskírteini er hægt að fá lánuð þrjú verk úr Artótekinu í þrjá mánuði í senn. Við mælum með því hér að áskrifendur trilli í Vatnsmýrina og setji saman þriggja verka sýningu í sinni góðu stofu og bjóði völdum gestum til opnunar. Tilvalið er að bjóða upp á veitingar við hæfi og gjarnan í takt við árstíðirnar og þá stemningu sem gestgjafinn vill kalla fram.
Hér glittir í ljósmyndir grænlenska listamannsins Ivars Silis.
Þó í Artótekinu séu að mestu leyti grafíkverk, er þar einnig eilítið um ljósmyndir, teikningar og vatnslitamyndir. Safnið er kjörið til að kynna sér ólíkar aðferðir í prenti og má til að mynda sjá og fá lánaðar ætingar eftir Ragnheiði Jónsdóttur og Eddu Jónsdóttur (sem stofnaði i8 gallerí), dúkristur eftir Jón Reykdal, steinþrykk eftir Braga Ásgeirsson, þurrnálar og litógrafíur eftir Sigrid Valtingojer og Sigurð Guðmundsson, akvatintur, koparstungur, silkiþrykk og einþrykk svo fátt eitt sé nefnt. Það verður að viðurkennast að kunnátta þeirrar er hér ritar á norrænum grafíklistamönnum er takmörkuð en þar sem ég fletti á milli verkanna í mjög svo aðgengilegri listaverkageymslunni staðnæmdist ég við íðilfagrar þurrnálar Gunnars Norman frá 1975. Ofurfínleg verk og falleg mótív sem ég væri mjög til í að hafa upp á vegg. Stórar ljósmyndir Ivars Silis vöktu líka athygli mína og gætu komið vel út á ganginum.
Gaman væri að sjá meiri endurnýjun á verkum í Artótekinu og fleiri verk eftir yngri kynslóðir starfandi listamanna. Grafík og prentverk hafa verulega sótt í sig veðrið á undanförnum árum en hafa ekki alltaf þótt það svalasta í bransanum. Hafa ber þó hugfast að með tilkomu grafíkur varð bylting, þar sem möguleikinn á að fjölfalda efni varð til, og hvort heldur sem það voru bækur, dagblöð, auglýsingar eða listaverk sem litu dagsins ljós hafði blað verið brotið og er svo komið að stór hluti listamanna nýtir sér töfra grafíkurinnar á starfsferli sínum, okkur til ánægju og yndisauka.
Síðsumarskveðja,
Edda og Greipur