Sunnudagurinn 26. júlí
Við hugum að öndun, hita og kulda. Við ferðumst norður í land um lúxusvegi og heimsækjum eitt albesta safn landsins, fáum yfir okkur gusu í gufu og látum lesa okkur pistilinn á gömlu gufunni.
I. Elsku besta Safnasafnið
Gróður jarðar og hugarflugs og fleiri sýningar,
Safnasafninu við Svalbarðseyri, Eyjafirði.
Opið til 13. september
Safnasafnið við Svalbarðseyri í Eyjafirði er tvímælalaust eitt áhugaverðasta og skemmtilegasta safn Íslands og þó víðar væri leitað. Það fagnar um þessar mundir 25 ára afmæli og sem endranær eru þar safaríkar sýningar úr safneign sem vekja auðveldlega forvitni allra, held ég að sé óhætt að segja.
Safneign Safnasafnsins er einstök á landsvísu því hún hefur að mestum hluta verið byggð upp í kringum verk alþýðulistamanna, sem af ýmsum ástæðum hafa ferðast á jaðrinum frekar en svifið um í hringiðu listasenunnar á Íslandi. Þeim er í skránni líst sem „sönnum, óspilltum og frjálsum“ sem leiðir hugann að ólíkum forsendum gjörða okkar, því sem gert er í skilyrðisleysi, til sjálfsbjargar eða er háð skilyrðum og lögmálum fjármagns eða annars afls. Stofnendur safnsins, þau Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir hafa af alúð og ástríðu byggt safnið upp ásamt safnkosti og standa vaktina enn og unnu að yfirstandandi sýningum í samvinnu við Unnar Örn og fleiri sem komu að sýningastjórnun, textavinnu og þeim fjölmörgu verkefnum sem falla til við gerð sýninga.
Gróður leikur stórt hlutverk í sýningunum, en einnig letur, umhverfismál, huldufólk, barnslegt hugarfar, kjarnar, innsæi og fagurfræði.
Svo segir í sýningaskránni sem segir af sögu safnsins og sérhverri sýningu sem nú er uppi og spannar bæði ólík tímabil í sögunni og margvíslega miðla; teikningar, videó, skúlptúra, útsaum, ljósmyndir, málverk, hljóðverk og fleiri. Við nefnum hér tvær einkasýningar en þær eru sannarlega fleiri.
Íðilfögur verk Sölva Helgasonar (sem fæddist fyrir akkúrat 200 árum í Skagafirði) taka á móti gestum aftan við móttökuna og það verður að segjast að sá er þessi orð ritar þreytist ekki á að skoða hans fínlegu blómaskrýddu verk, fjölskrúðugar persónur þeirra og rituð orð, svo smá og fáguð að sérhvert er eins og örlítil teikning. Enda eru þau nánast ólæsileg og ekki rituð til að vera sérhverjum læsileg, heldur nýta til fullnustu hvert pappírssnifsi sem hann komst yfir. Það er snúið til þess að hugsa að höfundur þessara verka hafi ávallt lifað utangarðs, flakkað um landið í mikilli fátækt, gjarnan skilið eftir sig verk í þakkarskyni, en eilíflega synt á móti straumnum og barist með sínum hætti gegn vistabandinu, sem mér var eitt sinn sagt að hafi síðast verið afnumið á Íslandi meðal allra Evrópulanda. Sé það rétt þýðir það í raun að þrælahald hafi lengst verið löglegt og við lýði á Íslandi. Hæglega má svo yfirfæra það og slíkan lifnað á jaðrinum og í viðvarandi fátækt yfir á samtímann og fjölda fólks sem ekki fæðist með silfurskeið í sjónmáli, og fær fá ef einhver tækifæri til að rækta hæfileika sína og styrkleika, sjálfu sér og samfélaginu til vaxtar. Gæfulegt væri ef við sem samfélag drægjum lærdóm af fortíðinni.
Mig langar einnig að draga fram verk Guðrúnar Bergsdóttur sem eru útsaumsverk sem hún vann á árunum 2000–2018. Verkin eru sett upp í tímaröð og hefur ferðalagið á milli þeirra í tíma og rúmi mikið aðdráttarafl fyrir litaglatt auga. Verkin eru öll unnin í algeru flæði, án forskriftar og einnig í algeru flæði listamannsins í daglega lífinu þar sem þau eru unnin í strætó, í kaffipásum í vinnunni, í heimsóknum og hvaðeina og ferðast Guðrún víst gjarnan með þau verk sem í vinnslu eru hverju sinni með sér hvert sem hún fer. Það er eins og innri kraftur myndgerist og birtist í saumsporunum, litunum og formunum sem skipulagt kaos, flæðandi landslag, athafnir og hugsanir sem hver hefur sinn tíma og sitt pláss en eru allar órjúfanlegur partur af heildinni. Ætli það sé ekki eins og með lífið sjálft, allt er á einhvern máta tengt og hefur þannig áhrif hvert á annað. Það er ef til vill einn kjarni málsins. Sýningin er ein af þremur sem framlag Safnasafnsins til hinnar frábæru hátíðar List án landamæra og er Margrét M. Norðdahl sýningastjóri hennar.
Brot úr verki Guðrúnar Bergsdóttur á sýningu hennar.
Innlit á sýninguna Gróður jarðar og hugarflugs. Fögur salarkynni og umhverfi safnsins gæða sýningarnar sérstökum anda.
Að lokum ber að nefna Gróður jarðar og hugarflugs sem er ævintýraleg samsýning fjölmargra ólíkra listamanna sem Níels Hafstein sýningarstýrir og er hreint dásamleg, margslungin og nærandi á alla kanta. Níels hefur verið atkvæðamikill í íslensku myndlistarslífi allt frá því hann lauk námi 1973 og hefur því oft á tíðum haft takmarkaðan tíma til að sinna eigin verkum. Nú er sýningin Viðkvæmur farangur á verkum hans aftur á móti uppi í safninu þar sem hann gerir að yrkisefni sínu vatnsskort og staðreyndir um vistkerfi sjávarins. Við mælum einlæglega með heimsókn í Safnasafnið og að gefa sér góðan tíma í að skoða og taka inn efni verkanna og dvelja og grúska í bókastofunni. Vert er að nefna að aðgengi er fádæma gott og til fyrirmyndar.
Við erum að hlusta 🎶
Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda, fer fram á Patreksfirði um næstu helgi. Þar verður m.a. ný mynd Jóhanns Jóhannssonar á dagskrá auk þess sem gestir kynnast góðum hirði í Ísafjarðardjúpi, afrískum dönsurum, mæðrum og sirkuslistamönnum.
II. Gusugangur
Rjúkandi fargufa,
Reglulega, víðsvegar.
Rjúkandi fargufa er hjólhýsi sem umbreytt hefur verið í gufubað og dúkkar gjarnan upp á Ægisíðunni og stundum annars staðar. Rjúkandi finnur sér pláss nálægt sjónum svo gestir geta runnið ofaní jörðina í sjósundi og því næst bráðnað inn í hitann og vermt kalt holdið. Leikinn má endurtaka nokkur skipti líkama og sál til mikillar sælu. Lítill fugl hvíslaði því að okkur að Rjúkandi væri á flakki um þessar mundir og sauna-gusur yrðu auglýstar með skömmum fyrirvara víðsvegar um landið. Það gæti verið vert að fylgjast með ef þið eruð á ferðinni, eða bíða fram í ágúst þegar næstu gusur verða á höfuðborgarsvæðinu.
Þar sem við vitum að fjórðungi bregður til nafns heitir gestgjafi fargufunnar auðvitað Hafdís og býður sú hafsins gyðja gestum sínum ekki bara upp á „gusurnar“ eins og hún kallar þær, heldur líka ýmsar viðbætur við það sem fyrir er, sem er þó alveg nóg. Ilmkjarnaolíur, tónlist, kaffimaski og slíjmugur þarasláttur hefur heyrst nefndur.
Fyrir þá sem ekki hafa prófað sjósund/sjóbað, þá er alveg óþarfi að óttast það. Gott er að hita líkamann aðeins að innan áður en gengið er útí, annaðhvort með nokkrum armbeygjum og hoppum, kröftugu klappi á líkamann eða öndunaræfingum sem kynda kroppinn.
Jöfn og djúp öndun skapar hægari og sterkari hjartslátt og jafnar og hægir á heilasveiflum. Slík öndun hefur róandi áhrif á líkamann.
Svo mælir Guðni Gunnarsson einn af frumkvöðlum Íslands í líkamsrækt og stofnandi Rope Yoga-setursins en hér fjallar hann lítillega um öndun og sýnir ólíkar tegundir hennar. Wim hof er sem dæmi góð áður en farið er í sjósund, en að æfingum loknum skal alllöng stund líða áður en farið er í sjóinn (10–20 mínútur). Það að synda eða svamla í köldum sjó fjallar nefnilega mikið um öndunina, eins og reyndar allt lífið.
Að anda djúpt og rólega ofan í maga er lykilatriði í sjónum. Æfingin er að komast yfir það að hugsa um kuldann og einbeita sér að önduninni. Finna ró og sælu í hafinu. Þegar í sæluna er komið er aftur vert að minnast á að ráðlagt er að dvelja hóflega lengi í sjónum og gæta þess að ná góðum hita aftur í líkamann að baðinu loknu. Rjúkandi fargufan er stórgóð til þess, og kostir gufubaða fjölmargir eins og kaldra baða, þau styrkja ónæmis- og sogæðakerfið, eru góð fyrir æðakerfið og hafa áhrif á sýrustig líkamans sem gjarnan er of lágt.
Mörg lönd stæra sig af sértækri baðmenningu. Íslendingar státa sannarlega af sundlaugunum, sem vissulega eru einstakar og mikil lífsgæði að geta notið þeirra auk heitu uppsprettanna sem finnast víða um landið. Það er þó nokkuð merkilegt að hugsa til þeirra auðlinda sem til eru á Íslandi og hve fábreytt baðmenningin raunverulega er. Nú er þó hægt og rólega að verða breyting þar á með aukinni iðkun almennings á köldum böðum og sjóböðum og fleiri almenningsböðum sem hafa opnað víðsvegar um landið. Muniði þegar við sögðum ykkur frá tilraunum með þaraböð? Þannig böð eiga enn eftir að finna sér fastmótaðari farveg, þó vert sé að minnast á þaraböðin á Reykhólum þar sem mikið frumkvöðlastarf hefur verið unnið. Þau eru þó ekki alveg eins og best verður á kosið, en ósköp ljúf.
Rjúkandi er fínerís gufa og stórgott dæmi um einstaklingsframtak sem bætir heilmiklu við baðmenningu höfuðborgarbúa. Hægt er að kaupa klippikort, eða leggja til frjálst framlag við hverja heimsókn. Rjúkandi gusurnar eru auglýstar á samnefndri Facebook-síðu og nauðsynlegt er að bóka pláss. Hægt er að hafa samband fyrir hönd hópa og bóka tíma í gusu.
III. Orð í tíma töluð
Klárlega gríðarlegur birkiþrastarsveimur,
RÚV.is (Rás 1)
Að lokum kemur hér stuttur moli en við getum ekki orða bundist og mælum heilshugar með að þið leggið við hlustir. Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, flutti tvo pistla um ný orð og ofnotuð orð í Tengivagninum á Rás 1 fyrr í sumar. Ekki bara skrifar Steinunn afbraðgs texta heldur flytur hún þá vel með sinni huggulegu frásagnarrödd. Að auki eru þeir bráðsniðugir og fróðlegir. Hún segir meðal annars:
Meinlegt dæmi um sérstakt indælisorð sem búið er að kæfa með ofnotkun er orðið vegferð. Nú hefur allur andskotinn snúist upp í vegferð. Ég sé ekki fyrir mér að það orð gæti orðið á minni ljóðrænu vegferð upp frá þessu. Vegferð hefur nú á sér væminn blæ og það er eins og eitthvað ráðgefandi við það. Sá sem notar orðið vegferð ætlar greinilega að hafa einhvers konar mildilegt sálusorgaravit fyrir okkur. Þannig að kannski væri enn hægt að nota það í sálm, eða í minningargreinar um vammlausar vegferðir.
Hér má nálgast pistlana á menningarvef RÚV:
👉 Fyrri pistillinn
👉 Síðari pistillinn
Bestu kveðjur,
Edda og Greipur