Sunnudagurinn 6. september
Þá eru norðurljósin farin að sýna sig og haustfegurðin tekur brátt yfir. Við lítum við í hvítum kubbi og förum í fjöruferðir, hér heima og á Írlandi. Lagalistinn er fenginn að láni og í pylsuendanum eru tvær rúsínur.
Molarnir með kaffinu í dag:
I. Loftleikur, einkasýning í i8 Gallery
II. Lífríki þörunga, ný bók og slíjmböð í Sligo
III. Normal People, Sjónvarp Símans
– Skynæfing 3
– Ritstjórar á Rás1
I. Loftleikur
Loftleikur, einkasýning Margrétar H. Blöndal
i8 Gallery, Tryggvagata 16
Stendur til 10. október.
Ég valdi mér myndlistina sem tjáningarform, ég valdi þann stað þar sem orðunum sleppir. Í ferli verksins verð ég málhölt, skynjunin hverfist frá einni svipmynd til annarrar og ég verð að loka augunum því ég ræð ekki við hliðstæðurnar í kringum mig.
segir í texta sem fylgir sýningu Margrétar H. Blöndal og er brot úr samtali hennar við kollega sinn í myndlistinni Ingólf Arnarsson (sem var annar sýningarstjóra Sequences myndlistarhátíðar sem við hófum leika með í fyrsta fréttabréfinu fyrir tæpu ári síðan). Mér finnst eins og þessi lýsing Margrétar segi margt um vinnuferlið hennar og leyfi mér að prjóna við þetta pælingum um gildi trausts á eigin tilfinningu, reynslu formæðranna sem býr í okkur, djúpu röddinni, innsæinu og mögulegan ávinning af því að rækta þessa þætti og fylgja þeim, frekar en ávallt hinu útskýranlega og rökhyggjunni.
Vinnuaðferðir listamanna eru svo óskaplega ólíkar og lykilatriði hvers og eins að finna sínar eigin. Þær leiðir sem hjálpa viðkomandi að kalla fram hugmyndirnar, eima þær, finna þeim farveg og raungera þær. Þetta á auðvitað við um okkur öll og ættum að huga nákvæmar að dagsdaglega. Ég verð að segja að ég er sérdeilis glöð með aukna umræðu og akademískar rannsóknir á þess lags þekkingu sem mætti kannski kalla tilfinningaþekkingu eða skynþekkingu og er nauðsynleg til jafnvægis við þá sem byggir á rökum. Rannsóknirnar ætti ekki að þurfa til, eru enda hálfgerð mótsögn, en áhugaverðar engu að síður í okkar vestræna heimi. Þær sýna gjarnan fram á ágæti þeirrar tegundar þekkingar sem verður til við iðkun og hefur verið höfð í hávegum víðsvegar um heiminn í árþúsundir. Bendi í þessu samhengi til dæmis á nýlegan íslenskan heimildaþátt á RÚV, Börn hafsins, um Moken-ættbálkinn í Taílandi sem í gegnum aldirnar hefur byggt samfélag sitt á munnlegri geymd, hæfni í köfun og miðlun þeirrar þekkingar kynslóð fram af kynslóð, en stendur nú frammi fyrir margvíslegum ógnum tengdum ferðamennsku og alþjóðavæðingu.
Hluti af innsetningu á Loftleik. Mynd fengin að láni af vef i8 Gallery
Í samtalinu við Ingólf segir Margrét um efniviðinn sem hún vinnur með:
Ég á bland í poka frá ólíkum skeiðum og stöðum á jarðkringlunni. Sarp sem í hafa safnast snifsi frá öðrum sýningum auk nýlegri uppsprettna. Ég vel efni út frá eiginleikum þess. Litur er veigamikill þáttur, viðkoman já, eitthvað sem hægt er að bíta í, klípa, klippa, kroppa, líma, nudda, negla, rífa, hnýta, strjúka, slíta, staga og teygja. Táknræn merking nei, því þá þrengi ég stakkinn og set hugsunina framar möguleikunum. Persónulegar vísanir og minningar koma eftir á.
Hér fáum við eilítið meiri innsýn inn í vinnuferlið. Með ríka tilfinningu fyrir efnum og áhrifum þeirra virðist hún elta þau og nota eins og skynrænan vegvísi. Orð leika líka hlutverk í myndlist Margrétar. Hún hefur skrifað töluvert og notar tungumálið heilmikið. Sérhvert verk á sýningunni er án titils og kemur ekki á óvart, enda tala þau fyrir sig, en titill sýningarinnar, Loftleikur, er á sama tíma mjög innihaldsríkur. Efniviður verkanna, litirnir, samsetningin, staðsetningin og samspilið tala sínu máli í einskonar óútskýranlegu en áþreifanlegu jafnvægi.
Fingrabjarg, a Bundle of Boothmarks er rýmisverk í sjálfu sér, bókverk sem Margrét gerði í tilefni sýningarinnar, askja sem samanstendur af prentum af ljósmyndum og tveimur ánægjulegum textaverkum, einskonar kveikjum sem veita enn meiri innsýn inn í vinnuferli listmannsins. Guðni Tómasson leggur til í samtali við Margréti í Víðsjá (mín. 38.30) að hún sé að yrkja inn í þessi tvö rými, galleríið og öskjuna og fær hana til að lesa annan textann.
Þær eru margar þrautirnar í nútímasamfélagi og við mælum af hug og hjarta með endurteknum heimsóknum á sýningu Margrétar, Loftleik. Innsetningin kitlar fínustu djúpsjávarstrengi líkamans og kallar fram með því nýja tóna, flytur mann á milli heimshluta og leikur við hið óræða. Verkin eru hvert um sig og sameinuð hlaðin af næringarefnum og ég fullyrði að maður gengur hverju sinni út af henni eilítið auðugri en maður var við innkomuna. Ég fór á föstudaginn og ætla að skella mér aftur núna. Hlakka strax til.
Við erum að hlusta 🎶
Connell Waldron, ungur Íri, gæti hafað sett saman þennan huggulega lagalista, væri hann þá til. Connell Waldron er aðalpersóna í sögunni Normal People. Leiða má hugann að því að einn skapara Connells, leikarinn, hafi sett lagalistann saman og leitað í hann í sköpunarferlinu, þannig hafi lagalistinn tekið þátt í að skapa skapara sinn.
II. Lífríki þörunga
Íslenskir matþörungar,
Sögur útgáfa
Talandi um næringarefni. Við færum þær stórfréttir að fylking næringarríkra lífvera hefur loks verið almennilega uppgötvuð af neytendum vors lands. Hér erum við að tala um undraheim þörunganna með möguleikum á stórkostlegum fjörunytjum sem þeim fylgja.
Þörungar hafa eins og þekkt er verið nýttir í Asíu í árþúsundir en fyrsta sagan af þara til matar á vesturlöndum er í Egilssögu. Á undanförnum áratugum og hundruðum hefur aftur á móti farið helst til lítið fyrir áhuga á þessum dýrmætum sjávarins á Íslandi og vesturlöndum almennt. Af hverju er ómögulegt að segja. Kannski þóttu þörungar lummulegir eða við hreinlega sáum þá ekki þó þeir væru beint fyrir augunum á okkur nær alla daga. Á undanförnum árum hefur orðið sannkölluð vakning í umræðum og meðvitund um auðæfi fjörunnar sem eru yfir og allt um kring hér á Íslandi. Nokkrir grúskarar og sérvitringar hafa auðvitað rannsakað þörunga og fjörunytjar í nokkra áratugi en það er eins og undiraldan sé reglulega kröftug núna og um það bil að berast upp á land. Til gamans er hér þarasagan af Agli.
Tilfinningaveran mikla Egill Skallagrímsson var hvílíkum harmi sleginn eftir sonarmissinn og ákvað að svelta sig í hel. Hann átti líka dóttur og sú var eðlilega ekki mjög ánægð með tilætlan föður síns. Hún var ljóslega skörp og gabbar föður sinn til að borða söl, segir þau flýta dauðanum. Egill verður svo þyrstur af átinu að hann svolgrar í sig mjólk sem lögð var fyrir hann og var þá úti um sveltið. Við þetta fann sköpunarkraftur hans sér farveg og skrifaði Egill sig í gegnum sorgina og orti þarna Sonartorrek.
Meðmæli okkar snúa sérstaklega að öðrum og nýjum skrifum, nýútgefinni bók sem við erum ánægð með. Hún heitir einfaldlega Íslenskir matþörungar og er strangheiðarleg handbók sem inniheldur bæði hellings fróðleik og fjölmargar uppskriftir. Forsprakki útgáfunnar er Eydís Mary Jónsdóttir sem er land- og umhverfisfræðingur og hefur meðal annars um nokkurra ára skeið kortlagt strendur Íslands með tilliti til ólíkra tegunda þörunga. Kortlagningin er aðgengileg hér.
Eilítið um lífheiminn Ísland. Blágrýtisberglögin sem Ísland er að mestu leyti samsett úr eru rík af steinefnum sem bæði vindar og jökulárnar skila til sjávar (og sveita) í ríkulegu mæli. Straumarnir og hitastigið gera það svo að verkum að sjórinn umhverfis Ísland er hreinn og samanlagt skapa þessir þættir mjög góð vaxtarskilyrði fyrir þörunga. Strandlengjan er löng og því ljóst að hér er kjörlendi fyrir öflugan vöxt.
Mynd sem sýnir hvernig þang og þari vex í fjörunni. Fengin að láni úr bókinni.
Þörungar eru fylking lífvera sem skiptast í rauð-, græn- og brúnþörunga. Brúnþörungar skiptast svo í þang og þara og eru hér fyrst og fremst til umfjöllunar. Allir þörungar eru frumbjarga og ljóstillífa, jafnvel á ótrúlegu dýpi þar sem afar takmarkað ljós kemst að. Heyrst hefur að hvalir kafi niður á gríðarlegt dýpi, hámi í sig þörunga og skili úrganginum í efri lög sjávar þar sem hann verður dýrmæt næring fyrir aðrar tegundir. Þörungar eru um margt sérstakar lífverur sem lifa gjarnan við krefjandi aðstæður, í eyðimörkum, á jöklum, heitum hverum og þar sem við þekkjum þá helst, í sjónum. Þörungar framleiða á bilinu 50-90% þess súrefnis sem við öndum að okkur (talan fer eftir því hver er spurður), innihalda meira af vítamínum en ávextir og grænmeti og eru stútfullir af omega 3 og 6. Talið er að fjölmargar tegundir séu enn ekki greindar og vísindamenn framtíðarinnar eiga því töluvert verk fyrir höndum.
Með þessum fréttum og tilheyrandi hreyfingum er lagður grunnur að nýjum atvinnuvegi á Íslandi og einstakt tækifæri gefst á að vanda til verka allt frá grunni, enda geta fjörunytjar tæplega verið sjálfbærar ef þörungataka verður óhófleg. Hyndla (sem var jötunmey í Eddukvæðum) er fyrirtæki sem ungir og framsýnir ellilífeyrisþegar hrundu af stað fyrir nokkrum árum þegar þeir luku sínum fyrri störfum. Hjá Hyndlu er séríslensk tegund þara, klóblaðka, ræktuð í kerjum á landi með borholusjó og hefur tilraunastarfsemi þeirra gengið afar vel það sem af er. Gaman er að fá innsýn inn í starfsemina á vef þeirra og í þessu innslagi úr Landanum frá 2018.
Ljúkum meðmælunum á að minna á þaraböð sem við mæltum með síðasta vetur og að upplagt er að splæsa einu á sig á haustmánuðum. Til gamans má geta að það voru þaraböðin í Sligo á Írlandi sem voru kveikjan að því að Slíjm setti upp tímabundin þaraböð við Gróttu, en upphaflega voru það einmitt Keltarnir sem nýttu þörunga í Evrópu og formæður okkar fluttu þá þekkingu með sér til Íslands eftir að hafa verið hrifsaðar burt úr heimahögum sínum af norrænu óróaseggjunum.
III. Óvenjulegt ungt fólk
Normal People,
Sjónvarp Símans Premium (eða Hulu)
Stöldrum aðeins við í Sligo, þessum írska strandbæ – hann gæti kannski verið á Snæfellsnesi eða Vestfjörðum – á norðvesturströnd Írlands, ekki langt frá nú síumdeildari landamærum Norður Írlands.
Það eru ekki bara nöfn landanna, Írland og Ísland, sem eru lík og bjóða upp á rugling. Strendur Írlands gætu allt eins verið hér hjá okkur og okkar þar.
Í apríllok kom út lítil 12 þátta sjónvarpsþáttaröð byggð á samnefndri bók, Normal People eftir Sally Rooney. Bókin féll vel í kram lesenda þegar hún kom út 2018, svo vel að BBC og Hulu tóku höndum saman og færðu þessa fallegu sögu á sjónvarpsskjáinn.
Sagan er af vinskap unglinga og háskólanema frá Sligo. Vinátta þeirra Marianne Sheridan (Daisy Edgar-Jones) og Connells Waldrons (Paul Mescal) er flókin, stundum ósanngjörn en yfirleitt og langoftast náin og falleg; alltaf þrungin tilfinningum. Skemmst er frá því að segja að frásögnin er einkar falleg, þættirnir listilega vel gerðir þar sem leikur aðalleikaranna er framúrskarandi.
Svo vel hefur þótt takast til að ferðamálayfirvöld á Írlandi hafa tekið þættina upp á sína arma og hampa þeim sem hinni bestu landkynningu. Írar þekkja þetta auðvitað vel enda ekki í fyrsta skipti sem sögusvið kvikmynda og sjónvarpsefnis sem lifnar við í írskri náttúru vekur athygli á þessu merkilega landi.
Mikið væri gaman þegar virkilega þarf að blása til átaks, fá athygli manna á ágæti Íslands og jafnvel hvetja til heimsókna, að fjármagni væri veitt með hraði í framleiðslu menningar- og afþreyingarefnis og markaðssetningar þess svo áhugasamir erlendis sjái að hér býr þjóð sem hefur sögu að segja. Það væri hressandi að á ríkisstjórnarfundi í krísu segði einhver eitthvað á þessa leið: „Obbossí, við verðum að halda góðri ímynd á landinu, vekja athygli á náttúrunni og sögunni og sýna að hér býr fagfólk. Verðum við ekki bara að setja 1.500.000.000 kr. í að kvikmynda Vestfjarðaþríleikinn hans Jóns Kalmans?“
Dæmin hér á landi sanna enda árangurinn. Erlendar stórmyndir hafa verið teknar upp hér og dregið fjölda gesta til eyjunnar. Írarnir virðast hafa fengið þetta upp í hendurnar. Strax 8. maí er skrifað í Guardian um hvernig írsk ferðamálayfirvöld hafa tekið Normal People fagnandi. Það skal engan undra: Náttúrumyndir frá Sligo og fallegar senur frá Trinity-háskólanum og Dyflinni toga sannarlega í mann.
Þættina má nálgast á Sjónvarpi Símans Premium og Hulu fyrir þá sem komast í það. Við mælum með áhorfi undir teppi, helst í einrúmi, til dæmis á sunnudagseftirmiðdegi eins og í dag þegar rignir úti. Enda rignir mikið í Sligo. Þannig nást hughrifin enn betur.
Góðar stundir,
Edda og Greipur
Skynæfing 3
Möndulhalli jarðar og staða Íslands á norðurhvelinu útskýra árstíðirnar og nú þegar jörðin heldur áfram ferðalagi sínu um sólina færumst við fjær henni og svífum inn í dimmari og kaldari mánuði ársins. Um þetta leyti eru birtuskilyrði á Íslandi með því fegursta sem finnst og við bjóðum ykkur kæru áskrifendur að veita ljósaskiptunum og litadýrðinni sérstaka athygli. Leikið ykkur með að finna orð sem geta átt við í þessum aðstæðum eða lýst þeim. Skráið hugrenningarnar með frjálsri aðferð.
…og að lokum 📻
Í vikunni sem leið gerðum við okkur ferð í Útvarpshúsið og áttum þar huggulega stund með Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þætti hennar Segðu mér. Fyrir áhugasama má finna þáttinn í helstu hlaðvarpsveitum sem og í Spilara RÚV. Við komum honum líka fyrir í litla hlaðvarpssarpinum okkar: