Sunnudagurinn 18. október
Nú í október er liðið ár frá því að við, Edda og Greipur, sendum frá okkur fyrstu menningarmolana til áskrifenda. Við færum áskrifendum okkar og lesendum bestu þakkir fyrir samfylgdina og hefjum nýjan hring í kringum sólina full eftirvæntingar. Þó seinni helmingur fyrsta hringsins hafi auðvitað verið ólíkur öllu sem við höfum kynnst hafa skrifin veitt okkur ánægju og við vonum að þið hafið haft eitthvert gagn og vonandi gaman af.
Með sunnudagskaffinu í dag
I. Forðabúr meistaranema í myndlist við Listaháskólann
II. Erlendur gestur í Ásmundarsal
III. Árleg plómukaka
IV. Reykvískar kápur
- stórstreymi og sölvafjörumór
I. Forðabúr?
Forðabúr,
Nýlistasafninu,
Stendur til 22. nóvember. Óvíst hvort/hvenær verður opnuð.
Mig langar að tala um menntun. Sér í lagi menntun í listum. Sér í lagi menntun í myndlist. Og sköpunarkraftinn. Við erum öll skapandi á einhvern hátt. Fæðumst bara þannig. Sköpunarkrafturinn þar af leiðandi einn af þessum óþrjótandi risastóru máttugu kröftum í heiminum sem við nýtum og njótum dag hvern. Við njótum líka menningar og sköpunarkrafts annarra á margvíslegum sviðum. Og sjálf fáum við öll útrás með einhvers konar sköpun. Oft vantar þó að þetta mikla breytingarafl sé betur nært og við það stutt.
Listgreinar þurfa gjarnan að víkja í niðurskurði skólum og þær eru aldrei í öndvegi. Meira til skrauts. Aldrei jafnfætis því sem byggir á rökhyggjunni. Enn sem komið er en þarna eigum við mikið til góða. Margir finna sterkt fyrir þessum ólgandi krafti innra með sér en hlutfallslega fáir hafa bein í nefinu til að standa með sjálfum sér í gegnum allan grunnskólann og allan framhaldsskólann og að auki dug og kjark (og pening) til að sækja sér háskólanám í listum og taka sér meðvitaða stöðu í jaðarhópi samfélagsins, sem listamenn. Mér finnast þessir einstaklingar góð fyrirmynd.
Og þá kemur loks að meðmælunum. Þau eru kannski óvenjuleg en snúa að því að fylgjast með því sem næsta kynslóð listamanna er að fást við. Meistaranemendur sem útskrifuðust í vor en þurftu að fresta lokasýningunni sinni sem opna átti í maí, hafa nú sett hana upp í Nýlistasafninu og ber hún heitið Forðabúr. Sýningin stendur til 22. nóvember en nú er svo statt að hún hefur alls ekki opnað vegna kóvid og þeirrar staðreyndar að söfnin á höfuðborgarsvæðinu eru einfaldlega lokuð. Mér þykir ósköp fallegt að hún skuli heita akkúrat þessu nafni, og verður helst hugsað til fræbúranna sem til eru í heiminum, t.d. á Svalbarða, og eru forðabúr fræja af plöntum heimsins, forði til að sækja í ef í harðbakkann slær. Ætli myndlistin sé ekki líka þannig forðabúr?
Í skjóli nætur laumaðist ég til að ná mér í eintak af sýningarskránni sem bíður tilbúin eftir því að sýningin opni. Svo mikið get ég upplýst úr henni að viðfangsefnin eru afar fjölbreytileg og um mikla hreyfingu virðist vera að ræða í verkum þeim sem lúra nú í rólegheitunum innan veggja Nýlistasafnsins.
Mari Bø er ein sýnenda í Nýlistasafninu. Hér er innlit inn á einkasýningu sem hún hélt í upphafi árs.
Samandregið finnst mér eins og efnisheimurinn og vald sé þessum tilteknu nemendum ofarlega í huga og tilhneiging til sögulegra tenginga úr eigin lífi og mannkynssögunni og skynjun okkar á öllum þessum ólíku þáttum. Skynjun mannsins í brotakenndum heimi. Sýningarstjóri er Hanna Styrmisdóttir, sem einnig er nýráðinn prófessor við nýja MA námsbraut í sýningagerð við Listaháskólann. Í skrifum sínum rammar hún verk nemenda inn með hugleiðingu um nýtt skilningarvit (ens. proprioception) sem sagt er að tengist stöðu- og hreyfiskyninu og því hvernig við grípum eða skynjum okkur sjálf.
Dyrnar eru einnig lokaðar að einkasýningum 22 lokaársnemenda í BA námi í myndlist við Listaháskóla Íslands, sem settar eru upp hver á fætur annarri um þessar mundir. Hægt er að fylgjast með þeim í streymi á netinu þegar þær opna á fimmtudögum klukkan fimm fram til 26. nóvember, og í kjölfarið skoða 360° myndatöku ásamt textum um sérhverja þeirra.
Við erum að hlusta 🎶
Efst á listanum er Haustvísa Tove Jansson. Nú í október eru liðin 75 ár frá því hún kynnti Múmínálfana sína til leiks. Við erum líka að hlusta á nýja plötu Bríetar og tvo píanóleikara; nýtt lag frá Magnúsi Jóhanni og svo Paul Lewis leika Beethoven-sónötu. Meira um það síðar.
II. Erlendur gestur
Karoliina Hellberg í vinnustofu,
Gryfjan, Ásmundarsal við Freyjugötu.
Fyrir helgi hreiðraði finnska myndlistarkonan Karoliina Hellberg um sig í Gryfjunni í Ásmundarsal. Gryfjan hefur hýst vinnustofur listamanna og hönnuða frá því að Ásmundarsalur var endurnýjaður fyrir á þriðja ári síðan.
Það má segja að nú á tímum teljist það hreinlega til tíðinda að erlendir listamenn skjóti upp kollinum hér á landi, það er lítið um stuttar heimsóknir þessa mánuðina. En Karoliina tjaldar heldur ekki til einnar nætur og gistir Gryfjuna næstu vikur. Það er góð tilhugsun að meðan á þessari lægð stendur séu vinnustofur listamanna vettvangur sköpunar í forðabúr náinnar framtíðar og á næstu misserum fyllist sýningasalir með þessum verkum.
Karoliina hefur undanfarin ár vakið heilmikla og verðskuldaða athygli í heimalandi sínu fyrir litrík málverk og innsetningar. Við vitum í raun ekki hvað hún ætlar að gera í Ásmundarsal en skilst að vinnustofunni ljúki með sýningu. Þangað til verður áhugavert að fylgjast með henni að störfum sem er einmitt hægt því Ásmundarsalur er opinn og tilvalinn viðkomustaður. Þar fæst frábært kaffi og þar er huggulegt að setjast niður.
Við mælum því með endurteknum heimsóknum, göngutúrum eða strætóferðum, í Ásmundarsal til að fylgjast með vinnustofu Karoliinu með rjúkandi kaffi eða köldum drykk í glasi.
Húsgögnin í setustofunni í Ásmundarsal; stóra borðið, kollarnir og stólarnir auk ljósanna koma öll frá finnska fyrirtækinu Artek sem arkitektarnir og hjónin Aino og Alvar Aalto stofnuðu fyrir 85 árum um húsgagnahönnun sína. Fleiri vinir þeirra slógust í hópinn, svo sem Ilmari Tapiovaara sem á einmitt heiðurinn að Domus-stólnum sem er áberandi í setustofunni. Mörg húsgagnanna voru kannski hönnuð fyrir eitt ákveðið verkefni en síðar sett í framleiðslu og almenna sölu. Mikið væri gaman ef þetta væri algengara hér á landi; hönnuðum falið að gera falleg húsgögn og ljós fyrir nýbyggingar sem rata síðan í verslanir ef vel heppnast.

Afmælisveggspjald fyrir Artek eftir Karoliinu Hellberg. Myndin er frá heimili Aaltos og sýnir þekkta blómapotta sem hafa ratað í almenna framleiðslu hjá Artek. Mynd: Artek.fi.
Á fimm ára fresti síðustu áratugi hefur Artek gefið út afmælisveggspjöld sem mörg hver hafa orðið vinæl meðal safnara. Það er gaman að geta þess að í ár, í tilefni 85 ára afmæli Artek, hefur Karoliina Hellberg málað mynd sem prýðir veggspjaldið.
III. Plómutíð
Bakstur á plómuköku,
New York Times Cooking, Smitten Kitchen.
Plómur voru meðal fyrstu tegunda plantna sem mannfólkið tileinkaði sér að rækta. Að minnsta kosti benda villt plómutré í grennd við fornar mannabyggðir til þess. Plómur eru nú ræktaðar um allan heim og eru Kína og Rúmenía stærstu framleiðendurnir. Uppskerutíð er ljóslega breytileg eftir heimshlutum, en það er gott framboð af gómsætum plómum á Íslandi um þessar mundir. Við mælum með því að baka í takt við árstíðina!
Að hausti á margra ára bili birti New York Times alltaf sömu uppskriftina af plómuköku. Einfaldlega vegna þess að hún er gómsæt, einföld, í takt við tímann og að á einhverjum tímapunkti varð birting hennar ómissandi hluti af bandarískri bökunarmenningu og haustinu. Þegar hefðin var rofin urðu margir lesendur leiðir og jafnvel reiðir. Í ljósi tækninnar er uppskriftin auðvitað enn aðgengileg annars staðar en sem úrklippa úr gömlu dagblaði.
En svo er nú með uppskriftir að þær eru réttar á milli fólks, uppgötvast á ólíkum stöðum, spyrjast út og öðlast sín sérkenni á hverjum stað. Rétt eins og hver fjölskylda á Íslandi á sína eigin bestu uppskrift af pönnukökum, eru þær vafalaust margar fjölskyldur heimsins sem eiga sína allra bestu uppskrift af plómuköku. Uppskriftir eru einfaldlega viðmið eða innblástur og alls engin nauðsyn að fylgja þeim bókstaflega, þó gott sé að öðlast grundvallarskilning á hvernig hráefni, tími, hitastig, raki og svo framvegis vinna saman. Þannig eru bökunaruppskriftir eilítið viðkvæmari því þar er tæplega hægt að breyta miklu eftir að bakstri líkur, á meðan auðvelt er að smakka til og bragðbæta það sem mallar á pönnunni. En það er best að læra með því að prófa sig áfram og plómukakan er sáraeinföld.
Við deilum með ykkur þremur uppskriftum. Hinni upprunalegu. Útgáfu á einum af uppáhalds uppskriftarvefjunum okkar, Smitten kitchen, og okkar eigin tilbrigði við stef. Við hvetjum ykkur til að kíkja yfir þær allar og baka annaðhvort ykkar eigin útgáfu, eða eina af þessum. Þið munuð ekki sjá eftir því.

Okkar útgáfa.
Tvær fyrstu uppskriftirnar eru nánast eins, aðeins meiri sykur í þeirri hjá Smitten Kitchen, en…
þar er nýtt lykilatriði kynnt til leiks. Að borða kökuna ekki fyrr en daginn eftir að hún er bökuð. Þjáning og alsæla.
Mér tókst það! Hélt ég myndi aldrei getað staðist freistinguna. Skar bara ooooobbulitla sneið af og smakkaði og geymdi hana svo samviskusamlega. Það sem gerist á meðan kakan hvílir sig áður en hún hverfur áfram inn í næringarhringrásina, er að safinn úr plómunum heldur áfram að smjúga inn í lungamjúka kökuna og hún samlagast á undraverðan máta.
Þriðja útgáfan og það sem ég prófaði að gera var að bæta við um það bil 75 g af möndlumjöli og einu eggi og sleppa kanilnum. Ég var ekki í stuði fyrir kanil en elska möndlumjöl, marsipan, kransakökur, möndlupestóið hennar mömmu, sykraðar jólamöndlur og almennt séð allt sem er með möndlum í. Kakan varð fyrir vikið eilítið stærri og sérlega safarík og góð. Á þriðja degi var hún enn æðisleg. En svo var hún jú horfin, þrátt fyrir bara einn gest þessa dagana. Einvera er jú betri með plómuköku og ég hef jafnvel hugsað hvort að samvera með deigi sé að bjarga sálarheill margra á þessum rólegu en líka titrandi tímum. Ég er ekki frá því að svo sé.
IV. Vetrarkápa
Made in Reykjavík, ullarkápa,
myndband og kápa.
Fyrir helgi frumsýndi Magnea Einarsdóttir fatahönnuður nýja línu af kápum úr íslenskri ull sem hún kallar Made in Reykjavík. Með nafninu vísar Magnea til þess að öll framleiðslan, frá vinnslu ullarinnar í band og svo prjóna- og saumaskapur er unnin hér á höfuðborgarsvæðinu.
Kápulínuna frumsýndi Magnea með því að birta myndband á Trendnet.is. Það er gaman að benda á það sem vel er gert og myndbandið er sniðugt og fallegt. Myndbandið gerir Magnea með hinu íslensk-kínverka Studio Fræ og Margréti Bjarnadóttur sem sér um hreyfingar. Tónlistin er eftir hörpuleikarann Mary Lattimore og má finna í lagalistanum okkar hér ofar í bréfinu.
Kápurnar eru fallegar og við sjáum strax að þær gætu hentað einhverjum áskrifendum okkar, nefnum engin nöfn. Þær fást í vefverslun Magneu sjálfrar en líka í Kiosk Grandi, fallegri endurfæddri Kiosk-verslun við Grandagarð. Við getum sömuleiðs mælt með gönguferð þangað. Björt og falleg verslun sem, býður upp á íslenska fatahönnun og smávöru.
Við höfðum reyndar nýlega rekist á kápurnar á nýrri sýningu í Hönnunarsafninu, 100% ull. Aldrei að vita nema hún eigi eftir að rata hér á síðurnar.
Með kveðju,
Edda og Greipur
Eitt enn
Nýlega sögðum við ykkur frá nýrri bók um íslenska matþörunga. Þessa dagana er stórstreymi til viðbótar við haustið, en saman eru þetta kjöraðstæður til að fara í fjöru og sækja sér söl til þurrkunar. Sölin eru nefnilega bragðbest á haustin og þau vaxa nokkuð neðarlega í fjörunni svo þau eru ekki auðsótt nema á stórstraumsfjöru. Hér má fletta upp flóðatöflum og við minnum á að best er að tína á útnesjum, hvort heldur er við Gróttu, á Álftanesi, Reykjanesinu eða öðrum.
Við getum glatt ykkur með því að Forðabúrið, útskriftarsýning meistaranema í myndlist frá Listaháskóla Íslands verður nú loks opin almenningi frá og með miðvikudeginum 28. október. Áætlaður opnunardagur var 10. október síðastliðinn en frestaðist vegna almennra lokana í samfélaginu. Hvetjum ykkur til að ná ykkur í bita.