Sunnudagurinn 20. september
Þó svo að það blási úti núna er spáin ágæt. Við mælum því með smá útivist og smá útstáelsi. Meðmæli dagsins eru ólík en eiga það sameiginlegt að hafa hvert á sinn máta með það að gera að nema nýtt land; matur, fólk og fræ. Meira að segja hefur nýr meðmælapenni numið land í fréttabréfinu.
Með kaffinu í dag:
I. Myndlistarsýning: Vestur í bláinn
II. Veitingastaðarheimsókn: Saltfiskur
III. Birkifræsöfnun
- Og eitt einn: landnemar á Austurlandi.
I. Vestur í bláinn
Vestur í bláinn, myndlistarsýning í almenningsrými,
Harpa og Nýlistasafnið (og víðar).
Stendur til 30. september.
Það er alltaf spennandi að fylgjast með því sem ungir listamenn eru að fást við. Vestur í bláinn er sýning í almenningsrými sem Claire Paugam, sem fékk hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna í ár, og tónlistarmaðurinn Julius Pollux Rothlaender standa fyrir. Sýningin er dreifð um borgina og við mælum með viðkomu í Hörpu og Nýlistasafninu. Aðrir sýningarstaðir eru Hlemmur, Mjódd, Vesturbæjarlaug, Borgarbókasafnið Gerðubergi, Listasafn Reykjavíkur Hafnarhús, Andrými, Kaffi Laugalækur og Ráðhúsið.
Sagan er í stuttu máli sú að málefni innflytjenda eru Juliusi hugleikin og hann hefur talsvert unnið með tal og frásagnir í tónlist sinni. Hann ákvað að sameina þetta tvennt og setti sig í samband við hóp ólíkra einstaklinga innflytjenda og hælisleitenda á Íslandi, sumum hverjum sem hefur nú verið vísað brott en öðrum sem hafa búið hér lengi. Með vísan í línu úr ljóði Guðjóns Friðjónssonar sem hann skrifaði til vinar síns sem hugðist flytjast í vesturheim fyrir rúmum hundrað árum síðan, gaf Julius út plötuna Vestur í bláinn þar sem eitt lag er tileinkað hverjum viðmælenda hans og hversdagslegt tal viðkomandi er hluti af laginu.
Erindi þetta á sérlega vel við nú á stormasömum tímum í umræðum um málefni innflytjenda, sífelldum brottflutningum fjölskyldna sem vilja vera hluti af íslensku samfélagi og brunans mannskæða sem átti sér stað á Bræðraborgarstíg í sumar.
Í samstarfi við Claire þöndu þau verkefnið út og pöruðu saman lag, rými og listamann sem þau buðu að vinna myndlistarverk inn í þetta nokkuð agaða form sem þau bjuggu til. Verkin eru auðþekkjanleg á hverjum stað með afgerandi sýningahönnun, sem þó bráðnar nokkuð vel saman við sérhvert verk.
Í Hörpu er verk Hugo Llanes en hann flutti til Íslands frá Mexíkóborg og hefur stundað nám hér undanfarin tvö ár við Listaháskóla Íslands. Hugo kynntist Innocentiu vel en hún er frá Ghana og búin að búa hér í 18 ár. Yfir mat og góðum samtölum grúskuðu þau í sögu beggja, mikilvægi tungumáls og sögu fólksflutninga. Í verkinu leitar Hugo til sinna heimahaga og notar Monsteru sem uppistöðu í verki sínu og tvinnar við hana línu úr gömlu ganesísku þjóðlagi. Heimahagar þessarar plöntu Monstera deliciosa sem er mjög eftirsótt sem inniplanta á íslenskum heimilum er í skógum í Mexíkó og M-Ameríku. Þar verður hún afar stór og á nafnið rætur til þess auk þess sem ávextir hennar eru gómsætir. Eitt sinn heyrði ég að Monsteru sem líði vel myndaði göt í blöðin og því sé auðvelt að fylgjast með líðan plöntunnar. Ég tók eftir því að í verki Hugo hefur eitt slíkt myndast og lesi hver og einn í það sem hann vill.
Monstera í Etnóbótaníska-garðinum í Oaxaca í Mexíkó.
Í Nýlistasafninu, í anddyrinu að yfirlitssýningu á verkum Ástu Ólafsdóttur, er eitt af þremur verkum Claire sjálfrar og sprettur það úr lagi Dušan sem er frá Svartfjallalandi, flutti hingað fyrir fimm árum og býr nú með serbneskri kærustu sinni og nýfæddu barni. Verkið veitir einmitt innsýn inn í þetta fjölskyldulíf og teiknar upp þekkta og fallega mynd úr hversdagslífi fjölskyldu í náttúrunni. Hér er komið annað verk sem vekur til umhugsunar um mæri landa og önnur sem við höfum búið okkur til. Gaman er að segja frá því að næsta sýning í Nýlistasafninu er útskriftarsýning nemenda í MA námi í myndlist hvaðan sem fyrrnefndur Hugo er einmitt að útskrifast og verk hans verður því hluti af næstu sýningu þar.
Þeir sem vilja fá leiðsögn og fara á milli allra sýningastaðanna geta skráð sig í rútuferð 24. september kl. 16.30 og geta skráð sig með því að senda tölvupóst til Juliusar.
Við erum að hlusta
Stundum er óþarfi að finna upp hjólið. Við hnutum um þennan fína haust-lagalista hjá Bolla frænda á Twitter (@ill_ob) og mælum heilshugar með – Herbst Herbst Herbst (3 x haust). Hér kennir ýmissa grasa; íslenskt og erlent, gamalt og nýtt –umfram allt huggulegt.
II. Saltfiskur og grautur
Bakaður saltfiskur og polenta,
Matbar, Smiðjustíg.
Haustseðill.
Við Stóra kanalinn (Canal Grando) í Feneyjum stendur tignarleg barokk/rókókó-höll sem síðan fyrir miðja 20. öldina hýsir safn feneyskrar myndlistar. Á þriðju hæð er salur tileinkaður heimamanninum Pietro Longhi (1701–1785). Veggina prýða myndir hans sem margar hverjar sýna hversdagslegar senur sem bera listamanninum vitni um að vera rannsakandi og með auga fyrir smáatriðum.
Á einni myndinni, La Polenta (1740), má sjá tvær konur bera glaðar fram gulan búðing eða graut og spenntir herramenn fylgjast með. Nafn verksins bendir til að hér sé á ferðinni maísgrautur eða polenta. Það kemur heim og saman við stað og stund, polenta er einmitt norður ítalskur grautur, oftast nú á tíðum úr maísmjöli, en fyrr á tímum oft gerð úr öðru fínmöluðu korni.
La Polenta (1740) eftir Pietro Longhi.
Vindur nú sögunni til Reykjavíkur. Veitingastaðaheimsóknir og -upplifanir geta vakið hughrif líkt og listviðburðir. Matargerðarlist enda til þess ætluð. Fallegar innréttingar, stórir gluggar, hispurslaus þjónusta góðra gestgjafa, góður félagsskapur og oftast nær frábær matur gerir heimsókn á Matbar á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs alltaf hennar virði.
Matseðillinn er endurnýjaður reglulega í takt við árstíðirnar og þau góðu hráefni sem fáanleg eru hverju sinni. Á nýlegum haustmatseðli þessa mikils uppáhaldsveitingastaðar okkar er að finna æðislegan rétt, saltfisk og pólentu. Fullkomlega eldaður fiskurinn, lungamjúk pólentan, hægeldaðir laukar og safarík og suðræn blanda af ólívum og capers með úrvalsólívuolíu eru borin fram á einfaldan og fágaðan máta. Ekkert aukaprjál, bara strangheiðarlegur diskur þar sem gæði ólíkra landa mætast svo úr verður eitthvað nýtt og annað en upprunalegu útgáfurnar í hverju landi fyrir sig. Við mælum með veitingastaðarheimsókn og færum þeim á Matbar um leið hrós fyrir hve vel er staðið að sóttvörnum. Ef það er ekki núna þá um leið og áskrifendur okkar langar út að borða. Þess má geta í ljósi nýjustu tíðinda að þegar ástandið var sem verst á vormánðum voru heimsendingar frá Matbar sannarlega ljós í myrkri. Fyrir þá sem kjósa að elda heima bendum við á að gera tilraunir með polentu. Hún er stórgóð og spennandi bæði sem meðlæti með kvöldverðinum mjúk eins og á Matbar, eða ofnbökuð eins og franskar með góðri ídýfu eða í kökur þar sem hún er frábær valmöguleiki í stað hveitis. Jamie Oliver sem er svo ágætur og hefur haft mikil áhrif á matarmenningu Bretlands meðal annars með áherslu á mat í skólum og meðvitund um heilnæmi hráefna, framreiðir gjarnan polentu í sínu eldhúsi og hér er ein uppskrift sem færi vel með vænum fiskbita á mánudegi.
Okkur Íslendingum finnst við alltaf eiga smá í spænskum saltfiskréttum. Réttilega. Töluverðar líkur eru á að rétturinn hafi verið borinn uppi af saltfiski úr íslenskri verbúð á sínum tíma og nú til dags af íslenskum togara. Kokkarnir á Matbar hafa frá upphafi verið innblásnir af ítölskum anda þó landamærin hafi ávallt verið óljós og þveruð eftir því sem best verður á kosið. Hér hafa þeir blandað saman ítalskri polentu, frönsku tapenade og miðjarðarhafs íslenskum saltfiski á þann hátt að við höfum endurtekið heimsóknir okkar, til þess eins að bragða saltfiskinn á ný.
III. Sameinuð ræktum vér
Fræsöfnun birkifræs,
Landsátak Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.
Haustið 2020.
Við kynnum til leiks með gleði gestapennann Snorra Sigurðsson, borgarlíffræðing. Nú þegar ársafmæli meðmæla okkar nálgast langar okkur að brjóta aðeins upp formið.
Haustið er tími uppskerunnar og það á ekki einungis við um kartöflur og gulrætur heldur eru fræ við það að falla af hverri trjágrein m.a. af næsta birkitré. Birkið er hið sanna íslenska tré sem áður klæddi landið frá fjalli til fjöru en hefur víða látið undan. En viðspyrnan er sannarlega hafin. Að stækka og auðga íslenska birkiskóga er markmið sem þjóðin öll getur sameinast á bak við til að grænka og græða landið, auka kolefnisbindingu, bæta búsvæði skógarþrasta og músarrindla og fjölga unaðsreitum þar sem birkiangan fyllir vitin og veitir hugarró og hjartahlýju.
Skógræktin og Landgræðslan standa nú fyrir sameiginlegu átaki um að safna birkifræi til að dreifa á völdum, beitarfriðuðum svæðum í öllum landshlutum. Allir landsmenn eru hvattir til að taka þátt. Það má gera með því að sækja sér sérstök söfnunarbox á starfsstöðvar Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Terru eða í næstu Bónus-verslun!
Hér er útskýrt í myndbandi hvernig best er að safna birkifræum.
Fræjunum er síðan skilað í söfnunarbauknum á næsta móttökustað. Ef ekki næst í söfnunarbauk má skila fræjunum í pappírspoka eða taupoka en alltaf ber að skrá (á baukinn eða meðfylgjandi miða) hvar og hvenær fræin voru tínd.
Birkitré eru sem betur fer í næsta nágrenni flestra. Sumum nægir að fara út í garð, aðrir geta heimsótt græn svæði í heimabænum. Þótt haustlægðirnar séu að hrella okkur og veiruveröldin fær marga til að halda sig heima þá má mæla með að gera sér ferð í fallega birkilundi og njóta heilnæmrar útivistar innan um haustlitina. Hér á Höfuðborgarsvæðinu má finna breiður af birki í Heiðmörk og á hraunlendunum nálægt vinsælum gönguleiðum upp í Búrfellsgjá eða á Helgafell. Einnig má mæla með bíltúr í Þingvallaskóg, upp í Brynjudal í Hvalfirði eða alla leið í Húsafellsskóg. Þeir lesendur sem eru staddir lengra í burtu þurfa fæstir að leita langt til að finna kærkomið birkikjarr hvort sem það er í Ísafjarðardjúpi, Vaglaskógi í Fnjóskadal, Búrfellshrauni í Mývatnssveit, Eyjólfsstaðaskógi á Héraði og í perlum Suðurlands eins og Skaftafelli og Þórsmörk. Margur hefur jú átt draumastundina í birkilaut á þessum stöðum.
Við hvetjum lesendur sannarlega til þátttöku í þessu skemmtilega samstarfsverkefni. Þá má fagna dásemdum birkisins með því að fá sér birkisnafs að loknu góðu dagsverki við fræsöfnun. Foss Distillery hafa sérhæft sig í að nota birki sem undirstöðu og eru líkjörinn Björk, snafsinn Birkir, bitterinn Börkur og vodkað Bjarki öll afurð þess. Hægt að hafa birkiþema í næsta kokteilapartýi.
Með haustkveðju,
Edda og Greipur
Og eitt enn:
Sáuði tíðindin að austan? Borgarlíffræðingurinn og gestapenninn ræður sér ekki af kæti yfir fréttum af nýjum landnema sem reyndar hefur valið frjósöm héröð Austurlands en það er hinn glæsilegi fugl, grátranan. Trönupari tókst að koma unga á legg í sumar og verður spennandi að fylgjast með hvort tignarlegum trönum fjölgi á landinum á næstu árum.