Sunnudagurinn 20. desember
Í fyrramálið, 21. desember, eru vetrarsólstöður og fullrar dagsbirtu mun aðeins njóta við í 4 klukkustundir og 7 mínútur hér í Reykjavík. Við erum því stödd mitt í dimmasta skammdeginu. Hátíð ljóssins er framundan með jólastjörnunni skínandi, hækkandi sól, bóluefni og nýju spennandi ári handan við hornið.
Með sunnudagskaffinu 🍪
I. Með tík á heiði, jólaleikrit Útvarpsleikhússins,
II. Rumi, Söngur reyrsins,
- Moli frá áskrifanda: Reith lectures, Mark Carney talar um virði,
III. Jólaleg gönguferð með Bertel og Beethoven,
- Eitt enn: Austurlands Food coop.
I. Í leikhúsi undir teppi
Með tík á heiði,
Útvarpsleikhúsinu á Rás 1.
Aðfangadag, jóladag, annan dag jóla og 27. desember.
Rás 1 býður hlustendum í leikhús á jólunum á nýtt íslenskt leikrit eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttir sem ber heitið Með tík á heiði. Leikstjóri er Silja Hauksdóttir. Við fengum að skyggnast eilítið bakvið tjöldin þó við höfum ekki heyrt verkið í heild sinni en þekkjum einnig vel til verka höfundar og aðstandenda og mælum því fífldjörf með hlustun. Skemmst er að minnast kvikmyndar sem þær skrifuðu ásamt Göggu Jónsdóttur og rataði í fréttabréfið okkar þegar við vorum að taka okkar fyrstu skref á þessum vettvangi. Agnes Joy hefur síðan notið töluverðrar velgengni og hlaut síðbúna Eddu sem mynd ársins. Hún er svo framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna.
Þá má einnig hlakka til páskanna en þá frumsýnir Sjónvarp Símans nýja sjónvarpsþáttaröð úr sama ranni. Þær Silja og Jóhanna skrifa, nú ásamt Björgu Magnúsdóttur. Handrit þeirra að Systraböndum hlaut í vikunni tilnefningu til verðlauna Norrænu kvikmyndamiðstöðvarinnar sem besta handrit ársins. En það er önnur saga.
Leikritið sem er frumflutt um jólin í Útvarpsleikhúsinu segir frá Erlu og Þorgerði. Erla er nútímakona sem flutti í kyrrðina í „sveitinni“, Hveragerði. Þorgerður var uppi fyrir 100 árum. Sagan er einskonar frjósemissaga þessarra kvenna – brot úr æviskeiðum þeirra.
Þegar leikritið hefst er Erla á leið yfir Hellisheiði til Reykjavíkur í uppsetningu fósturvísis. Þegar við kynnumst Þorgerði er hún sem unglingur send á næsta bæ til að aðstoða við fæðingu. Eftir að hafa orðið vitni að þeim atburði sver hún þess eið að eignast aldrei börn. Hvernig virkar það á hennar tímum án getnaðarvarna og með önnur viðhorf til hlutverka kvenna?
Leikritið varpar ljósi á það hlutskipti kvenna að vera með leg, ólíka sýn þeirra á barneignir og þá mögulegu kvöð.
Þó sagan gerist ekki um jól er auðvelt að tengja þessar hugleiðingar höfundarins við sjálft jólaguðspjallið og það hlutskipti sem María hlaut frá Guði.
Við erum að hlusta 🎄
Nokkur jólalög, héðan og þaðan, píanósónata og fleira.
II. Söngur reyrsins
Rumi, Söngur reyrsins í þýðingu Kristins Árnasonar.
Páskaeyjan.
Magnaðar stjörnuafstöður ná hámarki þessa dagana og við getum meira að segja séð birtuna af fundi Satúrnusar og Júpíters með berum augum en þær hafa ekki hist með þessum hætti síðan á þrettándu öld. Mér finnst allt í einu eins og ég geti snert fortíðina. Í gegnum stjörnurnar. Teygt fram handlegginn, dregið annað augað í pung, horft eftir vísifingrinum og sent skynjunarstraum úr mínum líkama í annan á þrettándu öld. Ætli Sturlungar hafi veitt þessu athygli, fundið kraftinn og séð jólastjörnuna? Eða Jalaluddin Rumi (1207–1273), persneska skáldið og súfistinn sem ráfaði um eyðimerkur Arabíu. Þarna var á ferð samtímafólk og mætti jafnvel ímynda sér að einhverjir hafi átt sameiginlegan vin, snertipunkt á jörðu og annan í geimi.
Best verður að fylgjast með jólastjörnunni á milli 5 og 6 síðdegis á morgun. Þá eru líka vetrarsólstöður sem gera afstöðuna sérlega magnaða. Þó gashnettirnir Satúrnus og Júpíter séu óralangt hver frá öðrum munu þeir virðast renna nánast saman rétt við sjóndeildarhringinn um stund. Því verður að finna sér stað mót suðvestri þar sem hvorki byggingar né fjöll skyggja á sjóndeildarhringinn. Þetta getur verið smá þraut en hugmyndin ein saman er líka alveg nóg. Það nægir ef til vill að loka bara augunum og fylgja orðum Rumis:
Leyfðu vatninu að kyrrast
og sjáðu tunglið og stjörnurnar
speglast í vitund þinni
Umbrotatímar nútímans fara vart framhjá neinum, áhrifanna gætir hvert sem er litið. Ríkjandi gildismat virðist skakkt, bjagað, úr samhengi og ótengt. En bíðum nú hæg. Allt er á fleygiferð og inn á mildari braut Vatnsberans. Ég hef þá trú að allt sé á einhvern máta tengt og því þurfi að huga að öllu því stóra og ekki síður hinu smáa af alúð og natni. Sterk undiralda jafnréttis og mildi hefur þegar brotið sér leið í gegnum glufur á yfirborðinu og flæðir brátt yfir. Gildismatið er að breytast og hefur faraldur ársins vonandi kennt okkur margt um virði sem við munum ekki gleyma.
Þú veist hvað allir heimsins hlutir kosta
en ef þér er ekki kunnugt um virði sálar þinnar
er þetta allt kjánaskapur.
Það má með sanni segja að orð Vigdísar Finnbogadóttur í frábærri þriggja þátta röð sem heitir Kjarni málsins á Rás 1 og fjalla um tungumálið okkar, feli í sér djúpan sannleika, þegar hún segir tungumálið það dýrmætasta sem við eigum því það geymi minningar. Ég var hugsi yfir þessu og sammála því að ásamt mikilvægi moldarinnar sé þessu svo farið. Seildist svo aftur ofan í nýja þýðingu á ljóðum fyrrnefnds Rumi og sökk ofan í Söng reyrsins yfir tebollanum.
Þessari vönduðu þýðingu á ljóðum Rumis mælum við með, enda dýrmætt að fá slíkt fínerís safn þýtt á íslensku. „Hámaðu ljóðin mín í þig meðan þau eru enn fersk; áður en ryk heimsins fellur á þau.; Hér á ljóðið heima, í hlýjunni í brjósti þínu; úti í heiminum króknar það úr kulda.“ Kannski er það ekki bara í gegnum stjörnurnar sem við getum snert fortíðina. Ljóð Rumis virðast streyma úr hjarta í hjarta og orðin send á milli fortíðar og nútíðar eftir hárfínum örlagaþræði á stað í nútíðinni þar sem þau magnast upp undir jólastjörnunni.
– Moli frá áskrifanda
Talandi um virði og jólastjörnu. Við deilum hér með ykkur mola sem okkur barst frá áskrifanda og á sérstaklega vel við akkúrat núna.
Nú þegar jólastjarnan birtist á himni þegar Satúrnus og Júpiter endurnýja reikistundir, tel ég tilvalið að velta vöngum yfir sjónarhornum Mark Carney fyrrum seðlabankastjóra Bank of England um virði.
Carney ræðir um það hvernig virði peninga hefur yfirgnæft mannlegt virði og leiðir til þess að snúa þróuninni við. Eitt af því sem vakti athygli mína er umræða hans um mikilvægi margbreytileika einstaklinga í stjórnun og ákvarðanatöku sem stuðlar að sterkum og sveigjanlegum kerfum. Þetta lögmál ræddum við aðeins í síðasta fréttabréfi í samhengi við jarðveg og vistkerfi og svo virðist sem þetta einfalda grundvallarlögmál gildi víðast, hvort heldur er þegar við yrkjum jörðina, okkur sjálf eða samfélagslegu kerfin. Allt hangir þetta saman og margbreytileikinn stuðlar að seigu, sterku (vist)kerfi þar sem allir staklingar þrífast vel.
Við þökkum áskrifandanum fyrir innleggið.
III. Stjörnur á jörðu
Gönguferð í miðborginni,
með Listasafni Reykjavíkur.
Í vikunni sem leið var þess minnst víða að 250 ár eru nú liðin frá fæðingu píanistans og tónskáldsins Ludwigs van Beethovens. Hann fæddist í Bonn og var skírður 17. desember. Það er óumdeilt að list Beethovens er gersemi, reyndar svo mikils metin að hann á enn um 15% af tónverkum á dagskrá hljómsveita í heiminum. Svo virðist vera að Beethoven hafi líka fengið að njóta velgengni sinnar ólíkt mörgum tónskáldum sem fá aldrei að vita að kannski fyrst mörgum árum og árhundruðum síðar er tónlistin þeirra leikin og mikils metin.
Við hlökkum til þegar samkomutakmarkanir hamla ekki tónleikahaldi og hægt verður að halda áfram að leika píanósónötur Beethovens í Salnum. Aldrei að vita nema þær rati þá á þessar síður. Þangað til höfum við þær á lagalistanum okkar. Líka óhætt að benda á þætti Árna Heimis Ingólfssonar um ævi tónskáldsins sem voru nýlega á dagskrá Rásar 1.
Aðeins nokkrum vikum, innan við mánuði, áður en Beethoven fæddist í Bonn, fæddist annar listamaður í Kaupmannahöfn. Það var Bertel (Albert) Thorvaldsen, sonur Gottskálks Þorvaldssonar og Karenar konu hans. Fæðingarafmælis hans var líka minnst víða þó svo að eitthvað hafi farið minna fyrir því en til stóð. Líkt og jafnaldri hans naut Bertel nefnilega mikillar velgengni í lifandi lífi og hugsanlega ekki margir sem gera sér grein fyrir hversu mikilsmetinn hann var og er.
Það gerði reyndar óþekktur ljóðmælandi í bréfi til myndhöggvarans árið 1837:
An Albert Thorvaldsen.
Ob auch die Zeit, zu welcher ich geboren,
Die Krämer sichtlich vor den Dichtern ehrt,
Ward mir zu Zeitgenossen doch bescheert
Ein Dreigestirn zum Strahlen auserkoren.
Beethoven, einer von den Matadoren
Die Phoebus mit Ambrosia genährt
– Sein Antlitz ward nicht meinem Blick gewährt
Und ungesehen hab ich ihn verloren
Altvater Goethe, Er, den hoch vollendet
Der Donnergott in den Olymp entrückt
Hat einst sein Silberwort an mich gewendet
Der Dritte hat mich reicher noch beglückt
Freundliche Rede hat auch Er gespendet
Und ehrend hat Er meine Hand gedrückt.
Skjáskot af bréfi til Thorvaldsens úr skjalasafni Thorvaldsensafnins í Kaupmannahöfn.
Ljóðmælandinn er stoltur að vera uppi á tímum þegar þrístjarna listamanna gengur á jörðinni. Hann hafi reyndar ekki hitt Beethoven, en hina tvo hitti hann; Goethe og Thorvaldsen, sá síðastnefndi rétti honum meira að segja spaðann. Heppinn.
Það var fallegt vetrarkvöld í Reykjavík, kalt og stillt og það snjóaði meira að segja aðeins, þegar lítill hópur safnaðist saman á horni Skothúsvegar og Fríkirkjuvegar 19. nóvember síðastliðinn. Tilefnið fæðingarafmæli myndhöggvarans og staðsetningin ekki tilviljun því þar stendur afsteypa af Adonis, einu verka Bertels. Þaðan var svo gengið í Hljómskálagarðinn þar sem finna má sjálfsmynd Thorvaldsen sem fyrst stóð á Austurvelli.
Okkur langar að mæla með gönguferð í miðborginni nú um jólin og láta arfleifð þessa Íslandssonar leiða gönguna. Listasafn Reykjavíkur hefur bætt ágætri leiðsögn við smáforrit sitt sem finna má á vef safnsins þar sem göngufólki er boðið í stutta huggulega ferð sem á einkar vel við á þeim tíma sem nú fer í hönd. Gönguleiðin leiðir okkur nefnilega líka í Hólavallakirkjugarð, meðal annars að leiði Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara en legsteina hans og Katrínar Þorvaldsdóttur prýða lágmyndir sem finna má á mörgum legsteinum á Íslandi gerðar af Bertel. Eftir því sem við komumst næst er enn hægt að festa kaup á slíkum lágmyndum hafi einhver áhuga á að nýta sér það í þessu lífi eða næsta.
Lágmynd sem finna má á mörgum legsteinum á Íslandi. Myndin er af Instagram-reikningi Thorvaldsensafnsins í Kaupmannahöfn sem gaman er að skoða.
Bertel kom aldrei til Íslands en hugurinn reikaði sannarlega hingað. Um það vitnar gjöf hans til Íslendinga, skírnarfonturinn í dómkirkjunni og þar sem ekki verður mikið um messuhald um jólin mætti hugsa sér að koma samt við í Dómkirkjunni yfir hátíðarnar.
Við höfum áður bent á gönguferð í smáforriti Listasafns Íslands. Má alveg rifja það upp.
Nú þegar ástvinir erlendis leggja ekki í ferðalög fyrir og um hátíðarnar hugsar maður til fyrri tíma þegar ferðalög voru ekki eins algeng. Bertel bjó lengst af í Róm og tók því þátt í jólahaldi með skandinavískum vinum þar, búsettum eða ferðalöngum; 1820 með Kristjáni Danaprins, síðar Kristján 8. og 1833 með Hans Christian Andersen. H.C. setti einmitt saman jólasöng við það tilefni. Lítið er vitað um jólahald jafnaldrans Beethovens og ekki samdi hann jólalög. Útvarpskonan góða, Una Margrét Jónsdóttir, hafði umsjón með skemmtilegum þætti í vikunni, Beethoven í jólaskapi. Þar reynir hún og tekst ágætlega að tengja tónlist meistarans við jólin. Kannski mætti hlusta á hann í gönguferðinni.
Með óskum um gleðileg jól,
Edda og Greipur
Eitt enn… 🥦
Við hugsum hlýtt til íbúa Seyðisfjarðar sem standa nú mitt í harmleik eftir úrkomu og aurskriður undanfarinna daga. Enginn virðist hafa slasast og er það mikil blessun. Austurlands Food coop sem við rituðum mola um nýverið standa nú í ströngu við að halda uppi starfsemi í þessum erfiðu aðstæðum og við hvetjum ykkur til að hugsa til þeirra í matarskipulagi ykkar á komandi mánuðum.