Sunnudagurinn 3. maí
Gleðilegt sumar. Gamlar hugmyndir og nýjar eru okkur ofarlega í huga nú þegar samkomubann styttist vonandi í annan endann með tilheyrandi spurningum um hvað tekur við. Varla verður allt eins, við þurfum stóra hreyfingu. Við byrjum á að bjóða ykkur að sameinast í anda yfir eldamennsku og borðhaldi og höldum svo í göngu í Breiðholtið. Síðast en ekki síst er lítil bók sem okkur þykir vænt um og við mælum innliega með.
I. Marglaga jarðtenging
Það hefur margoft sýnt sig að á breytingatímum er matargerð og samvera í kringum mat það sem fólk sækir ríkulega í. Hún tengir fólk saman og við uppruna sinn, kynslóðir fram og aftur og spilar hlutverk í mótun á eigin sögu. Á sama hátt og ég held að stóri vandi okkar jarðarbúa sé að við höfum tapað jarðtengingunni, þá hef ég mikla trú á að matargerð bjóði upp á að rækta hana.
Samin Nosrat sem gerði þættina Salt, Fat, Acid, Heat (aðgengilegir á Netflix) og er pistlahöfundur í matardálkum New York Times boðar til þess að við eldum lasagna saman í kvöld. Í þáttunum um salt, fitu, sýru og hita fjallar hún um jafnvægið; í matargerð sum sé. Og ég hef einlæga trú á að yfirfæra megi þær hugmyndir yfir á flest í lífinu sjálfu. Andleg næring þess að rækta, uppskera, elda og deila borðhaldi og mat með öðrum er ómælanleg, jafnvel þó samveran sjálf sé í fámenni eða bara huglæg eins og gjarnan um þessar mundir. Við ætlum því að malla lasagna, hver með sínu lagi, byggja það upp, lag fyrir lag, baka þar til gullið, gæða okkur á og hugsa fallega hvert til annars. Nosrat býður þeim sem vilja hittast að gera það á Instagram og vafalaust eru margir sem hafa gaman af því. Við látum okkur huglægu tenginguna nægja.
Fátt er fyrir minn smekk betra en góðir tómatar. Ferskir, niðursoðnir, litlir, stórir, rauðir, gulir, safaríkir, sætir og súrir. Við minntumst nýlega á að nú væri tími til að setja niður fræ. Það er ekki um seinan og tómatplöntur eru eitt af því sem æðislegt er að rækta inni eða í gróðurhúsi búi maður svo vel að eiga slíkt. Mér líður eins og ef ég eigi tómata í einhverju formi þá geti ég alltaf eldað góðan mat. Þeir teljast til staðalbúnaðar í eldhúsinu. Og ómótstæðilegt er lasagna úr góðum tómötum. Kisinn Grettir elskar lasagna, allir elska lasagna.
Lasagna er einn af þessum réttum sem á sér ótal birtingarmyndir og allflestir sem eitthvað bardúsa í eldhúsinu hafa reynt við og hafa gjarnan þróað sína eigin allra bestu uppskrift. Klassíska lasagna-ið er gert með tiltölulega þunnri tómatkjötsósu (upplagt að nota lambahakk), béchamel og parmesan. Leynikryddið mitt uppljóstrast hér og það er að setja 1-2 ansjósur út í sósuna á fyrstu stigum. Þær bráðna á pönnunni, hverfa inn í eterinn og með sínum dulmögnuðu kröftum binda þær öll innihaldsefnin saman í þéttan pakka sem bíður þess að vera lokið upp. Þetta fjallar um mátt hins smáa og mikill getur hann verið.
Eins og með ansjósurnar í tómatsósuna, þá er bráðnauðsynlegt að raspa ferskt múskat í béchamel sósuna (þessa hvítu), því hvað væri lífið án múskats. Í hóflegu magni. Því það er eins með það og sitthvað fleira, að með hófi má teygja sig til himna en með óhófi er niðurleiðin brött og sleip. Ímyndið ykkur nú stundina rétt áður en lasagna-ið ykkar kemur út úr ofninum.
Karamellukenndur ilmurinn af ostinum, angan af sætunni í tómötunum og djúpur og þykkur ómur af sósunum sem mölluðu drykklanga stund áður en ævintýrið rann saman lag eftir lag eftir lag eftir lag og hitinn hefur nú bundið saman.
Í öllum fjarlægðum veraldar færumst við nú eilítið nær okkur sjálfum og ræktum okkar jarðtengingu með því að sameinast í eldamennsku og elda hvert okkar uppáhálds eða alveg nýja uppskrift af lasagna. Hvort það er í kvöld eða næstu daga skiptir auðvitað ekki öllu máli, það er gjörðin og hugurinn sem máli skiptir. Hví ekki að prófa girnilegt hvítt sveppalasagna (af einum af uppáhálds uppskriftarvefjunum mínum) eða þetta fljótlega og gómsæta rugl grænmetis lasagna sem tilvalið er að gera úr hálfa kúrbítnum, slappa blaðlauknum, spínati á síðasta séns og ostaafgöngunum úr matargerð síðastliðinna daga. Munum að uppskriftir eru auðvitað bara viðmið - innblástur - hugmyndir, sem alls ekki þarf að fylgja frá a til ö, heldur einmitt laga að hverri stund. Gott er að hafa í huga að matargerð er einmitt vel til þess fallin að hægja á og huga að jafnvæginu.
Fyrir þá sem þyrstir eru í að gera sitt eigið pasta þá get ég ekki nógsamlega mælt með pastavélinni sem er til í Kokku. Það er skítlétt að gera eigið pasta og svooooo gott. Og að lokum bendi ég vinsamlega á að lauflétt er að gera sinn eigin ricotta, auðvitað með rjóma til hálfs, ef vera skyldi að þig langaði að prófa uppskrift Nosrat. Verði okkur öllum allt að góðu og hugsum hlýlega hvert til annars, náungans, nágrannans, hins ókunnuga og óþekkta.
Við erum að hlusta 🎶
Tónlistarmaðurinn Krassasig sendi frá sér nýtt lag í apríllok, viðeigandi smellur nú á dögum, Einn dag í einu. Lagið frísklegt og hressandi. En Kristinn Arnar hefur ágætan tónlistarsmekk og hefur tekið saman lagalista sem við ákváðum að deila með ykkur að þessu sinni og tökum þar með sprett úr kyrralífinu á kóralrifinu og út á opið haf mót sumrinu.
II. Göngutúr í hæstu hæðum
Margir hafa á undanförnum vikum farið í gönguferðir til að fá frískt loft, hreyfingu eða frið eftir mikla heimasetu við leik og störf. Daglegar gönguferðir eru mögulega orðnar næsta þjóðaríþrótt Íslendinga og taka þetta vorið jafnvel við af Eurovision. Þegar fyrstu góðu vordagarnir koma í röðum fyllist maður trú á að sumarið verði frábært og byrjar að skipuleggja allskyns skemmtilegt sem byggir á góðu veðri. Þá er gott að muna að gott veður er á endanum ekki nauðsynlegt til að vera úti, heldur skjólgóður fatnaður.
Hér koma meðmæli með skemmtilegri gönguferð um Efra Breiðholt þar sem Reykjavíkurborg undir forystu Listasafns Reykjavíkur hefur komið upp nokkrum vegglistaverkum á undanförnum árum. Það er til eftirbreytni hvað hugsunin var heildstæð og sérdeilis gott framtak að efna til gerðar þessara nýju veggverka eftir nokkra af okkar frábæru listamönnum, enda eru þau mörg og afar misjöfn veggverkin sem dúkka upp í gríð og erg á veggjum bæjarins og eru á köflum til að æra óstöðugan.
Í ágætu smáforriti fyrir snjallsíma sem Listasafn Reykjavíkur hefur gefið út er að finna nokkrar göngu- og hjólaleiðsagnir þar sem hinn geðþekki og margfróði Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri, leiðir fólk. Ein ferðin er hjólaferð í Breiðholti. Við leggjum til breytingu og stingum upp á tæplega þriggja kílómetra gönguferð með upphaf og endi við menningarmiðstöðina Gerðuberg.
Mynd fengin að láni af vefsíðu Theresu Himmer. Myndin er af verkinu Volcano (2008) sem prýddi fyrrverandi húsakynni Kling&Bang á Hverfisgötu 42. Þetta hús hefur nú vikið fyrir öðru og annars konar starfsemi.
Við Gerðuberg er fyrsta verkið, Mynd Sigurðar Guðmundssonar. Muniði eftir verki Sigurðar við sjávarsíðuna á mótum Sæbrautar og Snorrabrautar? Gönguferðin okkar er ílangur hringur og við höldum í dansátt, yfir Hraunberg og eftir stígnum bak við blokkirnar við Austurberg, yfir Suðurhóla og að verki Ragnars Kjartanssonar á gafli við Lóuhóla. Hér erum við léttilega minnt á að eilítil áhætta getur gert okkur gott. (Hér mætti leggja örlitla lykkju á leið sína og koma við í Afro Zone og grípa eitthvað nýtt og framandi til frekari afreka í eldhúsinu). Haldið er eftir Lóuhólum og að fjölbýlishúsi við Álftahóla þar sem annan hluta verks Errós er að finna. Við höldum áfram eftir Vesturbergi, alla leið að Asparfelli og Fjöðrinni hennar Söru Riel sem dregur blíðlega upp margbreytileika lífsins með verki sínu. (Hér mætti stinga nefinu inn á Gamla kaffihúsið eða í Mini Market og leita uppi eitthvað annað og óvænt í matargerðina). Við Jórufell er svo að finna verk Theresu Himmer en hún gerði nýlega annað verk í almenningsrými við Hálsatorg í Kópavogi. Þá eftir Austurbergi að samnefndri íþróttamiðstöð þar sem hinn hluta verks Errós er að finna sem jafnframt er lokaverkið og við höldum aftur að Gerðubergi. Þess má geta að strætó númer 3 gengur frá Hlemmi, um miðbæinn, hjá HÍ, og að Gerðubergi.
Listaverkaganga í Breiðholti
Gerðuberg, og svo í hring. 3 km.
Upprifjun og endurtekning 🗓
Undanfarnar vikur höfum við sent meðmæli til ykkar sem hugsanlega hafa ekki nýst vegna samkomubanns, viðburðir jafnvel fallið niður. Hér er smá upprifjun á því sem enn er í gildi, hlotið nýja dagsetningu og tilvalið að dusta rykið af:
Erling T.V. Klingenberg í Kling&Bang og Nýlistasafninu í Marshallhúsinu opnar á ný laugardaginn næstkomandi og stendur til 28. júní.
Stóra lyngrósin í Grasagarðinum sem við töluðum um í síðustu meðmælum er við það að springa út. Við endurtökum því meðmælin og hvetjum ykkur til að heimsækja þetta einstaka safn í Laugadalnum.
Í mars mæltum við með sviðsverkinu Eyður. Sýningin féll niður en hefur verið sett á dagskrá Þjóðleikhússins 13. október.
III. Síðdegissamtöl við Duchamp
1959 fékk ungur blaðamaður í erlendu fréttunum á Newsweek það verkefni að taka viðtal við Marcel Duchamp. Listamanninn sem breytti öllu. Blaðamaðurinn, Calvin Tomkins, hafði að eigin sögn ekkert vit á myndlist og lítinn tíma til að undirbúa sig. Tomkins, sem síðar þakkaði fyrir hve fallega og yfirvegað viðmælandi sinn hafi svarað mörgum kjánalegum spurningum sínum, spurði Duchamp út í listina og hvað hann gerði nú þar sem hann væri alveg hættur að sinna henni.
Oh, I´m a breather, I´m a respirateur, isn´t that enough? ... Why do people think they have to work?
Duchamp var hvergi hættur að sinna listinni en hann hafði sig ekki mikið í frammi með verk sín og lifði alltaf naumhyggjulífi. Tomkins gekk síðar svo langt að segja að af öllum þeim listamönnum sem hann hafi kynnst yfir ævina hefði Duchamp verið sá sem burðaðist hvað síst með þungt egó.
He talked about how important it was to really breath, to live life at a different tempo and a different scale from the way most of us live.
Upp úr þessu fyrsta samtali þeirra spruttu fleiri og að lokum áralöng vinátta.
Calvin Tomkins hefur í gegnum árin tekið viðtöl við og kafað inn í hugarheim ótalmargra listamanna og gefið út fjölmargar bækur. Allar götur síðan 1960 hefur hann skrifað svokallaða prófíla um listamenn fyrir The New Yorker; ríkulegt innlit í líf og list þeirra. Meðal listamanna sem hann hefur skrifað prófíla um eru John Cage, Robert Rauschenberg, Merce Cunningham, Buckminster Fuller, Julia Child, Georgia O’Keeffe, Christo, Richard Serra og um Ragnar Kjartansson fyrir nokkrum árum. Ætli mætti yfirfæra formið, prófíl af listamanni, í teikningu af listamönnum svo við notum tungutak myndlistarinnar, eða einfaldlega vangamyndir. Eitt sjónarhorn.
Tomkins dró upp slíka vangamynd af Duchamp en einnig dásamlega samtalsbók sem hann skrifaði upp úr fyrrnefndum samtölum þeirra þegar Tomkins var enn að stíga sín fyrstu skref í skrifum um listamenn. Hún kom þó ekki út fyrr en árið 2013 og heitir The Afternoon Interviews. Það er þessi litla bók sem við mælum með að þið lesið. Hún er fljótlesin og aðgengileg á veraldarvefnum, þó við mælum með að eiga hana í bókaskápnum. Hún mun reglulega koma að gagni og vera vinsæl til útláns í heimilisbókasafninu. Tomkins er nú að nálgast hundrað ára aldurinn og skrifar enn um listamenn í The New Yorker.
Það er alveg óhætt að segja að feikimargt sem þeim fór á milli í síðdegissamtölunum sé áhugavert að hugleiða í núinu, um 60 árum eftir að samtölin áttu sér stað. Sama má auðvitað segja um sjálf verk Duchamps sem verður ekki orðlengt um hér.
The Afternoon Interviews
Eftir Calvin Tomkins
Góðar stundir,
Edda og Greipur
🚨
Og hér er eitt enn: Götusópararnir eru að rúlla af stað í sína árlegu voryfirferð. Á vef Reykjavíkurborgar má sjá hvenær þeir áætla að að sópa þína götu. Áður en þeir mæta er gott að sópa gangstéttina fyrir framan húsið og passa svo að bílarnir séu ekki fyrir þegar þá ber að garði.