Sunnudagurinn 9. ágúst
Fyrir mörgum marka árstíðaskipti nýtt upphaf, jafnvel enn frekar en nýtt ár. Við erum ekki mikið fyrir að strengja stór og mikil heit en finnum fyrir því á þessum árstíma síðsumars og snemmhausts að okkur langar til að kafa betur í vel valin mál. Útgáfa meðmæla okkar er vissulega viðleitni til þess í sjálfu sér. Í dag ber fréttabréfið þess vitni að við erum í síðsumarskjörnun og við mælum hér með góðum hráefnum og hugleiðingum inn í haust- og vetrarundirbúninginn.
I. Á dýptina með James McVinnie
The Bach Project,
Áskrift í 5 mánuði að framúrskarandi upptökum.
Patreon fram í nóvember.
Í janúar 2017 kom enski orgelleikarinn James McVinnie sér fyrir í annarri tveggja kirkna við markaðstorgið í hjarta Groningen í Hollandi og tók upp alla orgeltónlistina í Clavier-Übung III eftir Johann Sebastian Bach. Upptökurnar hafa enn ekki verið gefnar út í heild sem kannski sætir furðu því James er eftirsóttur orgelleikari.
Margir listamenn hafa farið illa út úr því ástandi sem yfirstandandi heimsfaraldur kórónaveiru veldur og einhvejir hafa leitað á ný mið við að ná til hlustenda. Hér skal tekið fram að við erum mjög mishrifin af útkomu þeirrar viðleitni og oftar betur heima setið en af stað farið. Við erum þó mjög spennt fyrir þessu framtaki McVinnie.
James McVinnie kynnti nýlega skemmtilegt verkefni fyrir aðdáendum sínum og öðrum. The Bach Project er einskonar 5 mánaða hópferðalag um orgeltónlist Bachs undir leiðsögn organistans sjálfs. Áhugasamir geta sum sé gerst áskrifendur að upptökunum frá því í ársbyrjun 2017 ásamt aukaefni, svo sem aðfararorðum James um hvert verk bókarinnar, aukaupptökum og fleira.
Dæmi um aukaefni sem silfuráskrifendur fá aðgang að í The Bach Project.
Við ætlum að leyfa okkur að mæla með áskrift að þessu 5 mánaða hugarferðalagi. Hægt er að velja milli þriggja mismunandi leiða og við mælum með silfuráskrift. Hún býður upp á aukaefni, upptökurnar í miklum gæðum sem má hlaða niður ásamt fræðandi og skemmtilegri leiðsögn James.
Þannig gæti þetta verið haustið sem við kynnum okkur J.S. Bach betur, í þessu tilfelli orgeltónlist hans en hann var jú orgelleikari og kantor. Bach er af mörgum tónlistarmönnum talinn mikilvægasta tónskáld sögunnar og verk hans eru oftar en ekki notuð sem prófsteinar í þroska tónlistarmanna, enn þann dag í dag. (Hér má heyra grínarana í That Classical Podcast fjalla um J.S. Bach.)
Ég ætla ekki að fara djúpt í verkefni McVinnies hér, það er jú eðli þess sjálfs að gera það. Það hverfist í kringum þriðju bók hljómborðsæfinga Bachs, Clavier-Übung, en hann gaf út fjórar. Sú fjórða geymir einmitt Goldberg-variasjónirnar en þessi númer þrjú er sú eina sem er ætluð orgeli. Þess má að lokum geta að James er það sem mætti kalla Íslandsvinur. Hann hefur verið á mála hjá íslensku útgáfunni Bedroom Comunity, var gestur á tónlistarhátíðinni Við Djúpið og kom fram á Oregelsumri í Hallgrímskirkju 2016.
Orgelið í upptökunum er upprunalega frá 1702 en var sett upp á núverandi stað 1815. Það var nýlega gert upp og eru upptökur The Bach Project þær fyrstu sem gerðar eru á hljóðfærið eftir viðgerðina.
Það má ímynda sér að oft hafi verið svalt í stórri steinbyggingunni Der Aa-kerk í Groningen meðan upptökurnar á hljómborðsbók III fóru fram en meðalhitinn í borginni í janúar er líkt og í Reykjavík, óþægilega oft rétt fyrir ofan frostmark. James McVinnie lætur það ekki á sig fá og virðist afraksturinn glæsilegur.
Við erum að hlusta 🎵
Kannski er komandi haust einmitt haustið sem við kynnum okkur líka tónlist tónskálda 21. aldarinnar ögn betur. Hér er lagalisti settur saman af New York Times þar sem nokkrir tónlistarmenn hafa valið lagstúfa sem þeir mæla með fyrir vini sem vilja kynnast tónlist þessara tónskálda.
II. Klausturmatur
Chef's Table, Volume 3, Jeong Kwan,
Netflix.
Í styrkri jarðtengingu og andans eldar Jeong Kwan af allri sinni náð og yndi og deilir með þeim sem búa í og koma í búdda klaustrið sem hún býr í S-Kóreu. Allt er orka. Allt er tíðni. Og við mannverurnar erum líka farartæki fyrir orku og tíðni. Kwan sinnir sérhverju verki af umhyggju og er einstök fyrirmynd í orkuflæðinu enda standa stjörnukokkakallarnir í Chef's Table í sínu klassíska vestræna ójafnvægi agndofa frammi fyrir henni.
Eldamennska Jeong Kwan hefur lítið með lúxuseldamennsku stjörnuskrýddra veitingastaða að gera, en hverfist öllu heldur um lífspeki. Mér dettur helst í hug hversdagsalúð ef svo má kalla það að vanda sig í hverju því stóra og smáa sem maður tekur sér fyrir hendur. Gera heldur minna, en af þeim mun meiri alhug og mildi.
Með andlegri iðkun sinni sem að miklum hluta er í gegnum matargerð hefur Jeong Kwan öðlast ró og sterka tenginu við jörðina, andana og samfélagið sitt. Hún ræktar og nálgast hvert hráefni af virðingu og dregur fram í því það besta. Sannkölluð kjörnun í hversdeginum.
Temple food keeps a person's mind calm and static,
segir Kwan um eldamennsku sína. Hráefnin eru að miklu leiti ræktuð í klaustrinu í hálf villtum garði sem kristallar einnig búddíska lífspeki hennar. Klausturmatur er einfaldur matur, kryddaður af náttúrunni og hugað er að áhrifum hvers hráefnis, tímasetningum máltíða, framsetningu, magni og umhverfinu. Eitthvað sem við ættum auðvitað öll að gera hvern dag en gleymist ósköp auðveldlega í því flókna og hraða lífi sem við höfum búið okkur.
Í klausturmat er ekki notaður neinn hvítlaukur, laukur, graslaukur, blaðlaukur né vorlaukur. Þessi hráefni eru svo kröftug og koma óróleika á hugann segir hún. Ég hef sjálf takmarkað notað af laukum í mína matargerð undanfarin ár og komist að þeirri niðurstöðu að laukur í ýmsum formum sé ofnotaður í vestrænni matargerð og ætti frekar að nálgast sem krydd en uppistöðu hráefni. Hann gnæfir gjarnan yfir önnur brögð sem í fjarveru hans njóta sín miklu betur. Laukar eru enda talsverðir ofnæmisvaldar og valda ábyggilega óróleika rétt eins og Kwan segir. Við mælum með lauk-lausum tilraunum í eldhúsinu.
Jeong Kwan lærði að elda með því að fylgjast með mömmu sinni og móðurandann hefur hún að leiðarljósi en hún gekk í klaustrið eftir að hún missti móður sína, þá 17 ára. Við mælum með áhorfi á þennan þátt í Chef's Table sem nú telur þónokkrar seríur um matargerð víðsvegar um heiminn. Þættirnir eru misjafnir eins og þeir eru margir en segja þó hver um sig einhverja sögu sem margar hverjar eru mjög góðar.
III. Austurlands Food Coop
Austurlands Food Coop
Áskrift að úrvals grænmeti
Vikulega eða skv. samkomulagi
Talandi um mat og kjörnun. Hver elskar ekki að háma í sig tómata eða sveppi í öllum mögulegum og ómögulegum formum í Friðheimum eða á Flúðum? Tómataís og sveppasmjör. Namm. Það er svo margt spennandi í gangi í ræktun á Íslandi, bæði í heimagörðum og framleiðslu. Við munum fylgjast vel með því. Fyrirheit um meira grænmetisát og ævintýramennsku í eldhúsinu fylgja gjarnan haustinu og er það vel. Hægt er að fara í sveppamó, berjamó, moka upp rabarbara, berjum og góðgæti úr garðinum og auðvitað týna og njóta þess sem vex villt; kúmen (t.d. í Viðey), njóli, kerfill, skessujurt, mjaðjurt, grenið og allt mögulegt annað sem nýta má í te og pestó, brauð og allt hvaðeina. Allt er þetta mikið yndi og ánægjulegt.
Sem hluta af síðsumarkjörnuninni og í ljósi takmarkaðra möguleika á vetrarræktun á Íslandi mælum við aftur á móti með fullkomlega fyrirhafnarlausri áskrift að grænmetiskössum frá Austurlands Food Coop. Þeir gerast ekki betri, fylgja uppskeru árstíðanna, eru milliliðaléttmeti, litríkir, fjölbreyttir og covid-vænir, heimsendir eða sóttir til þeirra á Skúlagötu. Innihald sérhverrar sendingar veitir mikinn innblástur í eldamennskuna og talsvert færri búðarferðir og ákvarðanir þarf að taka.
Í áskriftarkössunum er grænmeti, ávextir og kryddjurtir. Fjölbreytileg blanda hverju sinni og sérlega blómleg um þessar mundir þar sem uppskera er í miklum gangi í nágrannalöndunum og margbreytileikinn í fyrirrúmi. Ég verð þó að segja að vetrarkassarnir síðasta vetur komu á óvart hvað varðar fjölbreytni, í þeim var alltaf margt girnilegt og gott. Á Facebook-síðu þeirra hafa áskrifendur deilt hugmyndum og uppskriftum og í gegnum spjallið fer pöntun fram.
Austurlands Food Coop er frumkvæði einstaklinga á Seyðisfirði sem stofnuðu til rekstrar á grænmetissölu eftir að hafa lengi horft upp á aðföng flutt til landsins til Seyðisfjarðar með Norrænu, hvaðan sem þau voru flutt til Reykjavíkur til pökkunar og svo send aftur austur. Reksturinn gekk vel fyrir austan og spurðist fljótt út til höfuðborgarsvæðisins. Afurðunum sem að verulegu leiti eru lífrænar er nú pakkað á Seyðisfirði og sendar til áskrifenda á Höfuðborgarsvæðinu. Á Seyðisfirði hafa þau opnað tímabundinn bændamarkað og nú verður sambærilegur markaður opinn á fimmtudagseftirmiðdögum á Skúlagötunni þar sem nokkrir seljendur koma saman og bjóða afurðir sínar kaupendum.
Óróleiki og hraðinn í samfélagi nútímans eru val að einhverju leiti og ekki óráðlegt að skoða helstu þætti í hversdagslífinu nú í ljósaskiptum árstíðanna. Við vitum auðvitað af stóru öflunum sem við erum að kljást við og stýra of miklu og skapa ójafnvægi en við gerum það ekki að yrkisefni okkar hér. Til að sækja innblástur, hægja á, fækka bílferðum, borða heilnæmara og styðja við gott frumkvæði mælum við með þessari einföldu og bragðgóðu leið sem einu af hráefnunum inn í góðan vetur.
Með bestu kveðju,
Edda og Greipur.