Sunnudagurinn 5. september
Á þessu menningarhausti bjóðum við nýja áskrifendur hjartans velkomna í hópinn. Við bendum þeim og öðrum á að á síðunni okkar er hægt að lesa öll gömlu bréfin, sitthvað í þeim á enn erindi og er hægt að koma endurtekið að. Í þessu bréfi hugum við að lendingu heima fyrir eftir sumarbröltið. Við rýnum í dagskrá Sinfóníunnar, förum á þrumugóða einkasýningu og hugum að uppskeru og garðinum fyrir veturinn.
Með sunnudagskaffinu 🌈
I. Regnbogakort hjá Sinfóníunni, sérsamansett,
- Við erum að hlusta
II. Marmari, Jóhannes Atli Hinriksson í Ásmundarsal
III. Uppskera og frágangur í garðinum heima
- Es. Kosningahlaðvarp RÚV og Tunglkvöld
I. Allir regnbogans litir
Regnbogakort, áskrift að fimm tónleikum
Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.
Starfsárið 2021–22.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur nú hafið starfsár sitt. Við mælum með að áskrifendur okkar verði sér úti um fimm tónleika Regnbogakort hjá Sinfóníunni í vetur. Regnbogakort þýðir að valdir eru saman tónleikar úr mismunandi litaröðum starfsárins á eitt kort og ríflegur áfsláttur veittur af kaupunum. Við höfum valið saman ólíka tónleika sem okkur þykja spennandi.
Margir hafa eflaust orðið varir við sjónvarpstónleikana Klassíkin okkar á föstudag þar sem mikilli menningarveislu var slegið upp og annað okkar átti jafnvel stutta innkomu inn í. Þessir sjónvarpstónleikar í upphafi menningarvetrar hafa nú fest sig í sessi og sýnt að sinfóníutónleikar eru fyrirtaks sjónvarpsefni. Það sýndi sig líka í faraldrinum því þá þótti mögulegt að sjónvarpa tónleikum hljómsveitarinnar oftar á einu ári en öll starfsár Sjónvarpsins fram að því samanlagt.
RÚV og Sinfónían fylgja þessu eftir í vetur með spennandi nýjung þar sem grænni röð starfsárins er komið fyrir á miðvikudagskvöldum í stað fimmtudaga og tónleikunum sjónvarpað beint, fjórum sinnum í vetur. Þetta er fagnaðarefni og vonandi að áhorfendur um allt land njóti þessara tónleika. Við höldum okkur þó við að mæla með ferð í tónleikasal. Það er svo aldrei að vita hvort við laumum einstaka tónleikum til viðbótar inn í fréttabréfin í vetur ef okkur líst þannig á.
Sellókonsert Dvořáks
Fyrstu tónleikarnir á Regnbogakorti Eddu og Greips eru 30. september. Þá hljóma þrjú ólík verk sem annars eru uppsettir frekar hefbundið; lítið hljómsveitarverk í upphafi, þá einleikskonsert og svo hlé. Eftir hlé er svo stærra hljómsveitarverk, oft sinfónía en nú konsert fyrir hljómsveit.
Fyrst á dagskrá er glænýtt verk ísfirska tónskáldsins Halldórs Smárasonar. Sjónvarpsáhorfendur gætu munað eftir honum sem hljómborðsleikaranum á Tónaflóði RÚV um allt land í sumar en hans aðalstarf er að vera tónskáld. Íslensk verk eru ekki oft frumflutt á svona tónleikum Sinfóníunnar og er það til marks um að tónskáldinu er treystandi.
Næst er komið að glæsilegum sellókonserti Antoníns Dvořáks í flutningi ungs dansks einleikara, Jonathans Swensens. Eftir hlé er svo amerískur næntís-konsert fyrir hljómsveit eftir Joan Tower. Við þekkjum ekki til hennar en erum spennt að heyra.
Hér má sjá myndband frá sellóleikaranum unga, Jonathan. Hann er að æfa verk eftir Schnittke í góðum félagsskap á kammertónlistarhátíð í Danmörku í ágúst. Glöggir lesendur þekkja kannski baksvip fiðluleikarans, konsertmeistara Sigrúnar Eðvaldsdóttur.
AION
Nú vendum við okkar kvæði í kross. Númer tvö á Regnboganum okkar eru ekki eiginlegir tónleikar heldur dansverk á sinfóníusviði. Hér er um að ræða samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem loksins er sýnt á Íslandi en það hefur staðið til um nokkurt skeið eða allt frá því verkið var frumflutt af Sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg haustið 2019.
Tónlistin er eftir Önnu Þorvaldsdóttur og dansinn Ernu Ómarsdóttur. Hér er vonandi eitthvað spennandi að gerast á tónleikasviðinu og gaman að geta sent áskrifendur á danssýningu
Benedikt syngur Bach og Händel
Það var ógleymanleg stemning í Hallgrímskirkju snemma í mars í fyrra þegar Benedikt Kristjánsson í félagi við aðeins tvo aðra flutti Jóhannesarpassíu Bachs fyrir fullu húsi. Það sem sveipar þá minningu enn hátíðlegri blæ er að aðeins rúmri viku síðar var skollið á samkomubann og öllu tónleika- og samkomuhaldi slegið á frest. Við mæltum með þessum tónleikum á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju sem nú hefur horfið úr kirkjunni og skilið starfsemina á Skólavörðuholti eftir mun fátækari fyrir vikið.
Benedikt hefur sum sé vakið athygli um nokkurt skeið. Það er því löngu tímabært að hann stigi á stokk með Sinfóníuhljómsveit Íslands og vel við hæfi að hann geri það á Aðventutónleikum hljómsveitarinnar. Á þeim tónleikum er dagskráin jafnan sótt til barrokk-skáldanna sem Benedikt þekkir svo vel. Við mælum því með að þið setjið þessa tónleika á Regnbogakortið.
Shostakovitsj og Barber
Nú mælum við aftur með nokkuð hefðbundnum sinfóníutónleikum. Og aftur er það ungur einleikari sem stígur á stokk og fyrir einskæra tilviljun er það ungur Skandínavi. Svíinn Johan Dalene er eitt af þessum nöfnum sem skýtur æ oftar upp kollinum á tónlistarsviðinu og fengur af því að fá hann í Eldborg. Hann leikur fiðlukonsert Samuels Barbers. Á dagskrá er líka kóreiskt verk eftir Unsuk Chin og þó hún sé meðal helstu samtímatónskálda heimsins heyrast verk frá landi hennar sjaldan í tónleikasölum hérlendis. Jafnvel svo sjaldan að mögulega hefur lokaverk tónleikanna, sinfónía nr. 10 eftir Dímítríj Shostakovitsj hljómað oftar í flutningi sinfóníunnar (þetta verður í 9. sinn) heldur en verk frá Kóreu. Þetta er skrifað án ábyrgðar en ljúft að láta þess getið að kóreiskir listamenn hafa verið aufúsugestir í tónleikasölum hér.
Víkingur og John Adams
Á starfsárinu trommar Sinfónían upp með Víking Heiðar sem staðarlistamann og leikur hann á þrennum áskriftartónleikum sveitarinnar þrjá nýja eða nýlega píanókonserta, auk þess sem útgáfutónleikar nýrrar hljómplötu hans eru hluti af tónleikaári hljómsveitarinnar. Allir þeir tónleikar eru hluti af nýrri svartri röð sem áhugasöm geta gefið gaum.
Tónleikarnir sem við setjum í Regnbogakort Eddu og Greips eru síðustu tónleikar Víkings á starfsárinu. Þeir eru í raun hefðbundnir að uppbyggingu. En það sem er óvenjulegt við tónleikana er að öll verkin eru eftir sama tónskáldið því auk nýlegs píanókonserts Johns Adams hljóma tvö önnur verk hans: Short Ride in a Fast Machine og Harmonielehre. Það sem meira er: John Adams ætlar sjálfur að stjórna hljómsveitinni. Hér er því um stórviðburð að ræða en Adams er án efa eitt merkasta tónskáld samtímans. Hann hefur líka átt þátt í að auka veg íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna úti í hinum stóra heimi og því gaman að geta boðið hann velkominn í Eldborg næsta vor.

Regnbogakort má kaupa með einföldum hætti á netinu. Þar er hægt að velja tónleika og sæti, greiða og fá kortin send heim.
Við erum að hlusta
Við fylgjum Regnbogakorti Eddu og Greips úr hlaði með því að velja nokkur verk af efnisskrá tónleikanna á lagalistann okkar sem og tónlist sem tengist efnisskránum beint. Um leið bendum við á ansi ríkulega Spotify-rás hljómsveitarinnar. Þar eru meðal annars lagalistar með allir tónlist starfsársins.
II. Óhlutbundin hlutbundin höggmynd
Marmari, einkasýning Jóhannesar Atla Hinrikssonar,
Ásmundarsal við Freyjugötu.
Sýningin stendur til 12. september.
Marmari er strangheiðarleg skúlptúrsýning Jóhannesar Atla Hinrikssonar í Ásmundarsal sem við mælum aldeilis með. Í forvitnilegum texta sem Ragnar Helgi Ólafsson skrifar og fylgir sýningunni segir:
Óhlutbundin höggmyndalist er í besta falli orðaleikur, í versta falli brandari. Hluturinn er alltaf hlutbundinn.
Ég naut þess að lesa textann sem fylgir sýningunni áður en ég kom í Ásmundarsal, geymi annars yfirleitt að lesa texta með sýningum þar til eftir á. Ég botnaði hins vegar ekki mikið í honum en tengdi við hin og þessi orð; miðaldra, hráefni, auðmótanlegt, adhd, valkostur og vangaveltur um hlut sem óhlutbundinn eða hlutbundinn í sjálfum sér. Standandi inni í sýningunni miðri, meðal að mestu hvítra höggmynda á hvítum stöplum og nokkurra svarthvítra teikninga í hvítu rýminu öðlaðist textinn öllu skarpari merkingu.
Til glöggvunar og sem smá útúrdúr þá er höggmynd bein íslensk þýðing enska orðsins sculpture, sem tekið er úr latínu, sculptura en sculpere þýðir að skera út, rista í eða höggva í (sbr. carve). Í hugum fólks hefur hugtakið skúlptúr þó oft víðtækari merkingu en höggmynd, sem er þó ákveðin málfræðileg mótsögn.
Skúlptúrarnir eru alls ekki úr marmara eins og titill sýningarinnar gefur til kynna heldur mótaðar úr ódýrum efnivið sem við þekkjum vel; frauðplasti, gifsi, múr, pappa, spýtum, vírum og einhverju fleiru. Þeir eru tærir og skýrir. Akkúrat það sem þeir eru og ekkert að fela, öll byggingin og efnið sýnilegt. Litlu bætt við nema örfáum vel völdum litum. Þeir eru í góðu jafnvægi hver við annan en búa sérhver yfir sínum eigin þyngdarpunkti. Myndbyggingin frjáls – já eða frelsandi og eins og hún sé tímabundin eða sveigjanleg. Orkan björt og skörp. Ég dvaldi nokkuð lengi. Fékk á tilfinninguna að verkin væru mótuð úr hráum frumsköpunarkrafti, en af yfirvegun og í góðri tengingu. Að þau hefðu runnið í kraftmiklum straumi beint úr innsæinu, farið á flúðasiglingu í gegnum rökhyggjuna og út um fingur listamannsins í tíu misstórum fossum og við séum nú stödd ofarlega í ósnum í fínu jafnvægi bergvatns og seltu sjávar.
Hugurinn reikar auðveldlega til samfélagskerfanna (skólakerfisins!) sem eru fastmótaðir skúlptúrar út af fyrir sig og myndhöggvarar þeirra gætu leitað innblásturs í gagnsæinu, sveigjanleikanum og margbreytileikanum. Það er hægt að móta alla strúktúra betur, jafnvel þá sem hoggnir eru í harðgerðustu efni. Sýningartextinn heldur áfram:
Listamaður meinar hverja sveigju, hann meinar þetta allt. Hitt er hins vegar óljóst: hvað þetta allt er. Byrjum á því að móta þennan skratta – svo sjáum við til.
Boðið er til spjalls með listamanninum 9. september sem gæti orðið hugvíkkandi og gefið tækifæri á að fá nánari sýn inn í sköpunarferlið og hugmyndir Jóhannesar með verkunum.
III. Uppskeran
Uppskera og frágangur í matjurtagarðinum.
Haustverkin.
Á undanförnum mánuðum höfum við skrifað aðeins um ræktun í garðinum heima. Það er fátt ánægjulegra en að framreiða mat úr eigin uppskeru og njóta fallegra plantna. Salat af ýmsum gerðum, ein og ein gulrót eða rauðrófa, salvía á pastað eða oregano og timian í pottréttinn, stöku jarðarber í eftirrétt, rabarbarapæ eða fjólur á ísinn. Það er eitthvað sem gerist djúpt í hjartanu mínu í þessu ferli, eitthvað nýtt og heilandi í hverju skrefi.
Spyrjum okkur nú hvað tókst vel í ræktun sumarsins og af hverju og einnig hvað okkur langar að prófa næst. Ég veit fyrir mig sjálfa að ég sáði allt of miklu. Það er bara svo gaman að fylgjast með kímplöntum skjóta upp kollinum, vaxa og dafna, hverri á sínum forsendum. En ég náði svo engan veginn að koma öllu út í beð og því sem átti að vera inni í stærri potta. Ég stofna kannski bara til skiptimarkaðs í vor með forræktað og nýbakað, þið komið með ykkar afurðir eða hugvit og við leggjum grunn að okkar eigin hliðar-hagkerfi.

Í framhaldi af umfjöllun um fjölæringa er nú góður tími til að veita athygli síðsumarblómstrandi plöntum í eigin garði og annarra og hverju væri gaman að bæta við í fjölæringabeðið okkar. Nú er einnig gott að spyrja sig hvar í garðinum bestu ræktunarskilyrðin virðist vera og hvað hægt sé að gera til að bæta ræktunarskilyrði með því að búa til skjól, bæta í jarðveginn, auka/minnka bil á milli plantna og þar fram eftir götunum. Ég hef veitt því athygli að á sólríkasta bletti garðsins míns dafnar urmull af sjálfsprottnum allskonar plöntum sem eru lítið fyrir augað og ég sé fyrir að gæfulegt væri að nota undir upphækkuð beð eða ræktunarkassa. Þá gæti ég líka mögulega ræktað chilli eða lágvaxin og kuldaþolin tómatafbrigði í garðinum! Pæling.
Svo eru það kartöflurnar sem bjargað hafa mörgu mannslífinu. Við þurfum tæpast á því að halda, hendum enda stórum hluta þess matar sem framleiddur er í heiminum. Sjálf setti ég niður sex yrki sem ég keypti hjá Garðyrkjufélaginu og er spennt að byrja að taka upp og bera saman. Sumir taka jafnvel upp nýjar kartöflur fyrir jólinn svo ég er ákveðin í að prófa að geyma nokkur grös og sjá hvað veðráttan mun bjóða upp á.
Kartöflur eru best geymdar í jörðinni og geta geymst allan veturinn og spírað að vori, það gerðist í mínum garði í vor og ég fann nokkrar sem voru ljómandi fínar. Þegar grösin falla vegna frosts og kartöflurnar teknar upp þarf að geyma þær við góðar aðstæður ef birgðarnar eiga að endast. Takið helst upp í þurru veðri, dustið moldina af og þerrið. Fæstir eiga kartöflugeymslur nú á dögum og þá vandast málið enda geymsluhitastig kartafla ákjósanlegt við 2-4°C. Ég ætla að prófa að nota hirsluna í útigrillinu sem mína kartöflugeymslu á meðan veður leyfir.
Skynsamlegt er að búa vel um matjurtabeðin fyrir veturinn. Hægt er að sópa sölnuðum laufum yfir þau og akrýldúk þar yfir og fergja (með steinum, spýtum, litlum sandpokum, mold eða öðru) svo hann fjúki nú ekki í næstu vindkviðu. Hægt er að fara í þangtekju eins og mikið var gert af í gamla daga og hylja beðin með þara eða setja einfaldlega bara dúk yfir. Allt sem hægt er að gera til að vernda jarðveginn og halda honum í garðinum. Svo er bara að vona að almennileg snjóþekja verði í garðinum í vetur því hún verndar jarðveginn og kartöflurnar sem eftir eru og varnar jarðvegsfrosti þó það kunni að hljóma mótsagnakennt.
Nú er ég að byrja að læra um býflugur og ræktun ávaxtatrjá svo hver veit nema ég punkti eitthvað niður um það á næstu mánuðum og sendi ykkur þegar við förum að huga að næsta ræktunarári.
Fyrri umfjallanir um að rækta garðinn sinn:
Til eru fræ - 14. mars
Kartöflugarðurinn heima - 25. apríl
Fjölæringar - 9. maí
Forræktaðar matjurtir úr garðplöntustöðvum landsins - 27. júní
Við sendum góðar kveðjur og minnum á að það er alveg óhætt að áframsenda bréfin endrum og eins til ástvina.
Ykkar Edda og Greipur
Eftirskrift
RÚV hefur hleypt af stokkunum hlaðvarpinu X21 í aðdraganda Alþingiskosninganna. Þáttaröðin fer vel af stað og um hana sér gott útvarpsfólk. Fremstur meðal jafningja hlaðvarpskonungur RÚV, Guðmundur Björn Þorbjörnsson. Við mælum sérstaklega með þættinum þar sem leiðtogakappræður stjórnmálaflokkanna voru krufnar.
Vorum að komast á snoðir um að Tunglið forlag býður til Tunglkvölds 8. september á Hótel Sögu sem hluta af dagskrá Bókmenntahátíðar. Tveir höfundar gefa út bækur, Páll Ivan frá Eiðum og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Bækurnar verða gefnar út í 69 eintökum að vanda og óseld eintök brennd í lok kvölds. Tunglkvöldin hafa fram til þessa ekki svikið svo við mælum með að mæta í Grillið kl. 21 og nýta sannarlega einstakt tækifæri til að festa kaup á útgáfum kvöldsins og eiga stund á áttundu hæðinni.