Sunnudagurinn 4. október 2020.
Nú eru í gildi ný tilmæli frá Þórólfi og sem endranær fylgjum við þeim auðvitað. Okkur þykir ástæða til að nefna aðdáun okkar á hve okkar ólgandi og kraftmikla þjóð getur verið samstíga og hlýðin. Fyrir þetta erum við þakklát og um leið stolt af okkar framúrskarandi vísindafólki sem leiðir í þessu ástandi. Tækifærin eru víða til að horfa um öxl og fram á við og við drögum hér fram raddir og lífssýn tveggja afbragðs fyrirmynda okkar tíma. Við förum líka í kærkomna leikhúsferð.
Með kaffinu í dag:
I. Life on Our Planet með David Attenborough á Netflix
II. Upphaf í Þjóðleikhúsinu
III. Dolly Parton’s America
- Gæðastund í umferðinni.
I. „We must rewild the world“
Life on Our Planet með David Attenborough,
Netflix.
Á dögunum setti rúmlega níræður maður heimsmet. Hann varð fljótastur í sögunni til að ná milljón fylgjendum á Instagram. Fyrra met átti leikkonan Jennifer Aniston sem er okkur af Friends-kynslóðinni að góðu kunn. Það tók nýjan Instagram-reikning Sir Davids Attenboroughs tæpar 5 klukkustundir að ná þessu og nú nokkrum dögum síðar hefur fjöldi fylgjenda fimmfaldast.
Það er gott því tilefni þess að David steig skrefið inn á þennan mótandi samfélagsmiðil er ærið. Hann hefur sent frá sér mynd sem hann kallar vitnisburð sinn. Myndin, Life on Our Planet lendir á Netflix í dag. Af öllum sínum mætti útskýrir hann stöðuna á því breytingarferli sem Jörðin, lofthjúpur hennar og lífríki er í og myndin sem hann dregur upp er dökk.
We are facing nothing less than the collapse of the living world. The very thing that gave birth to our civilisation. The thing we rely upon for every element of the lives we lead. No one wants this to happen. None of us can afford for it to happen.
Hann bendir á að á þeim rúmu 90 árum sem hann hefur lifað, í stóra samhenginu örstuttur tími, hafa nærri allar þær breytingar sem valda núverandi ástandi átt sér stað.
Þegar hann var barn að aldri bjuggu 2,3 milljarðar manna á Jörðinni og 66% jarðarinnar voru enn villt víðátta. Ef ekkert verður að gert má reikna með að yfir 11 milljarðar fólks byggi Jörðina árið 2100.
Attenborough gerir Apollo 8-leiðangurinn árið 1968 að umtalsefni en þá fyrst gafst jarðarbúum tækifæri til að sjá alla jörðina á mynd; „Þarna erum við öll“ sagði Attenborough. Myndin er af Instagram-reikningi NASA. Honum fylgja yfir 60 milljónir.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Það sem gerir þessa mynd sérstaka er að stórum hluta er varið í sýn Attenborougs á hvað hægt er að gera. Hann segir það í raun frekar einfalt og bendir á að það hafi verið beint fyrir framan nefin okkar allan tímann: Til að ná stöðugleika á Jörðinni verðum við að endurheimta og tryggja líffræðilegan fjölbreytileika. Við verðum að endurrækta hina villtu náttúru og dýr hennar:
We must rewild the world.
segir sjónvarpsmaðurinn og samfélagsmiðlastjarnan David Attenborough. Og hann bætir við að þetta sé enn einfaldara en við höldum. Hér er létt samantekt:
Stöðva fólksfjölgun með því að gera löndum sem þurfa mögulegt að þróast, hjálpa konum til mennta, tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu og koma fólki úr fátækt.
Stórauka þróun og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Stunda örugga stjórnun fiskveiða og sýna nærgætni í umgengni við hafið. Heimshöfin gegna lykilhlutverki í að draga úr kolefnismagni í andrúmsloftinu. Heilbrigðari höf, allra hagur. Við gerðum þetta og þörunganytjar við Íslandsstrendur einmitt að umtalsefni okkar nýlega.
Draga stórlega úr landnotkun landbúnaðar. Til þess er áhrifaríkast að breyta mataræði og borða minna kjöt.
Rækta meira grænmeti og ávexti, víðar. Og borða í stað kjöts.
Og síðast en ekki síst. Rækta skóga. Þeir eru besta kerfi náttúrunnar til að binda kolefni og hýsa fjölbreytt lífríki. Þessu fylgir auðvitað að hætta að höggva skóga. (David hnýtir sérstaklega í pálmaólíuiðnaðinn sem alræmdur er. Gott að hafa í huga í matarinnkaupunum.)
Við hvetjum lesendur okkar til að huga að þessum atriðum með sunnudagskaffinu og finna leiðir til að lifa eftir og hafa áhrif á aðra. Það er hægt að byrja strax í dag. Gæti sunnudagssteikin verið fiskur? Væri ekki snjallt að skella sér út eftir kaffi og tína nokkur birkifræ eins og við lögðum til í síðasta fréttabréfi? Leggja drög að heimaræktun næsta sumars eða skjóta nokkrum haustlaukum niður áður en næturfrostin ná ofaní moldina. Í fréttabréfi frá í apríl má finna litla hugleiðingu um heimaræktun og hvernig við getum búið í haginn. Við það má bæta að ekki er alvitlaust að blanda smá næringu (t.d. moltu, bokhasi, hrossataði, sprekum) í beðin núna og fara að huga að því hvað skal forrækta þegar myrkrinu tekur að létta í febrúar, mars.
En umfram allt: Horfið á myndina.
Við erum að hlusta 🎵
Steven Price hefur samið huggulega hljóðmynd við kvikmynd Attenboroughs en náttúran hefur auðvitað verið mýmörgum tónskáldum innblástur, meira að segja Beethoven. Dolly Parton hefur líkt og aðrir myndgert tilfinningar í náttúrumyndum.
II. Nýtt upphaf
Upphaf eftir David Eldridge,
Þjóðleikhúsinu.
Sýningar enn í sölu.
Nýtt leikár er alltaf nýtt upphaf. Nýjabrumið á leikárinu var sérstaklega áþreyfanlegt á dögunum þegar kærkomin frumsýning átti sér stað í Þjóðleikhúsinu. Það er nefnilega svo gott að koma saman, hlægja og tárast – vel hægt með því að gæta að andrými og sóttvörnum.
Það var viðeigandi að fyrsta frumsýningin á fjölunum væri á breska verkinu Upphafi (e. Beginning) eftir David Eldridge. Verkið var frumsýnt í Englandi fyrir þremur árum og naut strax töluverðra vinsælda. Svo mikilla að Þjóðleikhúsfólk var nokkuð snöggt til og býður nú upp á þessa fínu íslensku staðfærslu í Kassanum.
Verkið segir frá því sem gerist eftir að innflutningspartýi Guðrúnar í nýrri íbúð í Vesturbænum lýkur. Henni áður ókunnugur maður að nafni Daníel, gestur samstarfsfélaga hennar, hefur gefið henni auga öðru hverju allt kvöldið, sem hún hefur endurgoldið. Þegar allir virðast farnir hættir Daníel við að hoppa í leigubílinn með vini sínum og snýr aftur inn. Þýðing Auðar Jónsdóttur og staðfærsla gengur vel upp. Nokkur atriði sem eru rótgrónari í enskri menningu en íslenskri gætu stungið í stúf, svo sem þjóðfélagsstaða Daníels og Guðrúnar en Auði tekst að færa nánast allt í eðlilegan íslenskan veruleika. (Auði er Vesturbærinn greinilega hugleikinn því nýútkomin er skáldsaga hennar og Birnu Önnu Björnsdóttur, 107 Reykjavík.)
Leikritið og uppfærslan eru þannig úr garði gerð að sagan gerist í rauntíma, um það bil 100 mínútum í raunverulegri íbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem mörg okkar hafa komið í. Það er ekki verið að of- eða vantúlka neitt. Vínflöskur og sófi. Allt sem til þarf í eftirpartý er til staðar á sviðinu í Kassanum. Þetta er mjög heiðarlegt stofudrama sem fær mann þó líka til að hlægja.
Á þessum tæpu tveimur klukkustundum í tveggja manna eftirpartýi reyna tvær sálir á ofanverðum fertugsaldri að finna sameiginlega tengingu. Segja má að í verkinu takist Eldridge að sýna að oftast eru langanir og tilfinningar fólks ekki samstíga og að einmanaleikinn er töluvert útbreiddur í öllum þrepum samfélagsins. Hér er Guðrún hugsanlega meira sannfærð og örugg en Daníel þvert á móti týndur og óöruggur. Sögur þeirra opnast leikhúsgestum smám saman í verkinu og framvindan verður spennandi.
Við mælum með sögustund Maríu Reyndal leikstjóra í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Frammistaða leikaranna Hilmars Guðjónssonar og Kristínar Þóru Haraldsdóttur ein saman er heimsóknarinnar virði.
III. Elsku Dolly
Dolly Parton’s America,
hlaðvarp í 9 þáttum.
Í öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.d. Spotify.
Ég er einlægur aðdáandi Dolly Parton. Hef verið það mjög lengi. Á ógleymanlegar minningar af tónleikum þar sem Dolly fór á kostum, heillaði alla viðstadda upp úr skónum og langt út í geim, söng eins og rjómi og rifsberjasulta, spilaði á fjölmörg hljóðfæri, öll gljáfægð og skjannahvít, svaraði stálheiðarlega opinskáum spurningum frá áhorfendum, sagði sögur og skipti reglulega um dress, sem var hvert öðru fegurra upp á hennar eigin máta. Í heimssýn Dollyar er hver á sínum forsendum. Hún fer ekki í manngreiningarálit, fetar ljúft og létt trúarskotnar línur en forðast alla pólitík og hlutdrægni fram í rauðan dauðann. Hún hefur kærleikann alltaf – alltaf – alltaf að leiðarljósi. Dolly hefur sannarlega þurft að takast á við karlaveldið – og kvennaveldið, en alltaf fylgt sinni sannfæringu og innsæi. Já, hún er bara alveg frábær.
Dolly er stórtæk í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur. Instagram reikningur hennar er engin undantekning og við mælum auðvitað með að fylgja henni.
Í hlaðvarpsþáttunum bandarísku Dolly Parton´s America fara þáttastjórnendur á bólakaf í feril Dollyar út frá ýmsum sjónarhornum, hver þáttur með sína áherslu. Í einum þeirra heimsækja þeir til dæmis nemendur í söguáfanga í Háskólanum í Tennessee í Knoxville og fá einmitt titil námskeiðsins lánaðan sem yfirskrift þáttanna. Við mælum með hlustun á þessa frábæru seríu. Enginn sem áhuga hefur á kántrýtónlist, trúmálum, lífsspeki, hvítum og bleikum, ástinni, feminískri sögu, menntun, samfélagskrufningu, átökum, frásögn, samtali, góðum húmor nú eða stjórnmálum ætti að láta þá framhjá sér fara. Það er nefnilega áhugavert að hlusta á þættina og pæla í þeim kröftum sem sameina eða sundra, til dæmis í samhengi við þróun stjórnmálanna í Bandaríkjunum og er skemmst að minnast sérlega ómálefnalegra kappræðna sitjandi forseta og mótframbjóðanda hans sem fram fóru á dögunum og minntu einna helst á slappan farsa.
Nú nýorðin 42, sem samkvæmt goðsagnakenndri Hitchkikers Guide to the Galaxy, er svarið við stóru spurningunni, er ég farin að sjá svo margt í nýju og skarpara ljósi. Allt er aðeins skýrara og um leið óskiljanlegra, því þegar öllu er á botninn hvolft er spurningin augljós þó hún sé óáþreifanleg. Ég er hugsi yfir stemningunni í heiminum og hvað við erum eiginlega að gera. Ég man svo skýrt hvernig hún var þegar ég var á unglingsaldri, í menntó og rétt eftir útskrift og er hugsi yfir stemningunni þá miðað við þá sem ríkir nú og mínir unglingar alast upp við. Það þurfti þó kaffibolla með hjartans vinkonu til að varpa ljósskímu á samhengi hlutanna. Samtalið er jú alltaf lykillinn.
Á mínum unglingsárum ríkti, eftir því sem ég upplifði, aðeins meiri ró í heiminum – í stóra samhenginu. Auðvitað var fullt af hlutum sem voru sorglegir og skelfilegir, stríð við Persaflóa, í Júgóslavíu og Rwanda, margslungin réttindabarátta var enn lokuð undir yfirborðinu, lítið var talað um andlega líðan opinberlega og svo mætti áfram telja. Heimurinn var líka stærri og upplýsingar ferðuðust ekki jafnhratt. Bjartsýni ríkti þó eftir fall Berlínarmúrsins, Evrópa stóð þéttingsfast saman, almenningur hafði litla hugmynd um lofslagsvána, víða sátu mildari týpur á valdastólum, 11. september var ekki runninn upp, samfélagsmiðlar voru enn óþekktir og unglingar í rándýrum klæðnaði með rándýr tæki sáust helst í bíómyndum. Ég er hugsi yfir þessum mótunarárum og áhrifum ástands heimsins á unga fólk hvers tíma. Er hugsi yfir líðan unglinga í dag og mikils óróleika, áreitis og freistinga svo ekki sé minnst á áhrif kórónaveiru sem hefur haft í för með sér nánast óraunverulega breytingu á heiminum. Ég hugsa um alla þessa einstöku áhrifaþætti á jörðinni, svo ekki sé minnst á stærra samhengið og alla kraftana þar. En það er efni í annan pistil, jafnvel þó þetta hangi allt saman.
Byrja á Dolly og kærleikanum. Saga hennar, lífssýn og listsköpun eru bara svo mögnuð. Hún er kærleiksuppspretta sem hún deilir sífellt og skilyrðislaust úr til allra þeirra sem vilja taka við. Hún sendir óstýrilátum apaköttum í pólitík kærleika, hallmælir engum en vílar ekki fyrir sér að segja skoðun sína og krefjast breytinga þar sem þeirra er þörf, hvort heldur er í orði, söng eða með góðu gríni. Dolly hefur tekist að sameina fólk á öðrum og mýkri forsendum, allskonar fólk, ólíkustu hópa með allskonar skoðanir, ólíkt ríkjandi öflum í heimalandinu. Nú í aðdraganda vetrar mælum við heilshugar með að hlusta á tónlist Dolly Parton og þættina og rækta okkar eigin kærleiksbrunn.
Alla þættina má finna í hlaðvarpssarpi okkar.
Hlýjar kveðjur,
Edda og Greipur
Gæðastund í umferðinni 🚙
Að hlusta og keyra. Til gamans nefnum við hljóðverk sem hægt er að hlusta á á netinu. Það er flúnkunýtt verk myndlistarmannsins David Horvitz sem við sögðum ykkur frá áður. Hann er myndlistarmaður sem vinnur í fjölbreytilega miðla, einstaklega afkastamikill, vinnur í miklu flæði og er náttúran og hafið hugleikið. Á nýopnaðri sýningu hans í Praz-Delavallade í París er hljóðverkið Oceaean, sem er samsett úr hljóðskjölum frá fjölmörgum einstaklingum sem gera hver sína atlögu að því að bera fram þetta nýja orð, titil verksins. Það er sum sé ekki bara Attenborough sem er í nýyrðasmíð þessa dagana.