Sunnudagurinn 16. febrúar.
Hér við Faxaflóa finnum við sannarlega fyrir því að dagurinn lengist jafnt og þétt og nú er ekki nema rúmur mánuður í jafndægur. Í bréfi dagsins skiptast á myrkur og birta. Við lítum til björtustu daga sumarsins og fræðumst um finnskan gest við Djúp um sumarsólstöður. En úr Djúpinu kemur líka draugasaga þar sem myrkrið er með yfirhöndina. Enn nýr gestapenni, Guðfinnur Sveinsson, skrifar um bjarta og fallega óperusýningu og við rifjum upp skrif frá Feneyjum.
Með sunnudagskaffinu í dag
Pistill: Kantele frá Finnlandi,
Hlusta: Birta í Uppástandi Rásar 1,
Meðmæli: Brúðkaup Fígarós og kvikmyndin The Damned,
Innskot: Listamannaspjall í Listasafninu.
Pistill: Kantele við Djúpið
Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði 17.–21. júní.
Í haust kynntum við pistlaröð og upphitun fyrir tónlistarhátíðina Við Djúpið sem fram fer á Ísafirði um miðjan júní. Í pistli dagsins langar okkur að beina sjónum að sérstökum gesti sem við nefndum í haust. Það er finnski arkitektinn og tónlistarmaðurinn Tuomas Toivonen. Hann á að baki óvenjulegan tónlistarferil; hefur verið meðlimur vinsællar rokkhljómsveitar og tileinkað sér þjóðarhljóðfæri Finna, kantele.
Við mæltum okkur mót við Tuomas í vikunni og báðum hann að segja okkur aðeins frá hljóðfærinu og kynnum hans af því. Í fyrsta sinn birtum við pistil í myndbandsformi en það er gaman að heyra og sjá Tuomas segja frá kantele.
Allir finnar þekkja kantele og hafa hugmynd um hvernig hljóðfærið hljómar. Tónskáld skrifa verk fyrir kantele og börn spila á það í tónfræðitímum í skólum landsins, segir Tuomas. Þannig hefur hann þekkt kantele alla tíð og tengst því.
Tuomas hefur í félagi við eiginkonu sína Nene Tsubo byggt og rekið sauna-staðinn Kulttuurisauna á besta stað við hafið í Helsinki. Við getum hiklaust mælt með heimsókn þangað eigi áskrifendur leið um finnska höfuðstaðinn. Hægt er að panta fyrirfram en gætið að því að ekki er tekið á móti hópum, saunan er kynjaskipt og ekki er gert ráð fyrir masi. Gestir geta þó, óháð kyni, hist í úti í garði, skrafað og stungið sér til sunds.
Fallegt sjónarhorn í Kulttuurisauna.
Þegar þau voru að byggja saununa velti hann því fyrir sér hvaða hljóðfæri myndi passa best fyrir rýmin í byggingunni. Estitík kantelesins heillaði hann, hlutföll, saga þess og hvernig hljóðfærið var tengt skapara sínum eða eiganda og hvernig fólk spilaði mismunandi á hljóðfærin.
Á tónlistarhátíðinni Við Djúpið ætlar Toumas að koma fram á stuttum hádegistónleikum og flytja fjölbreytta dagskrá fyrir hljóðfærið og rödd. Hann segir frá því að kantele var og er mikið notað sem meðleikur með vísnasöng þar sem langar frásagnir eru bundnar í söng. Hann flytur bæði hefbundin verk en líka eigin sem sækja í arfinn en segja nýjar sögur.
Auk einleikstónleikanna kemur Tuomas fram á sérstökum tónleikum tileinkuðum finnskri tónlist. Báðir eru fimmtudaginn 19. júní.
Af hljóðrásinni: Birta 📻
Við birtum til gamans vikugamlan pistil Greips úr pistlaröð Rásar 1, Uppástandi.
Meðmæli
Instant klassík
Brúðkaup Fígarós, Kammeróperan sýnir á nýja sviði Borgarleikhússins. Sýnt í kvöld, 23. feb., 2. og 8. mars.
Instant klassík voru orðin sem komu upp í hugann við lok sýningarinnar. Sem er kaldhæðið að hugsa, því Brúðkaup Fígarós er augljóslega algjör klassík sem ein mest flutta ópera allra tíma. En samt var þetta það sem ég hugsaði. Leikgleðin, gæði söngsins, en kannski fyrst og fremst frábær þýðing gerði kvöldstundina að einni sem ég mun gleyma hægt.
Tölum aðeins um verkið og aðstandendur. Brúðkaupið er nokkuð týpísk ópera sem fjallar um vitlausa og kvenóða flagara (Greifann í þessu tilfelli), en þrátt fyrir tilraunir hans til að komast á milli Fígarós og Súsönnu, þá vinnur ástin að sjálfsögðu að lokum. Íslensk þýðing er eftir Bjarna Thor og leikstjórn sömuleiðis í hans höndum. Það er Kammeróperan sem stendur að uppsetningunni, en hópurinn hefur verið iðinn við kolann síðustu ár og hlaut m.a. Grímuna árið 2023 sem Sproti ársins.
Fremst á sviðinu eru þau Unnsteinn Árnason í hlutverki Fígarós, Jóna G. Kolbrúnardóttir í hlutverki Súsönnu, Oddur Arnþór í hlutverki Greifans, Kristín Sveinsdóttir í hlutverki Cherobino og Bryndís Guðjónsdóttir í hlutverki Greifynjunnar. Þau voru öll alveg frábær í söng jafnt sem leik og það er í raun ekki hægt að gera upp á milli þeirra. En nokkrir hápunktar: frábær leikur og söngur Odds í hlutverki þessa vitlausa kvennabósa. Kristín blómstraði í hlutverki annars og ennþá fyndnari kvennabósa og hreif salinn með sér. Og svo verð ég að nefna Eggert Reginn Kjartansson sem mér fannst springa út í tveimur smærri hlutverkum, Basillo og lögfræðingsins Don Curzio. Öll hin voru alveg solid, í hlutverkum sem maður hlær minna að, en skiluðu öllu sínu uppá 10. Hljómsveitarstjóri var Elena Postumi og leiddi úrvals hljóðfæraleikara sem spila reglulega með Sinfó og Elju. Þau stóðu sig frábærlega í krefjandi sal fyrir hljóðfæraleik.
En ókei – þýðingin. Þetta er fyrsta óperan sem ég sé á íslensku. Það er algjör game changer. Maður fær að fylgjast með orð frá orði og þarf ekki að vera að stara í texta eða á textaskjái. En þýðingin þarf líka að vera góð, skemmtileg, fyndin og textinn þarf að vera sönghæfur. Bjarni Thor skilar af sér ótrúlega flottu verki, og tikkar í öll boxin. Ég spurði nokkra reynslubolta sem mættu á frumsýninguna, og mér skilst að þetta sé líklegast í fyrsta skipti sem Brúðkaupið er þýtt. Meira svona, ég vil sjá miklu fleiri óperur þýddar. Bravó Bjarni Thor!
Mögulega er sniðugt að fylgja Kammeróperunni á Instagram til að missa ekki af næstu uppfærslum þeirra.
En mig langar aðeins að segja frá þessum einstaka hóp söngvara og aðstandenda Kammeróperunnar, og þeirra bakgrunni. Ekki eru þetta bara margverðlaunaðir heimsklassa óperusöngvarar, heldur eru þetta nánir vinir sem eru með djúpa ástríðu fyrir óperu og sönglist, og hafa komið sér saman um að leyfa óperuforminu og sjálfum sér að blómstra á íslenskri grundu. Margt af þessu fólki fór í gegnum kórastarfið í Langholtskirkju þar sem Jón Stefánsson réði ríkjum í fimm áratugi, og svo í gegnum Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur (einum af stofnendum Íslensku óperunnar og ekkju Jóns), Hörpu Harðardóttur (söngkonu og systur Ólafar), Garðari Cortez heitnum og fleirum. Þau eiga það svo öll sameiginlegt að hafa stúderað söng í bestu óperuskólum heims, s.s. í Vínarborg og Salzburg og sungið við óperuhús á borð við Teatro alla Scala, Tiroler Landestheater í Innsbruck og Konunglegu óperuna í Kaupmannahöfn.
Á þessu sviði má sjá nýja kynslóð íslenskra óperusöngvara í hæsta klassa sem ég vona að haldi áfram að auðga menningarlífið hér. Fimm stjörnur frá mér og sterk meðmæli með að fara að sjá, ekki missa af því (ég held það séu reyndar mjög fáir miðar eftir, en það má enn reyna að ná í sæti). Ef ekki þessi sýning, þá sú næsta.
(Það skal tekið fram að undirritaður er bróðir eins af söngvurum sýningarinnar, og hefur sungið í kórum með mörgum í sýningunni, og þannig ekki hlutlaus með öllu.)
- Guðfinnur Sveinsson mælir með.
Innskot: Frá Feneyjum
Listamannaspjall í Listasafni Íslands: Hildigunnur Birgisdóttir og Ragnar Kjartansson, 23. febrúar kl. 14.
Sú hefð hefur skapast að sýning fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum er sett upp í safni á Íslandi. Lengi vel var það í Listasafni Reykjavíkur, en að þessu sinni er sýning Hildigunnar Birgisdóttur sem við sögðum frá í júní síðastliðnum sett upp í Listasafni Íslands. Hún opnar 22. febrúar og daginn eftir er boðið til listamannaspjalls þar sem Hildigunnur og Ragnar Kjartansson sem hún hefur unnið með og þekkir verk hennar mjög vel munu rabba saman. Verk Hildigunnar eru ekki endilega auðskilin og við mælum því með þessu spjalli og einnig að rifja upp skrif um fyrri verk og sýningar hennar hér í bréfinu. Við lofum góðri innsýn.
Draugasaga í bíó
The Damned, sýnd í Smárabíói og Bíó Paradís
Hrollvekjur eða ævintrýralegar spennumyndir hafa aldrei verið efst á mínum óskalista. Þegar ég gekk inn í Ísafjarðarbíó um mánaðarmótin til að sjá The Damned, eða Hin fordæmdu, rifjuðum við upp að sennilega fór ég síðast í bíó á Blair Witch Project til að sjá þannig mynd. Nú var aðdráttaraflið annað, Ísfirðingum og nærssveitafólki rann blóð til skyldunnar – og var auðvitað forvitið – um þessa mynd sem er tekin vestur við Djúp.
Það er skemmst frá því að segja að myndin kom ánægjulega á óvart og var í raun alls ekki sú hrollvekja sem við áttum von á. Besta leiðin til að lýsa henni er að þetta er lítil gamaldags draugasaga. Sögusviðið er verbúð á 19. öld. Útgerðarbóndinn er ekkja fyrrum formanns og sögupersónurnar lítil áhöfn sexæringsins og ráðskona auk ekkjunnar.
Verbúðina kannst margir við – myndin er tekin í Ósvör við Bolungarvík þar sem Byggðasafn Vestfjarða hefur reist við á gömlum grunni verbúð sem fjölmargir hafa heimsótt. Senurnar í fjörunni minna mjög á leiknar senur úr heimildamyndinni Verstöðin Ísland sem tekin var á sama stað. Það er líka einmitt þarna sem maður ímyndar sér að strákurinn og Bárður í Himnaríki og helvíti Jóns Kalmanns hafi lagt upp í örlagaríku sjóferðina sem varð svo til þess að strákurinn stakk af og gekk í kaupstaðinn.

Einn morgun þegar áhöfnin býr sig til veiða verður fólkið vart við skip í stærra lagi, augljóslega erlent, brotna í klettum handan víkurinnar. Það er þröngt í búi og af ótta við hið óþekkta verður úr að þau róa ekki áhöfninni til bjargar.
Í síðstu viku sá ég einleik Kómedíuleikhússins Ariasman sem er byggður á bók míns fyrrum smíðakennara Tapios Koivukaris. Frásögnin sækir heimildir í skrif Jóns lærða um aðdraganda og eftirmál Spánverjavíganna vestra á 17. öld. Hið óþekkta og hræðslan við það, heimóttaskapur og sjáfsagt eigin hagsmunir réðu því að á fjórða tug Baska voru leitaðir uppi og drepnir að undirlægi sýslumannsins í Ögri, Ara.
Þegar ég sat í salnum í leikhúsinu varð mér hugsað til hinna fordæmdu í mynd Þórðar Pálsonar. Hið eilífa myrkur, samskiptaleysi, fyrri plágur og meintir eigin hagsmunir verða til þess að upp byggist múgæsingur, ofsjónir og óskiljanleg trú á eitthvað sem í raun alls ekki er.
The Damned er mjög fallega gerð mynd, leikmyndin snotur og kvikmyndatakan glæsileg. Allir leikararnir eru erlendir og tala ensku en nöfn persónanna eru íslensk. Einhver andlit leikaranna þekkjum við. Ekki síst Siobhan Finneran sem leikur ráðskonuna Helgu en margir muna eftir henni úr þýðingarmiklu hutverki í Downton Abbey. Við munum líka eftir Joe Cole því hann lék einn „sykursæta“ Shelby-bróðurinn í Peaky Blinders sem við höfum skrifað um. Það var mál manna í Ísafjarðarbíói að umhverfi vestfirku fjallanna og verbúðin sköpuðu trúverðuga og vel heppnaða umgjörð um þessa litlu draugasögu með góða endinn. Við mælum með bíóferð (eftir myrkur).
Með sólskins kveðjum,
Edda og Greipur
Við nefndum að sýning Hildigunnar Birgisdóttur opnaði um helgina í Listasafni Íslands. Hún var gestir Sigurlaugar í Segðu mér í gær.
https://open.spotify.com/episode/2kosAa65legXbkz6eAW4mI?si=3a42c606e75944de