Sunnudagurinn 6. mars
Þau eru þung skref fólksins í Úkraínu á göngu inn í nýjan mánuð og nauðsynlegt að við sem léttar fetum um fífusund gerum hvað við getum til að létta á byrðunum. Við mælum með heimsókn á myndlistarsýningu og hugleiðum frið, ljósmyndasýningu og veltum vöngum yfir hringrásinni og lyftum anda okkar og hækkum eilítið tíðnina í heiminum með ferð á hressandi tónleika. Í eftirskrift er vakin athygli á nýjum dagsetningum tónleikaraðar sem við mæltum með, tilnefndum myndlistarsýningum sem okkur líkaði og áminning um rauðan kross.
Við minnum á að áskrifendur geta alltaf skoðað eldri skrif okkar á vef fréttabréfsins.
Gaman að sjá viðtökurnar á glóðvolgum Instagram-reikningi okkar. Fyrir þá sem misstu af er hér létt áminning.
Með sunnudagskaffinu í dag
- Instagram
I. Friður, Hildigunnur Birgisdóttir í i8 gallery
- Lagalisti Eddu og Greips:
II. Straumnes, ljósmyndasýning Marinós Thorlacius í Þjóðminjasafninu
III. Moses Hightower á tónleikum
- Eftirskrift: Sif Tulinius í Landakoti, Íslensku myndlistarverðlaunin og viðtal við Hildi Þórisdóttur, starfsmann Rauða krossins.
I. Friður
Peace, einkasýning Hildigunnar Birgisdóttur, i8 gallery, Tryggvagötu 16. Sýningin er opin til 26. mars.
„Hildigunnur er dulspekingur hvunndagsins“ skrifar Ragnar Kjartansson í texta í fallegri bók sem kemur út í tilefni af sýningu hennar í i8 gallery og varpar ljósi á starfsferil Hildigunnar undanfarin 10 ár og ekki síst hvernig listræn sýn hennar og verk hafa þróast og þroskast á þessum tíma.
Ég tek undir þessi orð Ragnars og bæti við að hún er líka ein af þeim sem er kennari af guðs náð og ég veit að hún elskar mest af öllu að kenna krökkum. Hún hlustar á þau með öllum skilningarvitunum og skoðar þannig heiminn með þeirra. Það er líkt og athyglisgáfa hennar sé stillt á aðra tíðni, til þjónustu við okkur hin.
Á tímabili var hún mjög upptekin af ofgnóttinni í heiminum og því að viðbót við hana væri óásættanleg nema hún bætti heiminn ótvírætt að einhverju leyti. Standandi frammi fyrir að gera sýningu í Kling&Bang, meðan það var enn á Hverfisgötunni, gat hún ekki hugsað sér að gera neitt inngrip, bæta neinu við, helst ekki opna dyr til að slíta ekki hurðinni og ekki gera sýningu yfir höfuð. Þetta var áskorun og sennilega mjög mótandi tímabil fyrir listsköpun hennar.
Í ofur neysluheiminum sem við búum í er óramargt sem neyslunni fylgir, hlutir sem við tökum varla einu sinni eftir en Hildigunnur fór að veita sérstaka athygli. Umbúðir, smávara til að dytta að, krókar sem vörur hanga á í verslunum, litlir plasthlutir á brauðpokum, blikkandi skilti og merkingar sem eru tilbúnar til kaups. Hildigunnur rekur ásamt nokkrum kollegum vinnustofu og sýningarrými úti á Granda sem þau skýrðu Open einmitt því þau gátu keypt tilbúið skilti sem blikkaði Open. Open sem er reyndar takmarkað opið í ljósi margbreytilegs hlutverksins, en þó vel auglýst þegar það er opið, er án alls efa eitt af framsæknustu listamannareknu rýmum landsins.
Undirliggjandi þráður í verkum Hildigunnar er að hluta til pælingar um kerfi og flokkun og ýmislegt sem verður óvart til eins og myndir teknar út í loftið. Sýningin í Kling&Bang raungerðist á endanum og málið leysti hún svo og segir frá í bókinni:
...ég keypti bara svoleiðis hluti og sýndi þá í umbúðunum... t.d. naglapoka þar sem ég stakk einum nagla hálfum í gegnum plastpokann sem þeir eru seldir í og stakk honum í gat sem fyrir var á veggnum og þá hékk pokinn og sýndi sig, alveg sjálfur!
Á sýningu í nýju safni í Moskvu, GES-2 House of Culture sem opnaði í október 2021 sýndi Hildigunnur nýtt verk, GDP eða Verg landsframleiðsla. Við mæltum jafnvel með ferð til Moskvu en ljóst má vera að það er ekki ráðlagt lengur. Þar steypti hún innkaupakerru og ýmsa aðra hversdagslega hluti inn í veggi hins nýja safns, svo þeir stóðu að hluta til út úr þeim. Enter takki af lyklaborði reyndist þó svo kirfilega steyptur inn í einn vegginn að hann fannst aldrei og fær því að eiga sitt framhaldslíf í felum í Rússlandi.
Á sýningunni Friður er Hildigunnur búin að útbúa risastóra Enter takka, rétt eins og af lyklaborði mjög stórs risa. Í ljósi miskunnlausrar innrásar Rússa í Úkraínu fór hugur minn fljótt í kjarnavopnin í vopnabúri Rússa og æskuótta minnar kynslóðar við atómsprengjur. Alltaf sá maður fyrir sér einhvern vondan kall sem þurfti ekki annað en að ýta á einn takka til að valda skelfilegri eyðileggingu og manntjóni.
Í mínum huga takast þarna á stríð og friður. Spreybrúsi með fatalit og umbúðum sem sýna dæmi um að nota megi litinn til að spreyja peace-merki á stuttermabol. Stífpressaður tuttermabolur með áþekku peacemerki og verbúðarblágrænum bakgrunni er við annan vegg. Hildigunnur ýtti á takkann á spreybrúsanum og týndi Entertakkinn í Rússlandi og trölla-Entertakkarnir í Reykjavík verða í mínum huga allir að einhverju hápólitísku. Mig grunar þó um að áhugi Hildigunnar hafi upprunalega sprottið úr hversdagslegri notkun okkar á lyklaborðum og ekki tengst stríði neitt. Ætli hún hafi verið að hugsa um takkana sem hluti sem við tökum sem sjálfsögðum eða hvað við gerum við þá. Hvað við skrifum og hvaða takka við ýtum á.
Kannski eru þeir ekki fyrir tröll eða útblásin egó. Kannski eru þeir stórir svo margir geti samtímis ýtt á þá. Í nafni lýðræðis og frelsis. Væmin pæling en ég ræð ekki við hana. Þeir eru að minnsta kosti hér og hvergi nálægt einræðisherranum sem fer um sem óður maður þessa dagana og ýtir rússneskum unglingsdrengjum og blásaklausum borgurum inn í ótta, óvissu og dauða þegar verst lætur.
Ekki missa af þessari sýningu. Hún er bæði sérlega bragðgóð fyrir augað og djúpnærandi fyrir andann. Bakatil má sjá fjölfeldi sem Hildigunnur gerði fyrir sýninguna, derhúfu með ísaumuðum texta; I reflected on capitalism and all I got was this lousy T-shirt. Hér er af nægu að taka.
Lagalisti Eddu og Greips
Líkt og endranær kennir ýmissa grasa á lagalistanum okkar. Björk syngur ljóð um heimahaga Jakobínu Sigurðardóttur á Hornströndum, hafnfirsk börn syngja úkraínskan sálm, Moses Hightower flytja eigin lög og annarra. Við höldum áfram að halda listanum líka úti á Tidal-tónlistarveitunni samhliða þeim á Spotify.
II. Minjar um stríð
Straumnes, ljósmyndasýning Marinós Thorlacius í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu. Sýningin stendur til 1. maí.
Þegar ég gekk fyrst á Straumnesfjall sem rís tignarlega úr hafi norðan Aðalvíkur í Hornstrandafriðlandi var dumbungur í Látravík en þar höfðum við ferðafélagar reist tjaldbúð og þaðan lögðum við upp. Það var líka dimmt yfir þegar Marinó Thorlacius ljósmyndari var á Straumnesi í einhverri ferða sinna en hann sýnir ævintýralegar ljósmyndir frá Straumnesfjalli á Hornströndum í myndasal Þjóðminjasafnsins um þessar mundir.
Gangan upp er ekki erfið. Þangað liggur nokkuð greinilegur vegur og fjallið ekki nema um 400 m hátt. Það er annars ekki mikið um vegi á þessum slóðum en sé þá að finna liggja þeir einna helst til og frá Látrum.
Vegurinn upp á fjallið og fram á brún þess var lagður af bandaríska hernum en árið 1958 var þar reist ratsjárstöð til að fylgjast með ferðum rússneska hersins á norðurslóðum. Nokkrum árum áður hafði föst byggð á Látrum í Aðalvík lagst af. Því má segja að sú innviðauppbygging sem herinn stóð fyrir hafi ekki nýst neinum nema honum sjálfum. Fyrr á öldinni bjuggu yfir 120 manns í verslunarstaðnum.
Keep reading with a 7-day free trial
Subscribe to Edda og Greipur mæla með to keep reading this post and get 7 days of free access to the full post archives.