Annar í hvítasunnu, mánudagurinn 20. maí
Þegar næsta fréttabréf berst ykkur vitum við hver verður næsti forseti lýðveldisins Íslands, sá sjöundi í röðinni. Hér verður engu spáð um það en molarnir hafa yfir sér forsetalegan blæ; við hlustum eftir röddum annarra, lítum til tónlistarhátíðar úti á landi og íslenskrar listar utan landsteinanna auk þess sem við mælum með ferð á sýningu sem ætti að vera skylduheimsókn þess er tekur við embættinu. Bókverkamarkaður í Reykjavík dúkkar einnig upp í Hafnarhúsi og fréttabréfið inniheldur þar með tvo viðburði sem undirrituð standa fyrir.
Með síðdegiskaffinu í dag 🇮🇸
I. Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði,
- Lagalisti: Midnightsun Hunting,
II. Bókverkamarkaður í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur,
III. Ljáðu mér vængi, Vigdísarsýning í Loftskeytastöðinni,
IV. Íslenski skálinn á Feneyjatvíæringnum.
I. Uppskrift að töfrastundum
Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði 17.–22. júní. Löng helgi 20.–23. júní.
Það er erfitt að skipuleggja töfrastundir, það er að segja, það er erfitt að vita námkvæmlega hvort stundin verði að töfrastund. En hitt er að það eru meiri líkur á að það gerist sé maður undirbúinn. Við ætlum því að hjálpa ykkur með að leggja á ráðin um eina, eða jafnvel nokkrar slíkar í júní og stingum upp á langri helgi við Djúp um sumarsólstöður.
Tónlistarhátíðin Við Djúpið hefst á Ísafirði þann 17. júní, þegar lýðveldið fagnar 80 ára afmæli. Hátíðin er tileinkuð kammertónlist en á fjölmörgum tónleikum hennar hljómar afar fjölbreytt tónlist fyrir kammerhópa af ýmsum stærðum og gerðum; gömul og ný, frá nýja heiminum og þeim gamla. Í hádegi og á kvöldin troða listamenn hátíðarinnar upp með nýja efnisskrá dag eftir dag.
Það er kannski ekki hlaupið að því að dvelja á tónlistarhátíðinni á Ísafirði fjóra virka daga og helgi og því langar okkur að stinga uppá langri helgi vestra. Sólstöður á sumri eru fimmtudaginn 20. júní. Má segja að dagskrá hátíðarinnar sé þá að ná hámarki og því mælum við með gestir drífi sig vestur þann daginn. Þá um kvöldið leikur þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus nýlega útsetningu á Vetrarferð Franz Schuberts fyrir hljómsveit og sópran. Það er Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir sem syngur einsöngshlutverkið. Eins og margir vita er Vetrarferðin söngvasveigur saminn fyrir tenór og píanó við verk Wilhelms Müllers. Nýlega kom út hljómplata með flutningi sveitarinnar á útsetningunni, reyndar með messósópran en fyrir tónleikana vestra hefur tónsviðinu verið breytt svo hún henti Herdísi.
Til að skapa rétta stemmingu fyrir vetrarferð á hásumri frumflytur Sæunn Þorsteinsdóttir nýtt verk Veronique Vöku, Neige éternelle (ísl. Eilífur snjór) á hádegistónleikum sama dag.
Föstudagurinn er svo tileinkaður nýrri tónlist en þar fer mikið fyrir ísfirska tónskáldinu Halldóri Smárasyni. Um kvöldið leikur Cauda Collective þrjú ný strengjatríó og tvo nýlega kvartetta eftir meðlimi Errata tónskáldahópsins en Halldór er einn þeirra. Fyrr sama dag bjóða tvífararnir og vinir Halldór og ameríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone upp á hádegistónleika með sönglögum og fleiru þar sem þeir para saman tónsmíðar sínar. Þar sem hádegistónleikarnir duga sennilega ekki til verður framhald síðkvölds í brugghúsinu Dokkunni.
Til að hnýta saman tónleikadagskrána býður hátíðin upp á sérútbúinn helgarpakka fyrir gesti. Í honum eru ekki einungis tónleikamiðar. Og þó tónleikarnir séu í raun hver uppskriftin að töfrastundum á eftir annarri má leiða að því líkum að töfrarnir fyrst mæti í hliðardagskránni. Í boði er að slást í för með tónlistarfólkinu í leit að hinni eilífu miðnætursól, nóttina sem líkegt er að finna hana. Stemmingstöframenn kokka upp einstakt sólstöðu matarboð fyrir kaupendur helgarpakkans þar sem sjávarfang er borið á borð beint af grillinu undir líflegri tónlist. Þá er hægt að taka daginn snemma og hlaupa með hljóðfæraleikurunum eða draga andann djúpt í hátíðarjóga í gamla íþróttahúsinu við Austurvöll. Sannarlega endurnærandi pakki fyrir líkama og sál.

Lokadagur hátíðarinnar, laugardagurinn 22. júní er þéttskipaður. Pakkaferðmenn hefja leika á prívat-heimókn á Listasafn Ísafjarðar þar sem sýningin Framtíðarfortíð er skoðuð undir lifandi tónlist áður en safnið opnar almennum gestum. Á glæsilegum lokatónleikum hljóma þekkt verk fyrir kammersveit sem og ný og óþekkt. Og í kjölfarið er komið að því: Að halda út á sjálft Djúpið í sprúðlandi lokapartý hátíðarinnar í Vigur, perlunni í Djúpinu.
Hægt er að fljúga með auðveldum hætti úr Vatnsmýrinni eða keyra góða vegi vestur. Við mælum að sjálfsögðu með Vestfjarðahring, bruna Djúpið á leiðinni til Ísafjarðar og fá þannig rétta andann beint í æð en taka svo rólegheita sunnudagsbíltúr um Barðastrandasýslur á leið til baka. Hér fyrir neðan er lagalisti, sérútbúinn fyrir tilfellið. Bæði flug og bílferð hæfa forseta sem og hátíðin sjálf.
Lagalisti Eddu og Greips ☀️
Enn bjóðum við upp á lagalista úr smiðju tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Þessi er gerður af bandaríska tónskáldinu og Ísafjarðarvininum Ellis Ludwig-Leone og hann sagði: „Settu listann á í Súðavík og keyrðu sem leið liggur í rólegheitum alla leið upp á Bolafjall, útvörð Djúpsins, til móts við miðnætursólina.“
II. Bókverkamarkaðurinn í Reykjavík
Bókverkamarkaðurinn í Reykjavík, Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús. 23.-26. maí
Bókverkamarkaðurinn í Reykjavík opnar aftur dyr sínar næstkomandi fimmtudag í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur. Ykkar einlæg er einn af aðstandendum og tekur glöð á móti gestum frá fimmtudegi til sunnudags.
Þátttakendur koma víðsvegar að, austan hafs og vestan, að norðan og sunnan og munu allir koma með full koffort af bókverkum til að sýna og selja milliliðalaust. Bókverkamarkaðurinn (Art Book Fair) er alþekkt form og á sér fyrirmynd víðs vegar um heim þar sem ægir gjarnan saman sjálfstætt starfandi listamönnum og listamannareknum rýmum, galleríum, söfnum og óhefðbundnum bókaforlögum, aðgerðarsinnum, ljóðskáldum, listnemum, bóhemum og menningarvitum sem kynna bókverk, ritlinga (zine), hönnunargripi, listtímarit, fjölfeldi, hlutfeldi, sýningaskrár, catalogue raisonné, ljóðabækur og fleira áhugavert.
Á opnunarkvöldinu (17–22) munu ævintýrahugarnir í Grugg & Makk skjóta upp bar og þátttakendur sem koma bæði víðs vegar að af landinu og sumir erlendis frá taka vel á móti gestum og leiða inn í víðfeðman heim bókverka. Á sunnudag mun Blómstra skjóta rótum í portinu og gestir geta gripið með sér blóm sér til ánægju og yndisauka til viðbótar við eintök úr töfrandi heimi bókverkanna og ljúfan kaffibolla og meððí frá Á Bístró í Elliðaárdalnum sem standa vaktina frá föstudegi til sunnudags.
Opnunartímar eru:
Fimmtudagur kl. 17–22,
föstudagur–sunnudagur kl. 12–17. Frítt inn.
Fjórar sýningar opna samhliða markaðnum þar sem bókverk eftir fjölmarga forvitnilega og frábæra listamenn verða sýnd og eins liggur svo vel við að einkasýning Margrétar H. Blöndal opnar í i8 Gallery hinum megin við götuna á fimmtudeginum svo fislétt er að slá tvær flugur í einu höggi þann daginn. Gestir eru annars velkomnir og hvattir til að koma oftar en einu sinni, grúska, njóta, versla jólagjafir eða bara hangsa og spjalla yfir kaffibolla.
Sýningarstaðir og opnanir:
Nýlistasafnið, miðvikudag kl. 17–19. Marshallhúsið, Grandagarður 20.
Y Gallery, föstudag kl. 18–20. Hamraborg 12.
Heimagalleríið 1.h.v., laugardag kl. 18–20. Langahlíð 19, 1.h.v.
Associate Gallery, sunnudag kl. 18–20. Köllunarklettsvegur 4
III. Skeytin inn
Ljáðu mér vængi, sýning um ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur. Gamla loftskeytastöðin, Brynjólfsgötu 5. Opin miðvikudaga til laugardaga.
Fyrir nokkru opnaði í gömlu loftskeytastöðinni við Suðurgötu (Brynjólfsgötu) sýning um ævi og störf Vigdísar Finnbogadóttur, fjórða forseta lýðveldisins. Það fer vel á því að þetta gamla fallega og virðulega hús á háskólasvæðinu fái viðeigandi hlutverk, steinsnar frá Veröld, húsi Vigdísar og auðvitað Aragötunni þar sem forsetinn hefur búið um áratuga skeið.
Það þarf ekki að fjölyrða um afleifð Vigdísar hér og nú, hún er dáðasti Íslendingurinn og forsetaframbjóðendur keppast við að mæra hana í ræðu og riti um þessar mundir. Vigdís hafði sannarlega mikil áhrif og sjálfsagt meiri og víðar en fólk gerir sér grein fyrir, dró fram í dagsljósið mikilvægi lítilla tungumála heimsbyggðarinnar, barnamenningu, ræktun íslenskrar tungu og þess að yrkja jörðina svo fátt eitt sé nefnt. Allir forsetar þurfa að þekkja til hennar starfa og sögu ætli þeir að sitja á Bessastöðum og gjarnan hafa eitthvað erindi.

Við ákváðum, í nafni lýðræðis, að heyra í nokkrum sýningargestum til að fá fleiri sýnishorn og þannig dýpka skilning okkar á viðfangsefninu.
„Fannst gaman að skoða persónulega muni í skúffunum og kjóla en hefði viljað sja meira af stærri munum. Hentaði vel grúskara týpum en ég vil alltaf fá sterkari heildarmynd.“
„Fannst mjög gaman að fara á sýninguna, gátum lesið allt og hlustað í algjörum rólegheitum en hefði verið gaman að sjá meira af munum“
„Flott sýning, svolítið mikið af texta í hlutfalli við muni.“
Það eru Háskóli Íslands í samstarfi við Vigdísarstofnun – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar sem standa að sýningunni en munirnir eru að stórum hluta í eigu Háskólans. Það á eftir að koma í ljós hvernig háskólanum farnast að standa að sýningahaldi sem þessu sem er jú þolinmæðisverk – jafnvel langhlaup. Enn sem komið er reynist eilítið erfitt að afla upplýsinga um sýninguna, hana er ekki að finna á stafrænum kortum og opnunartíminn blasir hvergi við. Þetta eru allt smáatriði sem má laga og mælum með ferð í loftskeytastöðina.
IV. That's a Very Large Number – A Com-Merz-Bau
Hildigunnur Birgisdóttir í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum, That's a Very Large Number – A Com-Merz-Bau. Sýningin er opin til 24. nóvember.
That's a Very Large Number – A Com-Merz-Bau er mögulega sýning fyrir lengra komna eins og mamma myndi orða það, en óttist eigi! Við höfum gott af því að skoða það sem við fyrstu sýn virðist óskiljanlegt, við þurfum mögulega akkúrat það til að taka næstu skref í samtímanum og til að víkka okkar eigin sjóndeildarhring. Sýningin er eftir Hildigunni Birgisdóttur sem er fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum að þessu sinni.
Hildigunnur rifjar upp upplifun sína frá því hún var barn og fékk Barbie-dúkku í afmælisgjöf. Hvernig í ósköpunum það mætti vera að hún hefði fengið hana og í þessum fínu umbúðum sem ætlað var að fara beint í ruslið, og hvernig það væri með allar stelpur í heiminum og framleiðslu á Barbie-dúkkunum fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Lítil stúlka, sjö eða átta ára, velti þarna fyrir sér tilurð dúkkunnar og horfði þá þegar djúpt inn í myrkur kapítalískra afla neyslusamfélagsins. Undrun, gleði og kvíði í bland. Leikur, dót og umbúðir hafa æ síðan fylgt Hildigunni og birtast gjarnan í verkum hennar sem einhvers konar spegill á samtímann og mannsandann.

Bandaríski sýningarstjórinn Dan Byers og Hildigunnur voru pöruð saman í upphafi vinnuferlisins, þekktust ekki áður, en smullu saman eins og pússl og áttu ríkulegt samtal um tilurð, þróun og gerð verkanna og sýningarinnar. Ég viðurkenni að gaman hefði verið að vera fluga á vegg í einhverjum þeirra.
Louisiana-safnið í Danmörku heldur úti reglulega fínni videórás þar sem listamenn eru teknir tali og fyrir réttu ári síðan fékk Hildigunnur þáttagerðarmann þeirra í vinnustofuheimsókn og úr varð aðgengilegt og fræðandi viðtal sem við mælum með að horfa á.
Við leitum ekki langt yfir skammt og fáum að vísa í skrif Ingibjargar Sigurjónsdóttur myndlistarmanns sem skrifaði á samfélagsmiðla um upplifun sína af sýningunni og um Hildigunni:
Hún er ekki bara einhver fremsti listamaður sem starfar á Íslandi í dag, hún er einhver fremsti listamaður sem starfar, hugsar og er í heiminum okkar… Hún hefur víðasta sjónarhornið á stóru myndina í neyslusamfélagi mannaldar / óaldar okkar og um leið það hárnákvæmasta á minnstu smáatriðum þess. Parað með hnífskarpri greiningu, ólgandi mannkærleik og ólympískri loftfimi í meðferð miðla, efnistaka og samhengis myndlistar og listheimsins verður úr dálítið einstakt.
Við tökum hér undir hvert orð. Það sem þarf oft til þegar staðið er frammi fyrir sýningum eins og þessari, þó hún sé sannarlega einstök, er að gefa sér eilítinn tíma til að melta, nýta öll skilningarvitin og gangast við því að ekki þarf að skilja allt með bókvitinu.
Blaðamaður nýsjálenska myndlistarmiðilsins Ocula kemst svo að orði í inngangi sínum að viðtali við Hildigunni sem vert er að glugga í og varpar ljósi á sitthvað í verkum hennar:
Being shocked by the expected is an apt description of Birgisdóttir's practice, which marvels at the improbability of ostensibly mundane materials and processes. She changes the scale or context of mass-produced items to help us see them with fresh eyes. In Venice, for instance, a plastic toy lettuce is sized up and embedded in the wall.
Bakspjald af trúðamálningu, rifa úr Kleenex-pakka, auglýsingaskilti á Suðurlandsbrautinni, fyrrnefnt dótasalat og hin fullkomna ófullkomna dótapizza eru meðal þess sem verður efniviður í verkum Hildigunnar. Á sýningunni tvinnast saman stef úr fyrri verkum hennar en hún tekur á sama tíma stórt skref í að þenja þau enn meira út, jafnvel svo langt að bókstaflega allt sem tilheyrir sýningunni eða gerði hana mögulega með einhverju móti, verður hluti af verkunum á henni.

Meira að segja veggirnir í sýningarrýminu verða hluti af verkunum, forritin sem hún notaði við gerð þeirra, fyrirtækin sem hún verslaði við, kaffið sem hún drakk í ferlinu, ísskápurinn sem hún geymdi matinn í og prentarinn sem þjónaði vafalaust mikilvægu hlutverki. Hér er sum sé sérlega og einstaklega heilsteypt sýning á ferð, gott sem í bókstaflegri merkingu.
Við höfum áður fjallað um verk Hildigunnar á síðum fréttabréfsins, síðast sýninguna Frið sem hún opnaði í i8 Gallery fyrir tveimur árum síðan.
I often use some sort of obstruction—I change the scale, I hide a part of the work, or I put it in a completely different context—so that you can actually see it. Rather than your cognitive mind going, oh, that's a chair, I've hidden it where you need to travel to all the stations in your brain to meet this chair for the first time.
Það er nefnilega þannig með verk Hildigunnar að þau fá mann alltaf til að sjá eitthvað nýtt, til að skoða heiminn með nýrri linsu og til að endurskoða eigin þankagang og athafnir. Um leið og við hvetjum lesendur, og nýjan forseta, eindregið til að gera sér ferð til Feneyja, því þar er margt að sjá bæði á Tvíæringnum og þeim glæsilegu söfnum sem þar eru, ljúkum við skrifum dagsins á orðum listamannsins úr fyrrnefndu viðtali og hlökkum til frekari fréttaflutnings úr iðrunum:
It's like I have understood that I am deep in the midst of consumerism and I'm reporting from the belly of the whale.
Með þjóðhöfðingjakveðju,
Edda og Greipur