Sunnudagurinn 3. október
Haustlitirnir verða æ meira áberandi með hverjum deginum sem líður. Spássitúr eða hjólaferð um borgina er því feguri en oft áður. Eftir mikla menningarhelgi mælum við með tvöfaldri ferð í Borgarleikhúsið og viðkomu á sýningu á æðislegum verkum eins af okkar fremstu listamanna fyrri tíma.
Með sunnudagskaffinu 🫐
I. Muggur í Listasafni Íslands,
- Við erum að hlusta,
II. Rómeó og Júlía Íslenska dansflokksins,
III. Þétting hryggðar í Borgarleikhúsinu.
Eftirskrift: Fallbeygingar og sellókonsert.
I. Muggur
Muggur, Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg. Stendur fram í febrúar á næsta ári.
Í gær opnaði glæsileg yfirlitssýning á verkum Guðmundar Thorsteinssons, Muggs, í Listasafni Íslands. Þar gefur að líta margar myndir eftir þennan fjölhæfa listamann sem fæddist á Bíldudal og dó allt of ungur eftir þó merkilega viðburðaríka ævi. Við mælum með heimsókn á Fríkirkjuveginn.
Það má segja að líðandi helgi sé einhverskonar Muggshátíð. Það væri reyndar vel til fundið en tilviljun virðist ráða því að á föstudag var opnuð á Bíldudal Muggsstofa, samfélagsmiðstöð sem ber nafn óskabarnsins og um það leyti sem ykkur berst þetta bréf stendur yfir sýning á hinni 100 ára gömlu íslensku kvikmynd (þeirri fyrstu) Sögu Borgarættarinnar á RIFF en í henni fer Muggur með aðalhltuverkið.
Það er einmitt brot úr þessari kvikmynd sem er stillt upp framarlega í sýningarsalnum og veitir einstakt tækifæri á að bera Mugg augum og kynnast persónunni eilítið. Á óvart kemur þegar gengið er inn í A-sal Listasafns Íslands magnið af verkum sem Muggur skildi eftir sig. Hann lifði ekki lengi, varð 33 ára og starfsferillinn eftir að námi lauk ekki nema 10 ár.
Sem listamaður hafði Muggur ákveðna sérstöðu fyrir margar sakir. Hann vann verk sín í margs konar miðla, ólíkt mörgum samtíðarmönnum og -konum sínum sem sérhæfðu sig gjarnan í til dæmis málverki eða skúlptúr. Myndheimurinn var ævintýralegur eins og við þekkjum vel úr sögunni um Búkollu, Dimmalimm, úr aldingarðinum í Eden og á spilunum sem við þekkjum sennilega mörg hver og höfum ósjaldan tekið í og spilað Kana við ömmu og afa með. Svo ekki sé minnst á klippimyndina Sjöundi dagur í Paradís sem til var eftirprent af á fjölmörgum heimilum. Augnablikið sem maður horfir á frumgerð fyrsta sinni er magnað og við nutum þess sannarlega. Önnur verk birta hversdagsleika og mannlíf, ferðalög og náttúru. Ákveðin rómantík svífur yfir vötnum.

Muggur hefur sennilega verið mörgum listamönnum innblástur og í nýlegu skemmtilegu viðtali segir Ragnar Kjartansson frá honum og áhrifum á sig sem ungling.
Athygli okkar vakti að stór hluti þeirra verka sem Listasafn Íslands á eftir Mugg eru gjöf frá Elofi nokkrum Risebye, eða 46 alls. Hann var danskur listmálari og prófessor og svo gott sem jafnaldri Muggs, árinu yngri. Elof þessi hefur eignast töluvert safn verka Muggs í Danmörku. Þetta var þó ekki fyrsta gjöf Elofs til okkar á Íslandi. Muggur lést ungur úr berklum og hvílir í Hólavallagarði. Leiðið var víst ómerkt um hríð en svo barst frá Danmörku veglegur böggull. Í honum legsteinn á leiði hins unga málara. Steininn prýðir mósaíkmynd gerð eftir einu verka Muggs. Gefandinn einmitt Elof þessi sem hafði sjálfur gert mósaíkmyndina (prófessor í mósaík og freskum) og sent til vinar síns við Suðurgötu.
Haustlitaferð í Hólavallagarð er góð hugmynd og þá er heimsókn til Muggs skylda. Legsteinninn enda einn sá fallegasti í garðinum. Þar er líka margt annað að skoða. Hér er tækifæri til að rifja upp skrif okkar um Bertel Torvaldsen en lágmyndir hans, Nótt og Dag er að finna á mörgum minningarmerkjum í garðinum og auðvitað í görðum um allt land. (Talandi um Bertel Thorvaldsen, Elof var líka í stjórn Thorvaldsenssafnins í Kaupmannahöfn um hríð en það er allt önnur saga.) Við bendum líka á bréfaskrif frá í sumar um útvarpsþættina Fólkið í garðinum sem enn er hægt að hlusta á.
Sýningunni er fylgt eftir með veglegri bókarútgáfu. Okkur hefur ekki gefist nægilegt ráðrúm til að fletta henni en hlökkum til að gera það, en við fyrstu sýn er hún bæði áferðarfalleg og innihaldsrík, sérlega eiguleg og ef til vill staðalbúnaður á sérhvert heimili. Sömuleiðis hefur safnbúð Listasafnsins gefið út nokkra minjagripi í tilefni sýningarinnar. Flesta þeirra er hægt að kaupa í gegnum ágæta vefverslun.
Við erum að hlusta 🪕
Lagalistinn er ber glögg merki haustsins að þessu sinni. Við sögu koma Ásta Sigurðar, Björk, Dimmalimm, Vilborg Dagbjartsdóttir, Júlía og hennar Rómeó, hin sænska Gabriella og finnska Tove.
II. Andinn í efninu
Rómeó og Júlía, Íslenski dansflokkurinn í Borgarleikhúsinu. Sýningar til 30. október.
Það er töluvert framboð af bæði Rómeó og Júlíu í Reykjavík þetta haustið. Við sáum Rómeó og Júlíu í túlkun Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu og mælum með að lesendur okkar geri slíkt hið sama.
Erna Ómarsdóttir, listdansstjóri ríkisins, og Halla Ólafsdóttir, danshöfundur, létu hafa það eftir sér á dögunum að þær hafi lengi langað að vinna saman. Rómeó og Júlía er afrakstur þess og segja má að andinn sé sannarlega í efninu í sýningunni.
Sýningin er kraftmikil, full af átökum, ástríðu og auðmýkt, hlátri og gráti. Verkið enda hádramatískt eins og við þekkjum vel en okkur þótti sérlega vel með það farið, til dæmis í gullfallegum bardaga- og ástarsenum. Eftir standa óskaplega fallegar myndir í huganum sem dansararnir sköpuðu með ómissandi aðstoð flottra búninga og sviðsmyndar sem renna ljúflega saman í töfrandi heild.
Dansverkið var fyrst sett á svið í Munchen fyrir nokkru og hefur beðið þess að vera sett upp á Íslandi um hríð. Í Munchen lék stór hljómsveit ballettónlist Sergejs Prokovíefs undir verkinu en hér á landi hljómar upptaka en verkið er samið við tilkomumikla tónsmíð Prokofíevs. Maður leyfði sér að dreyma um lifandi tónlistarflutning í stað ágæts hljóðkerfis leikhússins en saknaði þess að hvergi kom fram hvaða hljómsveit átti upptökuna.
Við látum ekki hjá líða að minna á að í Regnbogakorti Eddu og Greips sem við sendum ykkur fyrir réttum tveimur vikum mæltum við með AION, samstarfsverkefni dansflokksins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þar verður sko lifandi tónlist.
III. Piparduft og Prince polo
Þétting hryggðar, Borgarleikhúsinu. Síðasta auglýsta sýning 30. október.
Í Þéttingu hryggðar sem nú er sýnt á litla sviði Borgarleikhússins mætast fjórir ókunnugir í háhýsi í Borgartúninu, innilokuð langa stund vegna ofbeldishneigðs ógæfumanns sem heltekið hefur húsið.
Oft er gott að huga að bakgrunni fólks áður en dómur er felldur eins og einhver sagði einhvern tíman. Enn betra að leggja sig fram um að fella sem fæsta dóma eða draga fólk í dilka sem getur þó sannast sagt reynst áskorun. Aðstæður eru því allt annað en afslappaðar og hentugar til að hefja ný kynni.
Þessir fjórir einstaklingar á litla sviðinu komast þó ekki upp með annað, óviss um hvort þau komist klakklaust út úr aðstæðunum, ólík eins og þau eru og eiga fátt sameignileg við fyrstu sýn þó öll komi úr ofur-íslensku nútímasamfélagi. Þar liggur sennilega snertipunkturinn við áhorfendur. Það var töluvert hlegið og stemningin góð og ég gef mér að áhorfendur hafi allir á fleiri en einum tímapunkti tengt við einhverja persónuna lífstíl hennar, hugmyndir, fordóma, meðvirkni, eftirsjá eða framtíðarþrár um borgarlínu og betri heim.
Eins og svo oft í íslensku samfélagi er það þjóðaríþróttin Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem verður hinn eini sanni sameiningarkraftur og lagið margfræga um sæfarendurna sem er að sjálfsögðu á lagalistanum okkar að þessu sinni. Við mælum með hressandi ferð í leikhúsið á Þéttingu hryggðar eftir hinn fjölhæfa listamann Halldór Laxness Halldórsson, eða Dóra DNA. Leikstjóri er Una Þorleifsdóttir.
Hlýjar kveðjur,
Edda og Greipur
Eftirskrift:
- Til gamans og fróðleiks látum við hér fylgja skemmtilegt svar af Vísindavefnum um fallbeygingu erlendra nafna og íslenskra ættarnafna. Greinin.
- Talandi um regnbogakort Eddu og Greips: Á fimmtudag voru fyrstu tónleikarnir á kortinu á dagskrá. Danski sellóleikarinn sveik ekki og líkt og venjulega er hægt að heyra tónleika Sinfóníunnar eftirá í Spilara RÚV.