Sunnudagurinn 17. maí
Líkt og blöðin á reyninum er lífið að springa út á ný, eftir óvæntan en vafalaust þarfan dvala. Hugurinn leitar einmitt út í sumarið, í sund, í vestur, í bjartar sumarnæturnar og út á land. Eftir ótal stundir í eldhúsinu á undanförnum vikum erum við orðin svaka sleip í matarundirbúningnum og vílum ekki fyrir okkur að útbúa gómsæta bita í körfu og fara með vinum í nestisferð. Við þökkum fyrir fortíðina, njótum nútímans sem aldrei fyrr og eygjum framtíðina við mjúkan sjóndeildarhringinn. Hér koma meðmæli okkar með myndlistarsýningu, nestisferð og tónleikaferð vestur á firði.
Hvítasti guli og hvítasti blái
Á sama hátt og múskat er ómissandi í eldhúsinu er ómissandi að fylgjast með sýningunum í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Kryddinu sem getur fallið í skuggann af heildinni, en líka verið algerlega ómissandi og kristallað bragðsinfóníuna svo um munar eða verið akkúrat rétti undirtónninn sem í leyni lyftir öðrum brögðum upp. Allt frá 2007 hefur safnið boðið listamönnum snemma á ferlinum að halda þar sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. Það er mikilvægt tækifæri fyrir listamenn og ég óska þess að safnið viðhaldi þessari góðu hefð.
Rétt áður en brast á með lokunum vegna heimsfaraldurs í mars opnaði Andreas Brunner þar sýninguna Ekki brotlent enn. Titillinn öðlaðist kannski aðra merkingu en þá sem listamaðurinn ætlaði upphaflega í ljósi breyttra aðstæðna og verður áminning um að myndlist er ávallt í órjúfanlegu samtali við samhengi sitt, stað og stund. Nokkuð augljóst er að talsverð spenna er fólgin í titilinum eða kannski bara smá gáski og grín. Maður veit það ekki. Fjallar þetta um jörðina, að hún sé ekki brotlent? Eða að það séu hugmyndirnar eða við sjálf?
Aldin í hönd Persefónu sem nærðist á safa granatepla til að lifa af veturinn í Hadesarheimum. Mynd fengin að láni af vef Listasafns Reykjavíkur.
Spennan heldur áfram þegar inn á sýninguna er komið. Þar ríkir hins vegar yfirvegun. Spenna og yfirvegun. Hreyfing og yfirvegun. Umbreyting og yfirvegun. Hér eru á ferð vísanir í goðafræðina og heimilið. Nostalgía og naivismi eða erótík eftir því hvernig er horft. Hógvær og hugsandi engispretta leitar jafnvægis, eldflaug bráðnar til jarðar og jógaboltar, timbur og gifs þræða sig saman í eitthvað sem mér kom helst til hugar að væri hugmynd um farartæki, jafnvel lífsnauðsynlegt farartæki.
Burðarsúlan í rýminu er endurtekið máluð af tveimur svartklæddum einstaklingum, hversdagslegum í fasi, rétt eins og þeir væru heima hjá sér að mála. Hvítasti guli liturinn og hvítasti blái liturinn rúllaðir á súluna í samhæfðum hreyfingum, lag eftir lag eftir lag. Augað þarf að laga sig að umbreytingunni, svo fínleg er hún. Mér varð jafnvel hugsað til verka Yves Klein og heimildamyndar um verk hans sem ég horfði nýverið á og segir af sögu hans og hugmyndum á fallegan hátt og meðal annars af sýn hans á hið andlega og óefnislega.
Margt er ósagt í sýningunni, kannski flest og þar með látið áhorfandanum í té að upplifa, lesa í og túlka fyrir sig. Ég elska þannig verk og sýningar. Hvert og eitt verk stendur vel sjálfstætt, en saman mynda þau margslungna heild, svona eins og heim. Nóg er af kveikjum í sýningunni til að fóðra hugann en engin ákveðin svör, né heldur neinar spurningar. Einvörðungu efniviður til vangaveltna. Hrein næring.
Andreas Brunner er fæddur í Sviss, lærði þar og lauk MA prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands 2018. Hann býr og starfar í Reykjavík og Lucerne. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.
Ekki brotlent enn, Andreas Brunner
Hafnarhús Listasafns Reykjavíkur
Sýningin stendur til 7. júní 2020
Við erum að hlusta
Sinfónían er byrjuð að æfa á ný og spilar í beinni á RÚV á miðvikudag. Við erum að hita upp með Mozart-aríum sem Hallveig Rúnarsdóttir syngur á tónleikunum. Svavar Knútur hefur líka gefið út sönglög af dagkránni. Platan hans er frábær í bílinn í sumar. Og svo eru Bach og Britten á listanum.
Nestisferð á Arnarhól
Í desemberbyrjun mæltum við heilshugar með sýningu í Hafnarborg um störf Guðjóns Samúelssonar arkitekts og húsameistara. Þó svo að byggingar hans setji mikinn svip á borgina og reyndar víðar, voru auðvitað margar hugmyndir sem ekkert varð út. Háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholti er eitt dæmið og svipaðar hugmyndir á Eyrartúni á Ísafirði annað dæmi þar sem eitt húsa hans, Gamla sjúkrahúsið, stendur.
Reykjavík er í uppbyggingarfasa og víða blasir við ný borgarmynd. Sitt sýnist hverjum. Þannig hefur það líka oft verið. Okkur langar að mæla með nestisferð á Arnarhól til að hugleiða þessi mál. Er ekki tilvalið að pakka í poka einhverju af öllu þessu nýbakaða súdeigsbrauði sem fólk hefur bakað í samkomubanninu? Í pokann á líka að fara hin ágæta bók Reykjavík sem ekki varð eftir þau Önnu Dröfn Ágústsdóttur sagnfræðing og Guðna Valberg arkitekt.
Þjóðleikhúsið á vettvangi nestisferðarinnar. Mynd: Guðni Valberg.
Arnarhóll er kjörinn fyrir þennan leiðangur. Þaðan sést nefnilega yfir mikið uppbyggingarsvæði en þar hafa líka oft átt að rísa allskonar byggingar. Nokkurra er einmitt getið í bókinni. Mikill styr stóð um byggingu Seðlabanka á sínum tíma, staðsetning Þjóðleikhússins var ekki borðleggjandi og staðsetning Hörpu vakti miklar deilur en stendur nú sem áminning um upprisu og þrautseigju í kjölfar síðasta hruns. Með því að ljúka byggingu hússins tóku ráðamenn (-konur, menntamálaráðherra og borgarstjóri) stöðu með listum svo eftir var tekið og munað. Af Arnarhóli sést í staðfastan sellóleikara fyrir framan tónlistarhöllina. Höggmynd eftir Ólöfu Pálsdóttur af Erlingi Blöndal Bengtssyni.
Bach á sumarsólstöðum
Hvernig hljómar bíltúr í góðum félagsskap, hangs í grasi og gott nesti? Heill dagur og kvöld með passlega mikilli dagskrá milli hárra fjalla við fjörð í eilífðarsól?
Það kemur alltaf einhver fiðringur í mann þegar sólin hækkar á lofti. Á sumarsólstöðum þegar hún nær hæstu hæðum langar mann svo að njóta stundarinnar á einhvern sérstakan hátt –helst í hinu óendanlega sólarljósi í fjöru við eld eða á fjallstoppi. Meira að segja þegar skýjahulan birgir sólina er sólstöðudagurinn öðruvísi en aðrir dagar.
Á Ísafirði og í nærsveitum hefur um árabil, með hléum þó, verið efnt til tónlisarveislu af einhverju tagi í kringum sólstöðurnar og Jónsmessuna. Þessi hefð reis hæst á tímum tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Tíður gestur og velvildarkona þeirrar hátíðar var sellóleikarinn Sæunn Þorsteinsdóttir. Nú ber svo við að Sæunn stefnir á ný vestur á firði og blæs sjálf til mikillar tónlistarveislu einmitt þegar við fögnum sumarsólstöðu.
Sæunn hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra einleikara og kemur reglulega fram víða um heim. Hún er sjálf búsett í Bandaríkjunum og kennir meðal annars við Washington-háskólann í Seattle. Undafarin misseri hefur hún leikið reglulega með Sinfóníhljómsveit Íslands. Einhverjir muna sjálfsagt eftir því þegar hún spilaði lokakafla sellókonserts Daníels Bjarnasonar á Klassíkin okkar haustið 2018.
Hún hefur gefið út tvær einleiksplötur. Í fyrra kom út platan Vernacular sem hefur að geyma fjögur íslensk verk fyrir einleiksselló. Þrjú þeirra sérstaklega samin fyrir Sæunni. Áður hafði Sæunn tekið upp og gefið út sellósvíturnar þrjár eftir Benjamín Britten.
Nú mætir Sæunn með aðrar sellósvítur í farteskinu. Það eru ekki bara hvaða svítur sem er heldur þær sem einhverjir myndu kannski kalla svítur allra svíta. Sjálfar sellósvítur Johanns Sebastians Bach sem hann samdi fyrir réttum 300 árum. Um er að ræða sex verk (BWV 1007–1012) sem hvert um sig er saman sett úr 6 stuttum köflum. Allar byrja þær á prelódíu og svo fylgja fimm dansar.
Sæunn ætlar að leika allar svíturnar sex á sumarsólstöðum, 20. júní, í sex kirkjum – eina svítu í hverri kirkju, byrja kl. 1 eftir hádegi, telja aftur í kl. 3, svo kl. 5, þá kl. 7, kl. 9 og loks kl. 11. Þegar síðustu tónleikunum líkur laust fyrir miðnætti nálgast töfrastundin.
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem þessi verk hljóma undir hásumarsólinni vestra. Ísfirsk-danski sellóleikarinn Erling Blöndal Bengtsson var líkt og kollegi hans Sæunn nokkuð tíður gestur á heimaslóðum vestra á síðari hluta ævi sinnar. Á mjög eftirminnilegum tónleikum í Hömrum á Jónsmessu 2007 steig þessi 75 ára listamaður á svið og lék fyrstu svítuna blaðlaust fyrir tónleikagesti og á öldum ljósvakans. Áskrifendum okkar bjóðum við nú að heyra upptöku frá þessari mögnuðu stund en skömmu síðar veiktist Erling og okkur er ekki kunnugt um að hann hafi leikið aftur í útvarpi.
Við mælum með að fólk drífi sig vestur og fylgi Sæunni að hluta eða heild, leggist í grasið milli gamalla legstæða í sveitakirkjugarði, taki með sér nesti og hlaði batteríin í sumarsólinni.
Bach á sumarsólstöðum – sex svítur, sex kirkjur,
Dýrafirði, Önundarfirði og Súgandafirði.
20. júní 2020 frá kl. 13.
Með góðum óskum,
Edda og Greipur
Smá til viðbótar af miðlunum:
Skjáskot úr mynd Ósvaldar Knudsen, Hornstrandir, frá 1954. Heimild: Ísland á filmu.
Senn líður að draumatíma margra þegar hægt er að síga í björg og ná í svartfuglsegg. Kvikmyndasafn Íslands hefur nú, í samstarfi við dönsku kvikmyndamiðstöðina, opnað vefinn Ísland á filmu. Þar er að finna mörg myndskeið frá ýmsum tímum úr fórum safnsins. Hér er stutt myndskeið þar sem hraustir Hornstrandamenn undirbúa bjargsig snemma á 6. áratug síðustu aldar, einmitt þegar byggð á svæðinu er að leggjast af.
Vefurinn getur verið ágæt uppspretta hugmynda við skipulagningu ferðalags um Ísland í sumar. Til dæmis dreymir marga um að endurnýja kynnin af friðlandinu á Hornströndum eða sækja það heim í fyrsta skipti. Mynd Ósvaldar Knudsen, Hornstrandir, er fróðleg og skemmtileg. Gaman er að geta þess að í upphafi hennar hljóma tónar Stormsins úr Fjórum sjávarmyndum sem fyrrnefndur Benjamin Britten samdi og birtast í óperu hans, Peter Grimes.