Sunnudagurinn 28. júní
Meðmæli þessa júnísunnudags færa okkur að Arnarhóli, í Grafarvog og austur í Skálholt. Við bjóðum upp á þrívíða, tvívíða og tímatengda myndlist og glænýja tónlist á gömlum stað. Það þarf ekki að fara langt til að það teljist ferðalag. Galleríheimsókn við Arnarhól er fullgilt sem slíkt, líka kvöldganga á Geirsnefi.
I. Grafarvogur
Hjólið, Yfir Gullinbrú
112 Reykjavík
Sýningin er opin allan sólarhringinn til 20. september.
Yfir Gullinbrú er titill sýningar sem við mælum með og er eins og titillinn gefur til kynna að finna í Grafarvoginum. Þetta er þriðja sýningin sem Myndhöggvarafélagið stendur fyrir undir yfirheitinu Hjólið og er snilldarkonsept. Sumarsýning, útiverk, nýtt póstnúmer í hvert skipti. Einfalt og steinliggur.
Lagt af stað í bíl (gæti líka verið strætó eða hjól) í mjúkri kvöldsumarbirtunni, haldið í austurátt úr vesturbænum, yfir Gullinbrúna. Við finnum góðan leiðarvísi um verkin, kveikjum á listaverkaleitar-radarnum og spyrjum okkur „er þetta verkið?“, „en þetta, er þetta list?“. Þarna vorum við að leita að verki Klængs Gunnarssonar sem ég þekki lítið til og vissi því ekki hverju við væri að búast. Eftir þó nokkra leit og ósvaraðar spurningar, ákvað ég að fletta upp hverju við værum að leita að og í ljós kom ástæða þess að radarinn hafði ekki skilað tilætluðum árangri. Verkið var hljóðverk í ruslafötu við leikskóla í hverfinu. Við vorum við réttan leikskóla en við tók leit að réttu ruslafötunni. Leitin varð uppspretta mikils hláturs. Það er óhætt að segja að listin finni sér stað í ólíklegustu afkimum. Þetta er eitt af því sem ég elska við myndlist. Að finna mig í þessum aðstæðum.
Við þræddum okkur á milli verka, sem bæði er hægt að gera akandi með litlum labbitúrum, löngum labbitúr, nú eða eins og yfirskrift sýningarinnar leggur til, á hjóli. Anna Júlía Friðbjörnsdóttir vann í vetur með morse-kóða og skilaboð um tilvist og annað líf (innra líf?) og notaði þá ljósaperur til að tala út í myrkrið en styðst hér við blóm í birtunni. Hún skoðar líka söguna og rifjar upp að Grafarvogur er kenndur við bæinn Gröf á landnámsjörðinni Gufunesi en þar var kirkja frá árinu 1180 til 1886.
Við göngum um ótrúlegan skúlptúrgarð Hallsteins Sigurðssonar sem enn meiri ánægja er að heimsækja nú en venjulega. Þar er nefnilega að finna þriggja verka seríu, Every Body Holds A Beat eftir Rebeccu Erin Moran, en hún býr yfir einhverjum mest sprúðlandi og nærandi listræna krafti sem ég þekki. Verkin eru þátttökuverk og þannig komið fyrir að gestum er boðið að stíga á mjög fallegan, hóflega stóran og jarðbundinn danspall og njóta stórkostlegs útsýnis. Hverju verki fylgir tónlist frá sitthvorum plötusnúðnum, sem nálgast má með QR-merki (taka þarf mynd af merkinu við verkið og síminn finnur tónlistina). Ég mæli einlæglega með að taka með heyrnatól eða ferðahátalara og hvað sem þið ákveðið að gera — að prófa að taka nokkur spor. Njóta jafnvel klukkustundar langrar tónlistar við hvert verk til fullnustu og láta vaða og leyfa líkama og sál að fá fullkomna útrás. Líkaminn mun byrja að hreyfast þegar þið heyrið tónlistina.

Gestur í algleymi og góðum dansi.
Eftir flakk á milli fleiri verka endum við ferðina á að koma við á Geirsnefi en þangað hafði ég aldrei komið og var með ranghugmyndir um að þar væri hræðilegur blettur í borginni með hundagirðingum, vaðandi í hundaskít og trylltum voffum sem ekki væri þverfótað fyrir, þangað ætti ég aldrei erindi. Þar sem Eygló Harðardóttir sem ég hef miklar mætur á, valdi verki sínu stað þar átti ég loks erindi. Verkið stendur áberandi í landslaginu, einskonar vindsveifar hver með sinni litasamsetningu og vekja til umhugsunar um áhrif lita á manneskjur og dýr. Í sannleika sagt eins og gjarnan með verk Eyglóar þá vöktu þau upp margar spurningar, um eigið eðli, hvernig maður tekur ákvarðanir, efni í kringum okkur og um fegurðina. Verkin eru einskonar skynæfingar í sjálfum sér. Mér er alls ókunnugt hvort og þá hvernig Eygló hugsaði alla hundana inn í verkið, en ég ímynda mér að þeir njóti þess líka á þessum fallega stað.
Mörg eru þau lífsgæðin fólgin í því að búa í Reykjavík en sýningaröðin Hjólið dregur þau sannarlega fram. Margbreytileikinn í birtunni er efst á lífsgæða-sælulistanum mínum. Blöndum marglitri kvöldsumarbirtunni saman við göngu um stræti og torg eða náttúru í borg og góðan félagsskap, hlátrasköll og frumbyggjadans í Grafarvoginum og úr verður alsæla. Ég segi eins og afi gerði gjarnan, „Hvad har vi gjort for at have det så godt!“ með upphrópunarmerki og gliti í auga.
Sýningarstjóri er Birta Guðjónsdóttir. Listamenn eru Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Elísabet Brynhildardóttir, Eygló Harðardóttir, Hanan Benammar, Hulda Rós Guðnadóttir, Klængur Gunnarsson, Rebecca Erin Moran, Vala Sigþrúðar Jónsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir.
Við erum að hlusta
Við notum björt sumarkvöldin og síðustu vinnustundir fyrir sumarfrí til að glöggva okkur á nýrri íslenskri tónlist efrir staðartónskáld í Skálholti, Halldór Smárason og fleiri.
II. Skálholt
Lokatónleikar Sumartónleika
Skálholti, Biskupstungum.
Sunnudaginn 12. júlí kl. 17 (fjölskyldutónleikar kl. 14 og tónskáldaspjall 16:15).
Sú ágæta hefð hefur skapast á Sumartónleikum í Skálholti að bjóða tónskáldum athvarf á staðnum meðan á sumartónleikahátíðinni stendur. Nú hefur nýtt listrænt teymi tekið við stjórn þessarar hátíðar en sami háttur er hafður á. Í ár eru það tónskáldin Þóranna Björnsdóttir og Gunnar Karel Másson sem sitja Skálholtsstað í júlí en hátíðin hefst á fimmtudag.
Tónlistarhópinn KIMA skipa Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir söngkona, Katerina Anagnostidou slagverksleikari og Jónas Ásgeir Ásgeirsson harmóníkuleikari. Hópurinn dvelur einnig í Skálholti og vinnur með staðartónskáldunum meðan á hátíðinni stendur að frumflutningi nýrra verka þeirra sem hljóma á lokatónleikum Sumartónleikanna sunnudaginn 12. júlí.
Okkur langar að mæla með dagsferð í Biskupstungur, e.t.v. hádegisverði á Sólheimum og svo síðdegi í Skálholti. Dagskráin þennan hásumarsunnudag hefst með fjölskyldutónleikum þar sem fiðludúettinn Bachelsi kynnir sögu þeirra J.S. Bachs og Önnu Magdalenu og leikur lítt þekkt og þekktari verk þeirra.
Það er ástæða til að óska hátíðarhöldurum til hamingju með nýtt merki hátíðarinnar sem hefur sterka skírskotun í fallega altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Merkið er teiknað af norskum hönnuðum hjá Mos.
Klukkan 16:15 er boðið upp á tónskáldaspjall með þeim Gunnari Karel og Þórönnu. Þar ræða þau verkin sem hljóma á lokatónleikunum, vinnuna og listina. Það getur bætt heilmiklu við upplifun af nýrri tónlist að heyra aðeins um tilurð hennar og hér er því um rakið dæmi að ræða. Þegar hér er komið við sögu má telja líkegt að áskrifendur okkar hafi fengið glóðvolga meðmælamola í pósthólfin sín og því ekki úr vegi að glugga í þá þegar færi gefst milli atriða í Skálholti.
Þau Þóranna og Gunnar eru allrar athygli verð og gaman að sjá þau kölluð til leiks í Skálholti. Nýlega hlaut Gunnar Grímuna fyrir tónlist sína við Eyður sem við rituðum um hér fyrr á árinu og sópaði reyndar til sín fleiri verðlaunum. Þá var Þóranna tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir plötu sína Lucid.
Lokatónleikarnir hefjast svo kl. 17. Skálholtsdómkirkja er falleg bygging og ber húsameistara ríkisins, Herði Bjarnasyni arkitekt fagurt vitni. Samspil steinsteypunnar og tréverksins lætur manni næstum líða eins og maður sé kominn til útlanda (!). Þannig hefur það kannski verið lengi í Skálholti sem auðvitað var mikið höfuðból og miðstöð menningar, menntunar og lista landsins um aldir. Þannig að heimsókn þangað hefur kannski einmitt lengi verið soldið eins og að koma til útlanda.
Ekki skemma listaverk brautryðjendanna; altaristafla Nínu Tryggadóttur og nýuppgerðir gluggar Gerðar Helgadóttur fyrir. Og svo er það útsýnið af kirkjutröppunum þegar út er komið eftir velheppnaða tónleika. Þetta er allt, saman eða eitt og sér, ferðarinnar virði.
Yfir Hundaholt og -hæðir við Arnarhól
Hundaholt og Hundahæðir
Hverfisgallerí, Hverfisgötu 4
Sýningin er opin til 1. ágúst 2020
Sýningu Guðmundar Thoroddsen í Hverfisgalleríi má skoða með titil hennar, Hundaholt, Hundahæðir í huga. Guðmundur hefur gjarnan unnið með skondna karaktera í verkum sínum og að undanförnu hefur hann þokað þeim hægt og rólega dýpra inn í verkin sem birtast hér sem verk sem vel myndu sóma sér á heimili og færa með sér kæti. Á sýningunni eru einvörðungu málverk, engir skúlptúrar eins og hann lætur gjarnan fylgja málverkunum. Þau hafa góða nærveru og eru unnin í mjúka jarðtengda liti með örþunnu lagi af olíu á striga. Náttúra og álfabyggðir, holt, hæðir, hólar og hellar. (Ó)hlutbundinn prakkaraskapur sem leiðir hugann aftur að Geirsnefi.
Meðvituð um að hafa ábyggilega skrifað um það áður í fyrra bréfi til ykkar fer ég aftur að hugsa um samband manna, dýra og náttúru, sjálfið, kúlið og hvernig allt er með einhverju móti tengt. Það hefur væntanlega með að gera hvað er ofarlega í mínum huga og verður áminning um að ekkert eitt er rétt í þessum efnum. Verkið verður til í bilinu á milli þess sem listamaðurinn leggur fram og áhorfandans. Þær hugleiðingar sem vakna í dag verða kannski aðrar á morgun. Þannig er eðli góðra verka, að hreyfa við einum streng í dag og öðrum á næsta ári. Þannig stækka þau og við eftir því sem tíminn líður og samhengið breytist. Það væri þó töluverð krafa að leggja á listamenn í vinnu sinni að skapa slíkt rými og ljóst að skilyrðisleysið verður að vera ofar öllu í því samhengi. Það er jafnvel eilítill galdur ef þessi þensla verður og ógerningur að stýra.
Hverfisgallerí var upphaflega stofnað með áherslu á listamenn úr íslensku listasenunni sem unnu í málverk og aðra tvívíða miðla, hverra verk gætu höfðað til kaupenda hér á landi. Galleríið hefur nú verið starfrækt um þó nokkurra ára bil og hefur ef til vill færst nær þessari áherslu sinni ef eitthvað er. Opnun þess var kærkomin viðbót við myndlistarsenuna á Íslandi og er Hverfisgallerí nú í góðum hópi gallería á Íslandi sem vinna með listamönnum og kynna og selja verk þeirra hér á landi og erlendis. Auk Guðmundar eru þau Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Hildur Bjarnadóttir, Hrafnkell Sigurðsson og Kristinn E. Hrafnsson meðal þeirra sem eru á mála hjá galleríinu og vel er þess virði að kíkja á sýningu Guðmundar og fá að glugga aðeins bakvið tjöldin líka.
Með hásumarkveðju,
Edda og Greipur