Sunnudagurinn 12. janúar
Við óskum lesendum okkar gleðilegs árs. Við byrjum 2020 á gæðastundum heima fyrir og heimsókn í tvær af fegurri byggingum borgarinnar, Safnahúsið og Norræna húsið. Sýning í Safnahúsinu stendur sannarlega undir nafni og vísar manni á ný sjónarhorn og sama má segja um tvær kvikmyndir og dúndur góða heimildaþáttaröð á RÚV sem við leggjum til að enginn láti framhjá sér fara. Það er því hægt að halda sig bara heima í snjónum, drífa sig út, nú eða bæði.
I. Sjónarhorn
Í haust nefndum við að komið hefur í ljós að tónlistarlíf landans var ríkulegra fyrr á öldum en fólk hefur haldið til þessa. Nýleg bók Árna Heimis Ingólfssonar, Tónlist liðinna alda, sýnir fram á það, en þar dregur hann fram í dagsljósið nótnahandrit og ýmis varðveitt gögn um tónlist fyrri tíma. Hins vegar hefur lengi verið vitað að hinn sjónræni menningararfur Íslendinga er þónokkur. Hér ríkti býsna blómleg menning. Sýningin Sjónarhorn, sem opnuð var í mars 2015 þegar Safnahúsið enduropnaði, gerir sjónrænum arfi þjóðarinnar góð skil og við mælum með heimsókn þangað.
Þessi heilsteypta sýning frá fyrstu tímum og til samtímans, rekur sögu sjónmenningar á Íslandi, og speglar gjarna gamalt verk í öðru frá öðrum tíma, sbr. handrit Jónsbókar sett í samhengi við verk nítjándu aldar alþýðulistamannsins og flakkarans Sölva Helgasonar og gamlar kirkjumyndir af Maríu mey sem tengdar eru uppstoppaðri rjúpu og fálka með vísun í gamla þjóðsögu um tilraun Sankti Maríu til að kanna hlýðni fuglanna við sig.
Sýningin hefst á fornum minjum er tengjast kirkjusókn, gömlum innanstokksmunum og handritum. Þessi listasaga klifrar nær okkur í tíma og um leið upp hæðir Safnahússins, allt til nútímans þar sem myndlistarverk samtímalistamanna eru ríkjandi, en ávallt í snertingu við söguna. Á leiðinni má sjá verk unnin í ýmsa miðla; teikningar og myndskreytingar í skinnhandritum, litríkan vefnað, útskorna innanstokksmuni, sitthvað úr dýraríkinu, málverk og höggmyndir, ljósmyndir, video og innsetningar. Hún hefur einnig að geyma gömul landakort og sitthvað tengt náttúrukönnun og veðurathugunum, allt í samspili hvert við annað, hvort heldur er úthugsað eða af tilfinningu. Sagan og tíminn verða ljóslifandi með eilitlu grúski.
Nafngift sýningarinnar, Sjónarhorn, vísar til uppbyggingar hennar og er rýmum Safnahússins skipt upp í hluta þar sem sjónum gesta er beint í ákveðna átt; upp, niður, inn, út, í spegilinn og þar fram eftir götunum og geta þessi sjónarhorn bæði haft skírskotun til eiginlegrar myndbyggingar og eins til ólíkra þátta í samfélaginu og hvernig á þá er litið. Hún er enda samstarfsverkefni ólíkra stofnana; Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns, Landsbókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafns Íslands og birtir okkur samhengi hlutanna á nosturslegan hátt.
Á sýningunni er lagt upp úr að hægt sé að upplifa verkin fyrst og fremst með augunum og heilanum, en kjósi maður svo, er mikið lesefni/hljóðskjöl um hana aðgengilegt í safninu og á vefnum, þar sem kafað er ofan í einstaka þætti hennar. Sjónarhorn var sett upp til langs tíma, en henni var ætlað að standa í allavega fimm ár. Breytinga kann því að vænta á næstu misserum og því upplagt að glugga í upplýsingavef sýningarinnar og skunda í Safnahúsið, jafnvel þó þú hafir farið áður. Það er nefnilega gaman að fara á þessa sýningu aftur og aftur. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson og á hann heiður skilinn fyrir bráðsnjalla útfærslu á þessu flókna verkefni. Hér er gamalt viðtal við hann í Grapevine sem kósí er að lesa yfir sunnudagskakóbollanum.
Sjónarhorn Safnahúsinu,
Hverfisgötu 15.
II. Tveir páfar – annar í fríi
Það hefur farið nokkuð fyrir umræðu um Golden Globe-verðlaunin sem veitt voru fyrir réttri viku. Hildur Guðnadóttir tónskáld braut enda blað í sögu verðlaunanna, sem fyrsta konan til að hljóta þau einsömul, fyrir tónlist í myndinni Joker, og stimplaði hún sig um leið endanlega og það rækilega inn í Hollywood. Eins og gefur að skilja eru færri útvaldir en til kvaddir á verðlaunahátíðum sem þessari og ekki allir sigurvegarar eins og Hildur og fyrrum samverkamaður hennar Jóhann Jóhannsson sem hlaut verðlaunin árið 2014. Þau hlaut hann fyrir tónlistina í myndinni Theory of Everything. Handritið að þeirri mynd skrifaði Anthony nokkur McCarten en hann hlaut einmitt tilnefningu til verðlaunanna í ár fyrir annað handrit. Það er að myndinni The Two Popes sem frumsýnd var í Bíó Paradís í desember og er nú aðgengileg á Netflix.
Myndin segir frá samskiptum tveggja páfa; þess sem nú situr á páfastóli, Frans, og fyrirrennara hans, Benedikts XVI. Handrit McCartens er vel úr garði gert. Sagan gerist á nokkrum tímaskeiðum þó fyrirferðamest sé samvera Benedikts páfa og Jorge Mario Bergoglios (þá erkibiskups í Buenos Aires og kardínála) á lokametrum páfadóms þess fyrrnefnda. Handritshöfundur leggur út frá því að þeir hafi átt djúpt tveggja daga samtal um guð og hugmyndafræði kaþólsku kirkjunnar og þeirra eigin hugmyndir um framtíð hennar. Tilefni samtalsins er uppsagnarbréf, eða beiðni Bergoglios til lausnar úr embætti, sem Benedikt dregur að svara.
Lausnarbeiðni Bergoglios er staðreynd en sennilega átti þetta innihaldsríka samtal sér ekki stað enda herma fréttir að þeir Frans páfi og Benedikt séu í raun engir mátar. En sannleikurinn á ekki að koma í veg fyrir góða sögu og góð er hún. Samtölin eru byggð á tilvitnunum í páfana báða, í ræður þeirra, ummæli og skrif og gefa því einhverja mynd af skoðanaágreiningi og hvert þeir vilja sjá hina ótrúlegu kaþólsku kirkju stefna.
Sagan er ekki bara sniðug heldur er myndin vel gerð og ekki síst vel leikin. Og koma þá áðurnefnd Golden Globe-verðlaun aftur til skjalanna. Stórleikararnir í hlutverkum páfanna hlutu báðir tilnefningar fyrir framlag sitt til myndarinnar. Anthony Hopkins í hlutverki hins þýska Benedikts og Jonathan Pryce fyrir túlkun sína á Frans páfa. Líkindi Pryce og Frans eru reyndar töluverð, þeirra var víst getið strax við páfakjörið í mars 2013.
Breska kvikmynda- og sjónvarpsakademían birti tilnefningar til BAFTA-kvikmyndaverðlaunanna á þriðjudag og þar er sama upp á teningnum. Strákarnir eru tilnefndir á ný, handritið sömuleiðis og myndin hlýtur tilnefningu sem besta breska kvikmyndin. Á morgun verður svo gjört kunnugt hverjir verða til kvaddir á sjálfa Óskarsverðlaunahátíðina sem fram fer snemma í febrúar.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hinn velski Pryce leikur argentískt fyrirmenni því eins og einhverjir muna fór hann með hlutverk herforingjans og forsetans Juans Peróns í kvikmyndinni Evita sem byggir á samnefndum söngleik.
Við mælum með The Two Popes, hún gerir hversdagskvöld í skammdeginu hátíðlegt. Myndin er skemmtilegt innlegg í þá tískusveiflu sem keppist við að svala forvitni okkar um hefðir og reglur, líf og störf bak við luktar dyr og hefur fært okkur The Crown, nýja heimildaþætti um Friðrik IX. Danakonung á DR1 og nú páfana tvo.
Það er við hæfi að enda þennan mola á sömu nótum og við hófum hann. Tónlistin í myndinni hittir í mark. Hún undirstrikar loft- og tilfinningahitann á sögusviðum myndarinnar í Róm og nágrenni hennar sem og handan Atlantshafsins í Argentínu. Tónlistina gerir Bryce Dessner. Hann er þekktastur fyrir að vera hluti af bandarísku stórhljómsveitinni The National og er vafalaust einhverjum Íslendingum kunnur síðan hann samdi tónlist við verkið No Tomorrow sem hann vann með Ragnari Kjartanssyni og Margréti Bjarnadóttur og Íslenski dansflokkurinn setti á svið og hlaut Grímuverðlaunin 2017, fyrst dansverka, sem sýning ársins, en Dessner var þá einnig tilnefndur til Grímunnar fyrir tónlistina.
The Two Pops,
aðgengileg á Netflix.
Við erum með tónlist Bryce Dessner við Páfana tvo á fóninum, enda yljar hún í janúarkuldanum. Við rifjum líka upp kynnin af flautukonserti Iberts en hann hljómar á Ungum einleikurum með Sinfóníunni á fimmtudag.
III. Svona fólk í hámhorfi
Nú þegar við erum búin að tala um páfa og kaþólsku kirkjuna um stund beinum við sjónum okkar að réttindabaráttu samkynheigðra á Íslandi.
Svona fólk eru framúrskarandi metnaðarfullir þættir sem við mælum með að hámhorfa, enda eru þeir aðgengilegir fáa daga enn á RÚV, eða til 14. janúar. Þættirnir eru fimm (um 45 mín hver), og í þeim er rakin glerhörð baráttusaga samkynhneigðra á Íslandi, ákaflega skýrt framsett. Þeir eru fallega unnir og samsettir, af yfirvegun, alúð, nákvæmni, auðmýkt og ofur-raunsæi. Beittir og hispurslausir og varpa ljósi á söguna eins og hún er. Svo eru þeir líka skemmtilegir. Ólík sjónarhorn koma fram, viðbrögð við þeim og stórar og smáar breytingar sem ullu litlum öldum og risastórum. Hér er að finna ýmsar bakgrunnsupplýsingar um gerð þáttanna, viðmælendur, sögulega staði og fleira áhugavert. Þetta er merkileg saga.
Ég hef frá barnæsku vitað af þessari baráttu, enda var reglulega um hana, alnæmið, mannréttindi, frelsi og margt mikilvægt talað á heimilinu. Ég hafði aftur á móti ekki gert mér grein fyrir hve hörð baráttan var og fyrir mikilvægi einstakra þátta, til dæmis þeim merkisdegi þegar lög um staðfesta samvist samkynhneigðra voru staðfest á alþingi 1996. Þessum áfanga var fagnað í Borgarleikhúsinu, Vigdís Finnbogadóttir var þar, en ég ábyggilega að undirbúa mig fyrir menntaskólaball, fullkomlega glórulaus um straumhvörfin sem þarna urðu. Það er væntanlega ekki vegna þess að það voru engar lesbíur og hommar í mínum skóla, sú vitund var einfaldlega lítið á yfirborðinu. Það er sláandi að horfa aftur til baka og sjá þetta svo skýrt. Hrafnhildur Gunnarsdóttir vann að þáttunum í á þriðja tug ára, og koma fram í þáttunum upptökur feikilangt aftur í tímann og raunsagan er hér sögð í góðri samfellu.
Nú er kjörið að smala fjölskyldunni saman fyrir framan viðtækin, rýna í söguna og jafnvel skoða út frá þáttunum aðrar hliðar samfélagsins, önnur stór mál og hvernig við ætlum að takast á við þau. Við getum allskonar því við erum allskonar.
Svona fólk, RÚV
Aðgengilegt til 14. janúar
IV. Ekki okkar Drottning
Eilítið meira að horfa á í janúarmyrkrinu. Árlega fara fram norrænir kvikmyndadagar í Norræna húsinu, gjarnan í góðu samstarfi hússins og norrænu sendiráðanna í Reykjavík. Um næstu helgi, föstudag og laugardag, fara kvikmyndadagarnir fram og á þeim eru 6 myndir frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Svíþjóð. Hver mynd er aðeins sýnd einu sinni.
Að þessu sinni fara Norrænir kvikmyndadagar fram í samstarfi við glænýja kvikmyndahátíð, Reykjavík Feminist Film Festival, RKV. F.F.F.
Við beinum sjónum okkar að framlagi Dana í Norræna húsinu. Þar er á ferðinni verðlaunamyndin Dronningen sem hefur, réttilega, hlotið mjög misjafna gagnrýni síðan hún var frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar í fyrra og hefur síðan verið sýnd víða um heim. Hún var í kvikmyndahúsum á Íslandi í haust, um það leyti sem hún hlaut kvikmyndaverðlaun Norðulandaráðs á eftirminnilegri verðlaunahátíð í Stokkhólmi, þeirri sömu og þegar danski rithöfundurinn sem hlaut bókmennaverðlaunin hraunaði yfir forsætisráðherra sinn á fremsta bekk og þegar Gréta sjálf Thunberg afþakkaði umhverfisverðlaunin. Og eins og áður sagði er Dronningen alls ekki allra og eðlilega mjög umdeild.
En afhverju er hún umdeild? Jú, hún segir nefnilega frá Önnu sem er að því er virðist mjög góð kona. Og lögfræðingur í þokkabót sem hjálpar börnum. Anna á tvær dætur með Pétri, manni sínum sem er auðvitað læknir. Þau búa reglulega fallega. Allt leikur í lyndi þar til Gústaf, táningssonur Péturs af fyrra sambandi flytur inn til þeirra. Gústaf og Anna verða svo heldur um of hrifin hvort af öðru. Ástin er sögð spyrja ekki um aldur en þarna fer Anna auðvitað yfir strikið, slík sambönd eru heiminum tæplega óþekkt, enda ófáar sálgreiningar til um þau.
Ekki var samin sérstök tónlist fyrir myndina en hún er skreytt á listilegan hátt með fjölbtreyttri tónlist.
Kvikmyndin sem May el-Toukhy leikskýrir, er afskaplega vel úr garði gerð. Það má varla finna á henni hnökra. Leikmyndin, glæsilegir búningar, og þá sérstaklega Önnu, klipping og handrit bera aðstandendum fagurt vitni. Hver senan á fætur annarri einstaklega falleg. Og leikurinn, maður minn, frábær. Handritið skrifa þær May og Maren Louise Käehne sem hefur meðal annars komið að ritun dönsku sjónvarpsseríanna Brúarinnar og Borgarinnar. Næmni fyrir hverju smáatriði gerir söguna enn áhrifaríkari.
Nú gefst sum sé eitt tækifæri enn til að sjá Trine Dyrholm í þessari mögnuðu kvikmynd, en margir muna eftir henni úr Erfingjunum en May el-Toukhy kom að leikstjórn þeirra þátta. Aðgangur að Norrænum kvikmyndadögum er ókeypis en hægt er að tryggja sér sæti með að taka frá miða á tix.is.
Dronningen,
Norrænir kvikmyndadagar, Norræna húsinu,
laugardaginn 18. janúar kl. 18.30.
Góðar kveðjur,
Edda og Greipur
Við mælum á ný með gæðastund í umferðinni 🚗
Charles Atlas (1893-1972) var ítalsk-amerískur vaxtarræktarmaður, töluvert á undan sinni samtíð. Hann mótaði líkama sinn nánast eins og höggmynd og tók enda nafn sitt af gríska guðinum Atlasi, þeim er bar heiminn á herðum sér. Listamaðurinn Charles Atlas (1949) er aftur á móti bandarískur og hefur gert gommu af frábærum verkum. Tveggja rása videoverk hans Kiss the Day Goodbye (2015) má sjá og njóta dag sem nótt í gegnum glugga i8 gallerís næstu vikurnar. Seiðandi sólsetrin og flakkið í verkinu gætu þyngt axlarbirðarnar eða lyft eilitlu af herðum þeirra er gefa sér stund til að taka það inn, allt eftir því hvernig horft er á verkið.
Charles Atlas: Kiss the Day Goodbye, 2015,
i8 gallery, Tryggvagata 16
Eitt enn….
….munum smáfuglana. Þeir elska hafra léttristaða í smjöri og eplabita.