Hvítasunnudagur, 31. maí.
Það sem gróðurinn hlýtur að vera glaður með vætu liðinna daga eftir þá sólríku sem kættu hitakæra borgarbúa. Allt sprettur nú á ógnarhraða, grænkar og blómgast. Í dag mælum við með upphitun fyrir HönnunarMars sem verður í lok júní, langþráðri stund í tónlistarhúsi, sýningu á teikningum um teikningar og persónulegri athugun á teikningum í kjölfarið.
I. Lokatónleikar – nýtt upphaf
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Víkingur
Eldborg, Hörpu (og í beinni á RÚV og Rás 1)
Fimmtudaginn 4. júní kl. 20.
Það var nokkuð óvænt sem Sinfóníuhljómsveit Íslands gafst tækifæri á að ljúka viðburðaríku og óvenjulegu tónleikaári með tónleikagestum í Eldborg. Hljómsveitin og RÚV höfðu sammælst um að ljúka samkomubanni og álögum þess með þrennum sjónvarpstónleikum beint úr Eldborg enda myndi hljómsveitin dreifa óvenjumikið úr sér á sviðinu og efnisskrá tónleikanna taka mið af eilítið færri hljóðfæraleikurum. Þannig var Mozart áberandi á efnisskrá fyrstu tónleikanna í þessu tónleikatríói; Hallveig Rúnarsdóttir söng óperuaríur og íslensk sönglög. Hljómsveitin hefur nú birt nokkur myndbönd frá þeim tónleikum á Youtube-rás sinni.
Á fimmtudag er svo komið að lokatónleikum starfsársins, tónleikum sem voru ekki kynntir í haust sem hluti af dagskrá þess. Tónleikunum stýrir aðalgestatjórnandi hljómsveitarinnar Daníel Bjarnason. Líkt og á þeim fyrstu er Mozart áberandi. Víkingur Heiðar Ólafsson leikur konsert hans fyrir píanó og hljómsveit, leikandi létt verk – sá 23. og síðasti af píanókonsertum Mozarts.
Tónleikarnir hefjast hinsvegar á mögnuðum 2. kaflanum úr 7. sinfóníu Ludwigs van Beethovens. Margir muna eflaust eftir áhrifaríku aðalatriði í kvikmyndinni The King’s Speech þegar Colin Firth í hlutverki Georgs VI þarf að taka á honum stóra sínum og ávarpa þjóðirnar sínar í útvarpi. Undir hljómar þessi fallega tónlist, eins konar tilbrigði þar sem tvö stef skiptast á, hið fyrra alvarlegra í moll sem vex sífellt í styrk, hitt blíðara í dúr, hnígandi og rísandi skalar þar sem klarínett og fagott eru í forgrunni.
Brot úr myndinni The King’s Speech frá 2011. Tónlistin eftir Ludwig van Beethoven.
Þó það sé fagnaðarefni að Sinfónían leiki nú í Eldborg með gesti í salnum er langt frá því að hann geti verið fullskipaður. Eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis hefur Eldborg verið skipulögð þannig að nægt pláss sé fyrir alla og aðgengi auðvelt. Þetta þýðir auðvitað að færri munu komast að en vilja enda jafnan vel selt á tónleika þar sem Víkingur og Daníel leiða saman hesta sína, fyrir utan þann tónleikaþorsta sem fastagestir Sinfóníunnar finna nú til. Við hvetjum því áskrifendur okkar til að tryggja sér miða sem fyrst.
Við höfum gert ráðstafanir. Við fengum að halda nokkrum miðum á góðum stað sem áskrifendur okkar geta keypt meðan birgðir endast fram á þriðjudag.
Í haust sendum við áskrifendum okkar meðmæli um tónleika í Regnbogakort hjá Sinfóníunni. Einum þeirra þurfti að fresta vegna heimsfaraldursins en sem betur fer var þeim ekki aflýst. Við hlökkum til að mæla með Regnbogaröð á ný í haust.
Við erum að hlusta
Nú miðast lagalistarnir okkar við að raða saman tónlist fyrir ferðalagið hvort sem það er bílferð, gönguferð eða bara stutt lautarferð. Smá kántrí, smá söngl, bæði gamalt og nýtt; frá 18., 19., 20. og 21. öld.
II. Teikning um teikningu
Mestmegnis teikningar
i8 Gallery, Tryggvagötu 16
Sýningin stendur til 20. júní
Allir sem hafa áhuga á teikningu í víðum skilningi ættu að kynna sér verk Kristjáns Guðmundssonar (1941) vel og vandlega. Nú stendur yfir einkasýning hans, Mestmegnis teikningar í i8 Gallerýi og við mælum með heimsókn. Það er lítið tvívítt við þessar teikningar en Kristján eins og fleiri listamenn hafa um langt árabil unnið óhefðbundnar teikningar, eða teikningar um teikningar, og hér spretta þær fram íðilfagrar og dýpri en nokkurt rótargrænmeti svo hrein unun er að vera innan um þær.
Verkið Innrömmuð teikning frá 2020 sogaði mig til sín. Það er eins og það hafi marga þyngdarpunkta, svo einfalt við fyrstu sýn og seiðandi eins og mörg verka listamannsins. Grafítsívalningar eru hér felldir inn í skjannahvítt frauðplast, tvö efni sem við þekkjum úr ólíku samhengi í hversdagslífinu. Límd saman af titli verksins, Innrömmuð teikning. Hér er kominn efniviður til heilabrota. Ég verð að viðurkenna að ég stóð agndofa frammi fyrir þessu verki. Hugsa um örþunna blýið í skrúfblýantinum (sem Kristján hefur reyndar notað í eldra verki) og massann hér úr ósviknu grafíti sem svífur um í hvítunni.
Gegnheilt grafít hefur Kristján unnið með allt frá níunda áratugnum en á þeim tíma byrjaði hann að vinna meira með efni (t.d. rúllur af pappír) sem teikninguna sjálfa frekar en eiginlega teikningu sem hann hafði áður unnið mikið með í anda hugmyndalistarinnar. Titlar og efnisval eru þannig meðal grundvallandi þátta í verkum hans. Kristján notar óspart margvíslegar vísanir í verkum sínum, líkt og hann notar grafítið sem staðgengil teikningarinnar, eða sem möguleika á teikningu svo úr verður teikning um teikningu. Þannig fjalla verkin kannski um möguleika. Sjálfur hefur Kristján sagt að hann vilji að myndlist sín sé „tóm en hlaðin“. Ekki er hægt að segja annað en að verkin á sýningunni séu einmitt bæði vel ydduð og blýþung.
Ósótt útsýni (2019–2020) og Innrömmuð teikning (2020). Mynd fengin að láni frá i8 Gallerýi.
Til fróðleiks og frekari heilabrota má geta þess að grafít hefur fundist í loftsteinum og er eitt elsta steinefni alheimsins, eitt af tólf sem voru til áður en sólkerfið okkar kom til sögunnar. Efnið er samþjappað kristallað form kolefnis og við aukinn hita og þrýsting umbreytist það í demant. Það er eins og þessir eiginleikar verði áþreyfanlegir þegar staðið er frammi fyrir fyrrnefndri Innrammaðri teikningu. Grafít er líka góður leiðari á hita og rafmagn svo fræðilegur möguleiki er á að það tengi beint inn í taugakerfið okkar ef í nánd við efnið í miklu magni, eimaðri umgjörð og í ákveðnu hugarástandi. Sum sé, akkúrat andspænis umræddum teikningum Kristjáns Guðmundssonar á björtum degi í galleríi í Reykjavík. Þetta kann að hljóma dramatískt en mér leið í alvörunni eins og (þyngdar)punktarnir sem sitja fislétt í frauðplastinu tengdu inn í aðra vídd.
Eitt verkanna Ósótt útsýni (2001-2020) gladdi mig að sjá, en það var hluti af sýningunni Í alvöru á Sequences IX 2019 og sett upp í Kling&Bang. Verkið er fyrirmælaverk og felst í því að fara í gluggaverksmiðjur og fá að hirða ósóttar gluggapantanir sem er raðað upp í sýningarrýmið. Þetta verk verður að teljast eitt af mínum uppáhálds og það var reglulega gaman að sjá hvernig það lagar sig að rýminu og samhenginu, enda útkoman breytileg eftir aðföngum og sýningarrýminu.
Ósótt útsýni bættist við sýninguna Mestmegnis teikningar á seinni stigum og sagan segir að rétt fyrir opnun hafi listamaðurinn í andköfum hringt í galleristann við sólsetur skömmu fyrir opnun og sagst þurfa að breyta titli sýningarinnar sem átti að vera Teikningar, því nú væri á sýningunni eitt verk sem væri alls ekki teikning. Mestmegnis teikningar væri nær lagi og titlinum var því breytt í miklum snatri. Nákvæmnin í fyrirrúmi.
Nefni að lokum eitt annað verk á sýningunni, Ólympísk teikning, 100 metra hlaup karla, (2014), sem er úr seríu verka þar sem Kristján notar íþróttagræjur vottaðar af Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu og eru notaðar í ólympískum íþróttum. Hér mæta grafítstangir viðspyrnumóti úr ólympísku hlaupi. Og leggi nú hver í sína hugarleikfimi.
Kristján er óumdeilt meðal okkar næmari samtímalistamanna og verk eftir hann, hvort sem eru eldri eða splúnkuný, vaða í póesíu á ystu brún raunveruleikans í dúnmjúkum einfaldleika sínum og margbrugðinni óræðni. Ávallt tær og hugvíkkandi.
III. Rannsóknarverkefni Godds
Íslensk myndmálssaga, vinnustofa – Safnið á röngunni
Guðmundur Oddur Magnússon
Hönnunarsafn Íslands, Garðatorg 1
Fyrirlestur sunnudaginn 7. júní kl. 13.00
Vinnustofan og viðburðir standa til júníloka 2020
„Allar stórar hreyfngar í listum og hönnun sem sjást í baksýnisspeglinum fæðast á tilteknum stað eða jafnvel stöðum, dreifast eins og smit, mishratt ef til vill, og taka á sig staðbundnar myndir eftir verkþekkingu og efnisnotkun.“ Svo ritar Guðmundur Oddur Magnússon, grafískur hönnuður, grúskari og einskonar pabbi yngri kynslóða listamanna og hönnuða á Íslandi, um rannsóknaverkefni sitt Íslensk myndmálssaga, í grein í nýjasta HA tímariti um hönnun og arkitektúr sem kom út í haust. Við höfum útvegað greinina og búið þannig um hnútana að þið getið nálgast hana hér.
Mynd úr grein Godds í HA í haust. Skjáskot.
Hönnunarsafn Íslands hefur um nokkurt skeið unnið með hugmyndina um safnið á röngunni og boðið listamönnum og hönnuðum til vinnustofudvalar. Nú er það Goddur sem dvelur í vinnustofunni í tengslum við rannsóknarverkefnið, sem er mjög umfangsmikið. Í safninu á röngunni gefst gestum kostur að skyggnast bak við tjöldin, skoða safngripi sem eru í skráningu, nýjar gjafir til safnsins og nú að fá innsýn inn í þessa miklu rannsóknarvinnu Godds. Hann hefur við annan mann grúskað um langt árabil í íslenskum sjónarfi og er nú í miðjum klíðum að rita sögu þess sem við í dag köllum grafíska hönnun. Í vinnustofunni miðlar hann úr efni rannsóknarinnar og kallar eftir samtali við fólk sem kann að búa yfir heimildum eða vísbendingum sem bæta við myndina sem hann teiknar nú upp af kostgæfni. Nú er komið að öðrum fyrirlestri Godds af þremur og við mælum með að kíkja á hann og fá innsýn inn í þessa safaríku sögu.
Slíka sögu þarf nefnilega að grafa upp og enginn betri til verksins en Goddur sem ekki bara hefur reynsluna og er margfróður um efnið, heldur er hann tvíburi í húð og hár, rýnir og rannsakandi, sagnfræðingur og sögumaður. Hann þekkir mann og annan og þann þriðja og vinnur nú að því að koma saman þessu flókna mörgþúsundbita pússli sem engin fyrirmynd er að. Á fyrirlestrinum gefst einnig kostur á að spyrja spurninga og eiga samtal um efnið.
Heitið grafísk hönnun kom víst ekki til fyrr en fyrir um 30 árum en fyrir það var faggreinin sem um er rætt kölluð auglýsingateiknun, teikning eða hagnýt teikning. Grafík er svo upprunalega annað listform innan myndlistar en hugtökin bráðna hér saman þó formið sé um margt ólíkt í dag en hafi verið tengdara í fortíðinni. Áður en hugtakið grafísk hönnun náði að festast í sessi stofnuðu þeir sem í greininni störfuðu Félag íslenskra teiknara, sem í dag er öflugt fagfélag grafískra hönnuða og veitir árlega á HönnunarMars verðlaun fyrir vel unnin verk. Undanfarið hafa verðlaunahafar verið kynntir á Vísi og þannig engin undantekning á þessu ári þó HönnunarMars verði reyndar HönnunarJúní.
Við skrifin rýnir Goddur í bak og fyrir og skoðar meðal annars áhrifavalda og kveikjur að breytingum á sviðinu. Við einfalda en áður óreynda samlagningu kemst hann að því að systur tvær, Soffía Emilía og Sigríður Einarsdætur hafi verið miklir áhrifavaldar í lífi Stefáns nokkurs Eiríkssonar sem síðar stofnaði skóla í teikningu um aldamótin 1900 og menntaði í teikningu Guðjón Samúelsson, Guðmund frá Miðdal, Sigríði Zoëga, Gunnlaug Blöndal og fjölmarga fleiri sem telja má til fyrstu kynslóðar sjónlistafólks frá Íslandi. Systurnar, eiginmenn þeirra og William Morris voru tengd og leiða má ljós að því að þeirra á milli hafi ýmis samtöl og iðja farið fram sem áttu eftir að hafa víðtækari áhrif en hvert og eitt þeirra gat órað fyrir. Dagsljóst er á þessu að áhrif þeirra kynna og skarpskyggni og næmi systranna hafi haft djúpstæð áhrif í íslensku listalífi.
Svona ferðast hugmyndir og áhrifanna gætir gjarnan víða, jafnvel þó að óljóst eða ómögulegt sé að finna uppruna hugmyndarinnar. Fyrir þá sem vilja grúska meira á þeim nótunum settu þeir Deleuze og Guattari fram (umdeilda) kenningu á áttunda áratugnum sem í sinni einföldustu mynd fjallar um það hvernig hugmyndir og kenningar í samfélögum ferðast án ákveðins upphafspunktar. Þeir styðjast við myndlíkingu vaxtar ákveðinna plantna, rhizome, eins og skriðsóleyja sem margir eru eflaust að kljást við í garðverkunum um þessar mundir og virðast ávallt finna sér leið, en hverra upphafspunktur er órekjanlegur. Þó Goddur vinni að því að afhjúpa staðreyndir og rekja söguna má til gamans geta ritgerðar ónafngreinds nemanda úr heimspekideild sem skrifaði um heimspeki skilnings og misskilnings þar sem rísómið kemur aldeilis við sögu (bls 52) og er meðal annars lýst sem hringlaga án miðju. Það er víst nóg sem hægt er að brjóta heilann yfir og við elskum það.
Góðar stundir,
Edda og Greipur
Eitt enn – skynæfing
Við bjóðum upp á skynæfingu eitt. Hún er innblásin af sýningu Kristjáns Guðmundssonar og felst í því að þið kæru lesendur rennið augunum yfir nærumhverfi ykkar og finnið teikningar í því. Æfingin endurtakist nokkrum sinnum yfir nokkurt tímabil í ólíkum aðstæðum, til dæmis á leið upp tröppur, þegar horft er stutt eða langt í ólíkar áttir, á íþróttaviðburði gefist færi á, þegar horft er út um glugga, á ferð um landið, úti í garði eða á bát. Skráið niðurstöðurnar í einhverju formi.